adsendar-greinar Mannlíf
Ljóðalærdómur gengur betur en margföldunartaflan.

Níu sinnum taflan hefur aldrei verið jafn flókin

Ljóst er að þegar það fordæmalausa ástand sem nú ríkir í samfélaginu líður hjá þarf að eiga sér stað mikil uppbygging. Ekki þarf aðeins að byggja upp almenna starfsemi í samfélaginu og bregðast við klósettpappírsskorti í verslunum heldur munum við eflaust þurfa að ráðast í stórtæka uppbyggingu á sambandi barna og foreldra. Eftir sóttkví og heimakennslu má gera ráð fyrir að á mörgum heimilum ríki ástand sem jafnvel væri hægt að bera saman við stríðsástand, sér í lagi þar sem við Íslendingar höfum litla reynslu af öðru stríðsástandi en því sem á sér stað í kringum kvöldmatartíma á heimilum þar sem leikskólabörn búa eða því sem við sjáum fyrir utan verslanir eða kleinuhringjakeðjur sem eru að opna útibú hér á landi.

Ekki búa öll börn svo vel að eiga foreldra með þann hæfileika að geta miðlað þekkingu á skiljanlegan hátt og eru börn undirritaðrar einmitt í þeim hópi. Ekki nóg með að ég þurfi í snatri að læra hvernig skuli kenna þau fög sem ég tel mig þokkalega góða í, eins og stærðfræði fyrir fjórða bekk, þá þarf ég einnig að geta tekið við kennslu í danskri málfræði, „jeg skilur ikke dansk,“ eða eitthvað í þá áttina. Eina danskan sem ég gæti kennt er hvað merkingarnar á þvottavélinni minni þýða, kannski gæti ég því sameinað dönskukennslu við heimilisfræði og látið börnin setja í þvottavél. Það kæmi sér reyndar vel að láta krakkana sjá um þvottinn þessa dagana, ég á alveg nóg með að reyna að halda uppi kennslu, sinna minni vinnu og halda geðheilsu. Það verður að segjast að á mínu heimili eru þetta ekki aðstæður til að njóta samveru með fjölskyldunni, ekki þegar ég er að reyna að kenna níu ára dóttur minni níu sinnum töfluna, níu sinnum sex er reiknað alveg eins og tíu sinnum sex mínus sex. Þetta er ekki flókið! Hver hefði trúað því að eftir níu ár saman þar sem barnið hefur algjörlega dáð og dýrkað móður sína í gegnum súrt og sætt – er það níu sinnum taflan sem loks gerir útaf við samband þeirra?

Sendum styrk til allra foreldra sem eru á mikilvægum símafundum um leið og þeir eru að skeina einum tveggja ára, kenna öðrum tíu ára að baka brauð og rífast við 15 ára ungling um af hverju við þurfum að læra algebru. Sendum líka styrk til allra barnanna sem eru innilokuð með úrillum foreldrum sem eiga ekkert eftir af þolinmæði og að lokum sýnum þakklæti öllum kennurum, leikskólakennurum og öðrum sem taka virkan þátt í uppeldi barnanna okkar og hugsa um þau svo hjól atvinnulífsins geti snúist af fullum krafti. Eins og fram hefur komið í umræðunni (oftar en ég get talið) er þetta fordæmalaus staða sem við erum að takast á við og allir eru að gera sitt besta, eða í það minnsta flestir (vil ég trúa). Sýnum skilning og þolinmæði, þetta líður hjá.

Anna Rósa Guðmundsdóttir

Höf. er móðir og blaðamaður á Skessuhorni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira