adsendar-greinar Mannlíf
Nemendur unglingastigs Grunnskóla Borgarness ásamt kennurum sínum.

Nemendur unglingastigs GBN hönnuðu draumalandið

Vegna framkvæmda sem staðið hafa yfir við Grunnskólann í Borgarnesi var ákveðið að upphaf skólaárs unglingastigs færi fram í húsi Menntaskóla Borgarfjarðar. Hefðbundið skólastarf var brotið upp fyrstu fjórar vikurnar í haust. Farið var af stað með stórt þemaverkefni sem nefnist Draumalandið, en það samþættir námsgreinar sem kenndar eru. Nemendum 8. til 10. bekkjar var þannig skipt upp í hópa sem unnu að því að skapa ímyndað draumaland. Verkefninu lauk svo formlega 25. september. Var foreldrum boðið á sýningu í húsi Menntaskólans þar sem afrakstur verkefnavinnunnar var kynntur. Tíðindamaður Skessuhorns fékk að fljóta með.

Námsgreinum fléttað inn í verkefnið

Umsjónarkennarar í elsta stigi skólans eru m.a. Birna Hlín Guðjónsdóttir og Inga Margrét Skúladóttir. „Þegar búið var að ákveða að ráðast í þetta verkefni heimsóttum við vini okkar í Grundaskóla á Akranesi, en þar hefur sambærileg verkefnavinna farið fram. Við nýttum reynslu þeirra og útfærðum að okkar þörfum og í raun má segja að þau hafi ýtt okkur út í djúpu laugina,“ sögðu þær Inga Margrét og Birna Hlín í samtali við blaðamann. „Allir kennarar voru meðvitaðir um að hefðbundið nám myndi ekki fara fram á meðan á verkefninu stóð, en engu að síður voru þær námsgreinar sem kenndar eru fléttaðar inn í verkefnavinnuna og átti það jafnt við um íslensku, dönsku, ensku, samfélagsfræði, náttúrufræði og lífsleikni, auk stærðfræðinnar. Svona verkefnamiðað nám fellur vel að hæfniviðmiðum aðalnámsskrár.“

Þær Inga Margrét og Birna Hlín segja að á fyrstu dögum skólaársins hafi hópurinn komið sér fyrir í húsnæði Menntaskólans og byrjað á hópefli og samhristingi. „Nemendur áttunda bekkjar eru að byrja á unglingastigi og höfðu síðasta vetur auk þess haldið til í Gamla mjólkursamlaginu vegna framkvæmdanna við byggingu grunnskólans. Það reyndist þessum krökkum gríðarlega mikilvægt að fá að samlagast eldri nemendum í gegnum draumalandsverkefnið og nú smella allir saman sem ein flís,“ segja þær. Ungmennin sem blaðamaður ræddi við staðfestu það og lýstu ánægju sinni með að þessi hundrað manna hópur er miklu samheldnari nú en hann var áður en verkefnið hófst.

Sköpuðu ný samfélög

Verkefnið um Draumalandið snerist um að hóparnir sköpuðu ímyndað land eða eyju í ímyndaðri heimsálfu. Gáfu nýja landinu nafn, lýstu samfélaginu sem þar býr, teiknuðu kort, bjuggu til gjaldmiðla og raunar allt sem að venjulegum samfélögum snýr. Þar með talið var skipulagning heilbrigðiskerfis, stjórnsýslu, tungumáls, fjölmiðlunar og svo framvegis. Unnið var í 5-6 manna hópum sem settir voru saman úr nemendum allra árganga. „Við höfum aldrei ráðist í svona stórt þemaverkefni áður en okkar reynsla er að það gekk vonum framar. Við fengum mjög góðar móttökur frá nemendum og starfsfólki Menntaskóla Borgarfjarðar, en vissulega voru það viðbrigði fyrir skólastarf MB að fá okkur hundrað manna hóp yngri nemenda sem stormsveip inn í sitt daglega líf. En þetta samneyti gekk allt saman mjög vel og við erum sannfærðar um að þetta á eftir að hjálpa Menntaskóla Borgarfjarðar mikið í framtíðinni, ekki síður en okkur. Grunnskólakrakkarnir þekkja nú vel menntaskólann og það starf sem þar er í gangi og það kæmi okkur ekki á óvart að stærra hlutfall útskrifaðra grunnskólanemenda velji að hefja hér skólagöngu þegar þar að kemur,“ sögðu þær Inga Margrét og Birna Hlín.

Reynir á mannleg samskipti

Aðspurðar um reynsluna segja þær að svona stórt hópverkefni sé mikill skóli út af fyrir sig. „Hópavinna reynir á svo margt í mannlegum samskiptum. Þú þarft að byggja upp traust, deila ábyrgð og vinnu og því reynir þetta á alla. Stór þáttur í þessu öllu saman er samvinna og því eflir þetta einstaklingana og á eftir að nýtast þeim í hverju sem þeir taka sér fyrir hendur síðar. Okkur finnst þetta hafa tekist vel. Við kölluðum eftir umsögn unglinganna og þeir eru jákvæðir og komu með gagnlegar ábendingar um verkefnið í heild sinni. Í fyrstu voru nokkrir foreldrar skeptískir um verkefnið, óttuðust jafnvel að krakkarnir myndu dragast afturúr jafnöldrum þeirra í öðrum skólum í námi. En þessir foreldrar hafa vonandi allir séð ljósið, enda eru bæði krakkarnir þeirra jákvæðir ekki síður en við kennararnir. Okkur tókst að tengja allar námsgreinar inn í þetta verkefni og reynslan er gríðarlega dýrmæt. Nú færum við okkur hins vegar niður í skólann okkar á holtinu en búum af reynslunni héðan í starfi okkar í vetur,“ sögðu þær Birna Hlín og Inga Margrét að endingu.

„Fínt að kynnast öðrum“

Blaðamaður ræddi við fjóra unglinga úr 10. bekk um reynsluna af Draumalandsverkefninu, þau Andreu Ínu, Signýju Maríu, Aron og Andra. Þau sögðu að þessi tími hafi verið skemmtilegur, fínt að breyta aðeins til. Sögðu þau jákvætt að hafa kynnst í gegnum verkefnið nemendum í öðrum bekkjum. Engu að síður sögðust þau hlakka til að komast aftur í gamla bekkinn sinn og hefja reglulegt nám að nýju. „Þetta var fínt, en er komið gott núna,“ sagði Aron.

Líkar þetta

Fleiri fréttir