adsendar-greinar Mannlíf
Aðstoðarleikskólastjórar leikskólanna fjögurra á Akranesi komu að gerð læsisstefnu. F.v. Vilborg Valgeirsdóttir frá Vallarseli, Ingunn Sveinsdóttir frá Garðaseli, Guðrún Bragadóttir frá Akraseli og Íris Guðrún Sigurðardóttir frá Teigaseli. Ljósm. Skessuhorn/arg.

Læsisstefna fyrir leikskóla

Á fundi skóla- og frístundaráðs Akraneskaupstaðar þriðjudaginn 3. mars síðastliðinn var læsisstefna leikskóla bæjarfélagsins formlega kynnt en unnið hefur verið að stefnunni í rúm tvö ár. Það voru aðstoðarleikskólastjórar leikskólanna fjögurra á Akranesi sem mynduðu starfshóp sem setti saman læsisstefnuna; Guðrún Bragadóttir frá Akraseli, Ingunn Sveinsdóttir frá Garðaseli, Vilborg Valgeirsdóttir frá Vallarseli og frá Teigaseli var Valdís Sigurðardóttir, þáverandi aðstoðarleikskólastjóri, í upphafi hluti af hópnum en Íris Guðrún Sigurðardóttir núverandi aðstoðarleikskólastjóri tók svo við keflinu. Bergrós Ólafsdóttir talmeinafræðingur var hópnum innan handar með ráðleggingar og fleira. Blaðamaður Skessuhorns hitti hópinn og ræddi við þær um nýju læsisstefnuna og hvað í þessari vinnu felst.

Sambærilegur undirbúningur

Upphaf læsisstefnunnar má rekja til þess að Regína Ásvaldsdóttir, þáverandi bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, skrifaði undir Þjóðarsáttmála um læsi haustið 2015. Í kjölfarið var skoðað hvernig unnið sé að læsi í leik- og grunnskólum bæjarins og kom þá í ljós að grunnskólarnir voru með sínar lestrarstefnur en engin sérstök stefna var í leikskólunum. Þegar hópurinn kom saman í kjölfarið kom í ljós að allir leikskólarnir voru að gera margt í þessum efnum en ekki með neina formlega stefnu. Ákveðið var að gera samræmda stefnu fyrir alla fjóra leikskóla. „Þannig geta foreldrar gengið út frá því að börnin þeirra fái öll sambærilegan undirbúning fyrir grunnskólann og svona erum við líka að skila börnunum í báða grunnskólana með svipaðan grunn, það auðveldar verulega kennurum sem taka við börnunum í grunnskólunum,“ útskýra þær.

Læsi er ekki bara að lesa

Af hverju er mikilvægt að vera með læsisstefnu fyrir börn á leikskólaaldri? „Læsisstefna þýðir ekki að við séum að fara að kenna þeim að lesa, heldur snýst þetta um málþroska og orðaforða. Þetta er til að leggja grunn að lestri, byggja upp orðaforða og hljóðkerfisvitund svo börnin átti sig á hvernig læsi er byggt upp svo það auðveldi þeim að læra að lesa þegar þau koma í skóla,“ svara þær. „Forsendan sem við vorum að vinna út frá var að búa til brú milli leik- og grunnskóla. Fyrstu árin í grunnskóla er mikil áhersla lögð á að kenna börnunum að ná tökum á aðferðinni við að lesa. Þegar flæðið er komið hjá þeim fer textinn að þyngjast og þá kemur oft í ljós að þau kunna kannski að lesa orðin en vita ekki hvað þau þýða, þá eru þau ekki læs. Læsi nær yfir aðferðina að læra að lesa og að geta skilið það sem er lesið,“ útskýrir Ingunn og hinar taka allar heilshuga undir.

Góð samvinna leikskólanna

Þó allir leikskólarnir á Akranesi vinni eftir sömu stefnu verður hún ekki unnin eins á öllum leikskólum. „Hver leikskóli hefur svigrúm til að nálgast þetta eins og hentar,“ segir Íris „Við verðum svo duglegar að deila á milli okkar aðferðum sem ganga vel svo öll börnin geti notið góðs af því á öllum leikskólunum. Það er mikið og gott samstarf milli leikskólanna,“ bætir Vilborg við. „Við höfum það markmið að búa til góða einstaklinga og það gerum við með samvinnu en ekki samkeppni,“ segir Íris og hinar taka undir það. Auk þess að gera læsisstefnu var útbúin handbók til að leiðbeina foreldrum með þeirra hlutverk í málörvun og undirbúningi fyrir læsi. Stefnuna sjálfa og handbókina fyrir foreldrana má finna á heimasíðu Akraneskaupstaðar og á heimasíðum allra leikskólanna. Öll börn á leikskólunum fjórum fengu heim með sér segul til að setja á ísskápinn en á honum er svokallaður QR kóði, sem fólk getur skannað inn í símana sína og fara þeir þá beint inn á læsisstefnuna. Auk þess er á seglinum áhersluþættirnir fimm sem læsisstefnan byggir á, en það er; hlustun, orðaforði og málskilningur, máltjáning, hljóðkerfisvitund og stafaþekking. „Eins og þú sérð er bara einn af fimm þáttum sem tengist bókstöfunum og lestri beint,“ bendir Guðrún á.

Þarf að byrja frá fæðingu

Auk segulsins hanga veggspjöld í fatahengjum á hverri deild í öllum skólunum þar sem einnig er að finna QR kóða sem leiðir foreldra beint inn á síðu þess leikskóla þar sem er að finna læsisstefnuna og námskrá þess skóla. „Við vildum frekar nota svona kóða og hafa þetta á netinu heldur en að prenta út bækling sem svo týnist á heimilunum. Svona getur þetta verið meira lifandi og við getum auðveldlega bætt við seinna,“ segja þær. En hvert er hlutverk foreldra í þessari stefnu?

„Að lesa fyrir börnin og tala við þau í heilum setningum. Það er mikilvægt að foreldrarnir leggi frá sér símana og horfi á börnin, eigi við þau samtöl þar sem athygli er á börnunum,“ útskýra þær og leggja mikla áherslu á að börnin fái óskipta athygli foreldra sinna daglega til að byggja upp þessi mikilvægu tengsl sem skipta sköpum fyrir barnið í öllu lífinu. „Þegar við lærum nýja hluti, hvort sem það er lestur eða annað, þá þarf að leggja grunn og svo byggja ofan á hann. Það þarf í raun að byrja löngu áður en börn koma á leikskóla, alveg frá fæðingu. Þegar börnin gefa frá sér hljóð, gerum við það á móti, þegar þau brosa og við brosum á móti og allt þetta eru samskipti sem skipta máli, þetta eru fyrstu tjáskipti þeirra. Svo byggjum við ofaná þetta með aldrinum,“ útskýrir Ingunn og bætir við að málörvun byrji við fyrsta hljóð. Þá segja þær mikilvægt að foreldrar taki þátt í málörvun með leikskólanum því heima sé allt öðruvísi orðaforði. „Heima er ísskápur, sjónvarp og fleiri svona hversdagsleg orð sem við erum ekki endilega að tala um hér. En það sem er sagt heima skiptir líka máli og þess vegna er þessi samvinna svo mikilvæg,“ útskýra þær.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira