adsendar-greinar Heilsa
Skarphéðinn Magnússon, yfirþjálfari hjá Knattspyrnufélagi ÍA. Ljósm. kgk.

„Notum bolta og leik til að búa til heilsteypta einstaklinga“

Yngri flokka starf knattspyrnuhreyfingarinnar raskaðist lítið vegna Covid-19 í sumar. Allar æfingar fóru fram og sú var reyndar einnig raunin í samkomubanninu í vor. „Þá voru æfingar í formi fjaræfinga alla virka daga. Ég held að við höfum staðið okkur mjög vel þar og er ánægður hversu vel foreldrarnir stóðu sig þar líka. Eftir samkomubannið varð ekki brottfall eins og við bjuggumst við heldur komu bara allir til baka,“ segir Skarphéðinn Magnússon, yfirþjálfari hjá Knattspyrnufélagi ÍA, í samtali við Skessuhorn. Mótahald yngri flokka hefur sömuleiðis lítið sem ekkert raskast, þangað til nú í ágústmánuði.

„Norðurálsmótið okkar á Akranesi, Orkumótið og TM-mótið í Eyjum, Set-mótið á Selfossi og Rey Cup voru öll haldin. Það náðu allir sínum stóru mótum hérna heima. Það eina sem féll út hjá okkur var að 3. flokkur kvenna komst ekki til Danmerkur á Vildbjerg Cup, sem var frestað. En það verður bara farið næst,“ segir hann. „Það gekk bara vel hjá öllum okkar iðkendum að fara á þessi mót. Þau snúast að miklu leyti um upplifunina af því að fara á mót. Krakkarnir læra mikið á því að keppa og við viljum auðvitað fá sem flesta leiki. En síðan er það líka að læra að vera í hóp, hvernig maður hegðar sér í hóp, hvernig maður hegðar sér í keppni og fyrir utan keppni, hvernig maður á að taka tapi og sigrum. Þeir sem eru að fara á mót og gista í fyrsta skipti þurfa að leysa það verkefni og takast á við að vera ekki alltaf undir verndarvæng forráðamanna. Það er miklu meiri lærdómur fólginn í þessu fyrir krakkana en bara að spila fótbolta,“ segir hann og bætir því við að hann líti á yngri flokka starfið sem nokkurs konar uppeldisstofnun. „Á meðan grunnskólarnir nota bækur og lestrarefni þá notum við bolta og leik til að búa til heilsteypta einstaklinga. Við vitum alveg að það verði ekki allir atvinnumenn, en stefnan er að skila öllum ánægðum út úr starfinu hjá knattspyrnufélaginu,“ segir Skarphéðinn. Það sé meðal annars gert með því að skapa góðar minningar af knattspyrnumótum yfir sumarið. „Hvort sem maður var bestur í liðinu eða fannst bara alveg jafn gaman að skoða fuglana, þá er samt gaman að taka þátt. Við viljum að upplifunin af því að vera í knattspyrnu hjá ÍA sé góð. Burtséð frá því hvort krökkunum finnst skemmtilegt að spila fótbolta á að vera gaman í hópnum og gaman að hitta strákana og stelpurnar,“ segir yfirþjálfarinn.

Ófá mótin

Og mótin sem farið var á í sumar voru ófá. „Stelpurnar í 5. flokki kvenna fóru til Eyja á TM-mótið og stóðu sig mjög vel, komu heim með einn bikar meira að segja, þó það sé ekkert endilega stóra málið. Við fórum með þrjú lið og tvö þeirra komust í úrslitaleiki. Mótið í Eyjum er sniðugt, þar sem er spilað eftir jafningjakerfi,“ segir Skarhéðinn. Fyrirkomulagið virkar þannig að liðum er raðað í nýja riðla eftir úrslitum fyrri keppnisdags. Lið sem sigrar alla sína leiki fyrsta daginn lendir þannig næsta dag í riðli með öðrum liðum sem hafa unnið sína leiki. „Þannig að síðasta daginn eiga allir möguleika á bikar og fá að spila jafningjaleiki,“ segir hann.

Strákarnir á eldra ári í 6. flokki karla fóru á Orkumótið í Eyjum og stóðu sig mjög vel að sögn yfirþjálfarans. „Þangað sendum við líka þrjú lið og var hópurinn í heild valinn prúðasta liðið á mótinu, sem eru stærstu verðlaun mótsins. Þessi hópur er mjög flottur og samstilltur, enda fékk hann verðlaun fyrir það. Einn úr hópnum var valinn í Orkumótsliðið og það var ekki að finna minnstu öfund hjá hinum, heldur glöddust þeir með honum. Það er skemmtilegt og ekkert sjálfsagt hjá ungum strákum, oft verður einhver fúll að hafa ekki verið valinn. En það er ekki til í þessum hóp, það er mikil samstaða,“ segir hann.

Yngra árið í 6. flokki karla fór á Set-mótið á Selfossi. Segir Skarphéðinn að þar hafi allir staðið sig með prýði og mótið verið skemmtilegt. Strákarnir í 5. flokki karla fóru á N1 mótið á Akureyri í byrjun júlí. „Þeir voru hrikalega flottir, stóðu sig vel og eitt liðið kom heim með bikar,“ segir hann. „Svo kepptu 3. og 4. flokkur karla á Rey Cup og fengu háttvísiverðlaunin, báðir flokkar. Það er viðurkenning á að við séum að gera eitthvað rétt í okkar starfi, því auðvitað eru þetta allt saman mót þar sem strákar og stelpur misstíga sig. Það eru gerð mistök í hegðun sem eru bara notuð til að læra af,“ segir Skarphéðinn.

Stelpurnar í 5., 6. og 7. flokki kepptu á Símamótinu í Kópavogi. Yfirþjálfarinn segir að það mót hafi verið virkilega skemmtilegt og vel heppnað, þó það hafi verið með öðru sniði en verið hefur undanfarin ár vegna Covid. „Svo hefur Íslandsmótið bara gengið upp og ofan, sigrar og töp eins og gengur en allt farið þokkalega fram. Akkúrat núna er stopp í 2. og 3. flokki karla og kvenna, en spilað í 4. flokki og niður úr,“ segir hann.

Síðast en ekki síst ber að nefna Norðurálsmótið, sem knattspyrnufélag ÍA stendur fyrir á Akranesi ár hvert fyrir 7. flokk. „Núna tók 8. flokkur líka þátt í mótinu, þannig að það voru krakkar frá leikskólaaldri og upp í 10. bekk grunnskólanna sem tóku þátt í hinum ýmsu mótum fyrir hönd ÍA í sumar,“ segir hann.

Góð þátttaka í mótum

Þegar allt er talið telur Skarphéðinn að um 350 iðkendur hafi keppt á mótum í sumar undir merkjum ÍA, frá 3. flokki og niður úr. Hann segir aðsókn iðkenda í mótin jafnan góða, en í 2.-8. flokki er heildarfjöldi iðkenda 426. „Það eru langflestir sem fara á mótin, mætingin er almennt mjög góð. Ef krakkarnir eru meiddir þá fara þeir samt með þó þeir séu ekki að keppa, sérstaklega yngri krakkarnir, af því það er upplifun að vera með hópnum á svona móti,“ segir Skarphéðinn.

Hann segir þátttöku ÍA í öllum þessum mótum yngri flokkanna ekki mögulega nema fyrir dyggan stuðning foreldra og forráðamanna. „Það væri ekkert hægt að fara á þessi mót nema vegna þess hvað foreldrar eru duglegir að hjálpa til við skipulagið. Þeir halda að miklu leyti utan um þetta ásamt þjálfurum. Það eru mjög frambærilegir þjálfarar hjá félaginu en hver er kannski einn með 30 krakka í móti, fullt af leikjum sem hann þarf að hlaupa á milli og hann nær ekki að sinna því sem á sér stað á milli leikjanna. Hans hlutverk í mótum er fyrst og fremst að stjórna liðunum í leikjum, þó við reynum auðvitað að taka þátt eins og við getum utan leikjanna sjálfra,“ segir Skarphéðinn.

Vel staðið að starfinu

Skarphéðinn hefur verið yfirþjálfari knattspyrnufélagsins um tæplega tveggja ára skeið, en hefur þjálfað hjá ÍA í bráðum sex ár. Hann hefur þjálfað 6. og 7. flokk karla frá því hann steig sín fyrstu skref sem þjálfari hjá félaginu. „Þeir sem eru á eldra ári í 5. flokki karla hafa þannig aldrei haft neinn annan þjálfara,“ segir hann. „Auðvitað eru kostir og gallar við það en ég tel að það sé mikilvægt að hafa festu í starfinu, að það sé alltaf sá sami sem þjálfar yngstu krakkana sem þeir þekkja. Það skiptir svo miklu máli til að krökkunum líði vel og þau viti að hverju þau ganga,“ segir hann. „Ég fór á öll mót sumarsins að einhverjum hluta, nema Rey Cup. Mér finnst mikilvægt að krakkarnir í félaginu viti hver yfirþjálfarinn er og að hann þekki krakkana. Ég held ég þekki alla iðkendur með nafni úr 3. flokki og niður úr, þó það slái saman nöfnum stöku sinnum. Þetta eru 426 krakkar,“ segir hann og brosir.

Iðkendafjöldinn hefur haldist nokkuð stöðugur eða vaxið lítillega milli ára undanfarin ár. Skarphéðinn kveðst ánægður með það. „Ég heyri af ánægju með margt í starfinu og margt er mjög vel gert hjá okkur. Auðvitað er alltaf eitthvað sem má gera betur, en ég held að heilt yfir sé mjög vel að öllu staðið hjá okkur,“ segir hann.

Allir velkomnir

Sem yfirþjálfari annast Skarphéðinn meðal annars samskipti við foreldra og forráðamenn allra yngri flokka. Hann áætlar að þeir gætu verið allt að 800 talsins, miðað við 426 iðkendur. „Þetta er ótrúlega stórt batterí og ýmis mál, bæði lítil og stór, sem koma upp og þarf að leysa. Það fer allt í gegnum mig,“ segir Skarphéðinn. Hann hefur því í mörg horn að líta en tekur skýrt fram að hann vilji frekar fá að heyra af því ef fólki þykir eitthvað mega betur fara en ekki. Aðeins þannig sé hægt að taka á málunum. „Því ef maður heyrir ekki neitt þá veit maður ekki neitt,“ segir hann. „Við höfum auðvitað ákveðnar hugmyndir um hvernig við viljum gera hlutina. Við viljum spila fótbolta og leggjum áherslu á að nota hann til að kenna aga, virðingu og samkennd,“ segir Skarphéðinn. „En við erum alltaf til í að fá að heyra hvað fólki finnst, því þetta er mikilvægt starf fyrir samfélagið og mikilvægt að vel sé hlúð af því af hálfu sveitarfélagsins svo það geti gengið. Það skiptir svo miklu fyrir samfélög að hafa gott tómstundastarf fyrir börn og unglinga. Ég tel að við hjá knattspyrnufélaginu stöndum okkur vel í því eins og önnur félög innan ÍA. Það er úr mörgu að velja fyrir krakka á Akranesi. Við erum mjög ánægð með þá iðkendur sem eru hjá okkur og getum alltaf tekið á móti fleirum. Það eru allir velkomnir í fótboltann, alltaf. Það er stefna félagsins,“ segir Skarphéðinn Magnússon að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira