adsendar-greinar Tækni og vísindi
Andri Snær Axelsson keppti fyrir skömmu á Ólympíuleikunum í stærðfræði sem fram fóru í Englandi.

Hlaut heiðursviðurkenningu á Ólympíuleikum í stærðfræði

Skagamaðurinn Andri Snær Axelsson keppti ásamt fimm öðrum Íslendingum á Ólympíuleikunum í stærðfræði sem fram fóru í Bath á Englandi nú fyrir skömmu. Náði Andri Snær þar frábærum árangri og hlaut heiðursviðurkenningu. „Þetta var alveg rosalega skemmtilegt. Það var mjög sérstakt að taka þátt og eiginlega smá súrrealískt,“ segir Andri Snær þegar Skessuhorn heyrði í honum. „Á Ólympíuleikunum keppa sex keppendur frá hverju landi sem tekur þátt. Þarna voru keppendur frá stórum löndum eins og Kína og Bandaríkjunum og eru þeir taldir vera meðal þeirra bestu í heimi og það var virkilega gaman að fá að keppa við þá,“ heldur Andri Snær áfram.

Á Ólympíuleikunum leysa keppendur sex dæmi á tveimur dögum og hafa þau samtals níu klukkustundir til að leysa öll dæmin. „Þetta er í rauninni bara próf og hæsta einkunn vinnur. Þetta er samt gjörólíkt öllum stærðfræðiprófum sem þú myndir sjá í skólum, ekki bara erfiðara heldur líka ólíkt stærðfræðilega séð.“

Andri Snær stundar nú nám í Menntaskólanum í Reykjavík og stefnir á að útskrifast næsta vor og tekur þá stefnuna á stærðfræði í háskóla. Aðspurður segir hann stærðfræðina þó ekki alltaf hafa legið vel fyrir sér. „Í grunnskóla, áður en ég fór í unglingadeild, þoldi ég alls ekki stærðfræði. Þegar ég var svo kominn í unglingadeild fór ég að fá áhuga á henni og sjá betur hversu flott grein þetta er,“ segir hann.

Auk Andra Snæs voru í liði Íslendinga þau Arnar Ágúst Kristjánsson, Árni Bjarnsteinsson og Vigdís Gunnarsdóttir nemendur í MR, Friðrik Snær Björnsson úr MA og Tómas Ingi Hrólfsson úr MH. Þjálfari íslenska liðsins er Álfheiður Edda Sigurðardóttir og fararstjóri var Jóhanna Eggertsdóttir, stærðfræðikennari í MR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira