adsendar-greinar Mannlíf
Lára og Ævar, afi hennar, saman á körfuboltaleik hjá liði UNC, Tar Heels. Ljósm. úr einkasafni.

Lára Hólm vann til verðlauna fyrir rannsókn á tannsýklun í börnum

Lára Hólm Heimisdóttir stundar nú framhaldsnám í barnatannlæknum við University of North Carolina (UNC) í Chapel Hill í Norður Karólínu í Bandaríkjnum. Lára „gæti ekki verið meiri Skagakona,“ eins og hún orðar það sjálf, en hún er dóttir Sigþóru Ævarsdóttur og Heimis Hallssonar sem bæði eru fædd og uppalin á Akranesi. Í UNC eru árlega veitt verðlaunin Beyond Excellence í fjórum flokkum; flokki tannlæknanema, framhaldsnema, kennara og starfsmanna. Í ár hlaut Lára þessi verðlaun í flokki framhaldsnema.

Oftast hægt að koma í veg fyrir skemmdir

Lára vinnur að rannsóknarverkefni við skólann um tengsl milli tannskemmda í ungum börnum og þeirra lífefna (biochemicals) sem finnast í tannsýklu þeirra, slíkar rannsóknir hefur verið erfitt að framkvæma til þessa. „Tæknin hefur einfaldlega ekki boðið upp á að rannsaka þetta svo ítarlega fyrr en nú. Við erum að taka sýni af tannsýklunni í börnum á aldrinum 3-5 ára og greina efnin í sýklunni sjálfri til að sjá hvaða efni er hægt að tengja við börn með tannskemmdir og hvaða efni eru hjá þeim sem ekki hafa tannskemmdir. Tilgangurinn er að finna hvort það séu efni sem gætu veitt auka varnarþætti og hvort það eru efni sem rjúka upp við tannskemmdir,“ útskýrir Lára og bætir því við að tannskemmdir séu í raun afleiðing af tannátu sjúkdómnum og því mikilvægt að rannsaka hvað það er sem veldur sjúkdómnum svo hægt sé að finna frekari forvarnarþætti. „Í flestum tilfellum má koma í veg fyrir tannskemmdir með góðri tannhirðu. Í sumum tilfellum er um glerungsgalla að ræða sem gerir það erfiðara að halda tönnunum hreinum en í flestum tilfellum er hægt að koma í veg fyrir skemmdir með forvörnum,“ segir hún.

Stærstu verðlaun í Bandaríkjunum

Þetta eru ekki fyrstu verðlaun Láru fyrir hennar rannsókn en árið 2019 hlaut hún, ásamt leiðbeinanda sínum, enn stærri verðlaun. „Við fengum verðlaun fyrir besta verkefni framhaldsnema í barnatannlæknum í öllum Bandaríkjunum. Árlega er haldið þing á vegum Ameríska barnatannlæknafélagsins og þá getur maður sent inn kynningu af rannsóknarverkefnum sínum. Það eru átta verkefni valin af um 200 verkefnum sem send eru inn til að koma á ráðstefnuna og kynna verkefnið og svara spurningum. Að lokum er eitt verkefni valið sem vinnur verðlaunin og það var okkar verkefni,“ segir Lára en um er að ræða stærstu verðlaun sem framhaldsnemar í barnatannlækningum í Bandaríkjunum geta unnið.

Starfar á sjúkrahúsi

Þegar blaðamaður heyrði í Láru var hún á leið í vinnuna en námið er byggt upp á fyrirlestrum í bland við vinnu á barnatannlæknadeild UNC og sjúkrahúsi UNC. „Við erum kölluð út bæði á bráðamóttöku barna og á barnaspítalann en hingað kemur fólk úr öllu fylkinu auk þess sem margir sækja þetta sjúkrahús úr öðrum fylkjum,“ segir Lára en að auki vinna nemar UNC á barnatannlæknastofu við tannlæknadeildina sem er á sjúkrahúsinu ætluð mikið veikum börnum og börnum með miklar sérþarfir. Þetta er mjög fjölbreytt og hér fæ ég því að sjá ýmsa sjúkdóma og heilkenni sem ég myndi jafnvel aldrei fá að sjá heima á Íslandi,“ segir Lára.

En hvað er það sem tannlæknir gerir á bráðamóttöku? „Við erum kölluð til þegar börn verða fyrir áverkum á tönnum, til dæmis ef þau detta eða slasa sig sem getur meðal annars valdið því að tönnina tapast, eða fellur úr. Svo geta tannskemmdir haft víðtæk áhrif á sjúklinga en þetta er einn algengasti sjúkdómurinn hjá börnum. Tannskemmdir geta valdið miklum verkjum og sýkingum eða bólgum sem getur leitt út í andlit, höfuð eða háls og orðið hættulegt ef viðkomandi fær ekki strax viðeigandi meðferð,“ svarar hún. „Á sjúkrahúsum eru líka börn með skert ónæmiskerfi vegna ýmissa sjúkdóma og kvilla sem gætu gert meðferð við tannskemmdum erfiðari og flóknari og þá er mikilvægt að við vinnum öll saman að því að tækla vandamálið,“ útskýrir Lára.

Útskrifast næsta sumar

Lára lauk stúdentsprófi við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi áður en hún fór í háskólann til að læra tannlækningar. „Það er mjög erfitt að komast inn í námið. Fyrst fer maður í klásus en aðeins sjö, og núna átta, hæstu á jólaprófunum komust áfram í tannlæknanámið,“ segir hún. Lára lauk sex ára tannlæknanámi heima á Íslandi árið 2015 og starfaði sem tannlæknir í nærri þrjú ár áður en hún ákvað að fara til Bandaríkjanna. Aðspurð segist hún stefna á útskrift næsta sumar og að þá sé hún hætt í námi í bili. „Mér þykir gaman í skóla en eftir níu ára nám held ég að þetta sé gott í bili,“ svarar hún. En ætlar Lára þá að flytja aftur heim? „Já, ég stefni á að koma til Íslands að vinna. Eins og staðan er í dag eru bara þrír starfandi barnatannlæknar á Íslandi og það er því mikil vöntun. Svo verður líka bara alveg rosalega gott að komast heim til mömmu og pabba,“ segir Lára og brosir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir