adsendar-greinar Heilsa
Flemming Jessen formaður framkvæmdanefndar Landsmóts 50+ í Borgarnesi. Ljósm. mm.

Íbúar á Vesturlandi hvattir til þátttöku á mótinu

Landsmót Ungmennafélags Íslands fyrir 50 ára og eldri fer fram í Borgarnesi helgina 27.-29. ágúst í sumar. Þetta verður í tíunda skipti sem mótið er haldið. Flemming Jessen er formaður framkvæmdarnefndar Landsmótsins. Hann segir að fyrsta Landsmótið hafi verið haldið á Hvammstanga árið 2011 með um 200 keppendum en þátttaka hafi aukist jafnt og þétt síðan og hafi verið upp í tæplega 800 keppendur þegar mest var. „Vonandi verður þátttakan góð hjá okkur og umfram allt að skemmtilegt mót verði haldið sem verður svæðinu og okkur öllum til sóma. Það er allavega stefna okkar sem stöndum í skipulagningu og undirbúningi þessa dagana,“ segir Flemming.

Keppnisgreinar sem boði verða að þessu sinni eru í stafrófsröð; boccia, bridds, frjálsar íþróttir, fjallahjólreiðar, fjallahlaup, golf, gröfufimi, götuhlaup, hestaíþróttir, pílukast, pútt, pönnukökubakstur, skák, sund, staurakast og stígvélakast. Í nokkrum þessara greina verður yngri keppendum gefinn kostur á að taka þátt. Segir Flemming að það séu keppnisgreinarnar fjallahjólreiðar, fjallahlaup, gröfufimi og götuhlaup. Auk þess verður um landsmótshelgina boðið upp á sögugöngu um Borgarnes, fjallgöngu á Hafnarfjall og kvöldskemmtun í Hjálmakletti.

Flemming viðurkennir að það verði áskorun nú eftir að samkomutakmörkunum hefur verið aflétt að fá fólk til virkni og þátttöku að nýju bæði í félags- og íþróttastarfi. „Vissulega hefur flestallt félagsstarf legið niðri í meira en ár og því getur það verið bæði andleg og líkamleg áskorun að koma sér í virkni að nýju, eftir svo langa inniveru og í sumum tilfellum einangrun sem hlaust af Covid-19. Við vonum hins vegar það besta og skorum á bæði íbúa hér í Borgarbyggð, Vesturlandi og landinu öllu að skrá sig til keppni á mótinu. „Það ættu allir að geta fundið keppnisgrein við sitt hæfi. Bæði erum við að bjóða upp á keppni í hefðbundnum íþróttagreinum og mörgum sem henta fullorðnu fólki einkar vel. Ég skora því á fólk að skrá sig til leiks og gera mótið sem skemmtilegast.“ Aðspurður segir Flemming að flestallar íþróttagreinarnar verði á íþróttavellinum í Borgarnesi, íþróttahúsinu, svæði hestamanna að Vindási, golfvellinum Hamri og í Hjálmakletti. Eina keppnisgreinin utan Borgarnessvæðisins verður hjólaferð og fjallvegahlaup sem ræst verður við Fiskilæk í Melasveit og hlaupið yfir fjallið að Hrepp í Andakíl.

Að endingu tekur Flemming það fram að langi fólk að skrá sig til keppni, þá snýr það sér til skrifstofu UMFÍ í Reykjavík í síma 568-2929, en allar nánari upplýsingar má finna á umfi.is. Flemming gefur sömuleiðis nánari upplýsingar í síma 868-1008.

Líkar þetta

Fleiri fréttir