adsendar-greinar Heilsa
Lilja Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á Akranesi ásamt dóttur sinni Bjarneyju Helgu Guðjónsdóttur, þegar sú síðarnefnda varð stúdent.

Hjúkrunarfræðistarfið býður upp á endalausan fjölbreytileika

Í ár eru 100 ár liðin frá stofnun Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Af því tilefni stendur stjórn deildar hjúkrunarfræðinga á Akranesi og nágrenni fyrir því á afmælisárinu að birta greinar eftir hjúkrunarfræðinga í Skessuhorni. Greinarnar hafa verið birtar jafnft og þétt yfir afmælisárið og í þeim hafa lesendum getað fengið smá innsýn í þau fjölbreyttu störf og áskoranir sem hjúkrunarfræðingar fást við. Að þessu sinni kynnir sig til leiks Lilja Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur á Akranesi.

Beint úr hjúkrun í Ljósmæðraskólann

Ég heiti Lilja Jónsdóttir og ég bý með dóttur minni hér á Akranesi. Ég er fædd og uppalin á Akranesi en bjó á höfuðborgarsvæðinu í 20 ár. Við mæðgur fluttum upp á Skaga haustið 2001. Áhugamál mín eru að fara á tónleika, í leikhús, gera handavinnu og fara í ferðalög. Við mæðgur höfum ferðast mikið saman og fórum við m.a. í siglingu í Karabíska hafinu um síðustu jól og áramót. Ég kláraði stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Vesturlands vorið 1981 og fór þá í hjúkrunarfræði. Eftir að ég hafði útskrifast sem hjúkrunarfræðingur fór ég beint í Ljósmæðraskólann.

Ákveðin að verða ljósmóðir

Ég hafði frá 12 ára aldri verið ákveðin að verða ljósmóðir og ekkert annað en ljósmæðrastarfið komst að. Á þessum árum var möguleiki eftir stúdentspróf að komast í Ljósmæðraskólann, en þegar ég ætlaði að sækja um var búið að breyta skólanum og það þurfti hjúkrunarpróf til að komast inn. Á þessum tíma fannst mér alltof mörg ár sem myndu líða þar til ég kæmist í draumastarfið. Ég sótti þá bæði um Hjúkrunarskólann, sem tók heil þrjú ár, og til vara sótti ég um Kennaraskólann. Ég fékk bréf þess efnis að ég kæmist inn í Hjúkrunarskólann, og sá ekki eftir því. Þetta var æðislegur tími í náminu og eignaðist ég marga vini í skólanum og kynntist fullt af frábæru fólki sem var að kenna. Ég var líka svo heppin að fá að búa á heimavist meðan ég var í skólanum og var það frábær upplifun. Það var mikið verknám sem og ég varð strax heilluð af hjúkrunarstarfinu. Ég vann sem starfsstúlka á sjúkrahúsinu hér í nokkur sumur og sem hjúkrunarnemi og hjúkrunarfræðingur. Vegna aðstæðna á þessum tíma var hagstæðast að fara strax eftir hjúkrun í Ljósmæðraskólann. Eftir útskrift fór ég að vinna sem ljósmóðir á fæðingargangi, sængurkvennagangi og í mæðraskoðun. Árið 2008 fór ég í Kennaraháskólann og tók kennsluréttindi. Þegar ég flutti upp á Skaga byrjaði ég að vinna á handlæknisdeildinni og vann þar í nokkur ár. Einnig vann ég á slysadeildinni og síðustu ár hef ég verið í heimahjúkrun og skólahjúkrun þar sem ég sinni Grundaskóla og Heiðarskóla. Einnig er ég að vinna í mæðraskoðun og ungbarnavernd.

Meira en 800 ljósubörn

Það er svo margt sem er skemmtilegt við starfið. Ég vinn með góðu samstarfsfólki og kynnist fólki á öllum aldri. Ég uppsker oft mikið þakklæti frá skjólstæðingum mínum og það gefur mér mikið. Í gegnum árin er maður oft að hitta aftur sama fólkið. Sem dæmi þegar ég var að vinna sem ljósmóðir tók ég aftur og aftur á móti börnum hjá sömu konunni, með einhverjum árum á milli, sem var algjör tilviljun. Ég á meira en 800 ljósubörn og ég fæ ennþá fréttir af sumum, sem er yndislegt. Sum þeirra eru börn ættingja og vina. Svo er ég kannski að sinna langömmu eða langafa í heimahjúkrun og skoða langömmu- eða langafabarnið í ungbarnavernd, sem er mjög skemmtilegt. Það sem er mest krefjandi við starfið er þegar fólki líður mjög illa og það er erfitt að lina t.d. verki og andleg veikindi. Það er margt sem ég hef séð og orðið vitni að sem er mjög erfitt. Það hefur líka verið erfitt að hjúkra mikið veikum ættingjum sem hafa legið banaleguna. Þá er maður bæði ættingi og starfsmaður, sem getur verið flókið.

Skólahjúkrun og heimahjúkrun

Hjúkrunarfræðimenntunin og starfið býður upp á óendanlegan fjölbreytileika. Núna vinn ég á heilsugæslunni í 90% vinnu og þar er unnið mjög fjölbreytt starf. Mitt starf þar skiptist þannig að ég vinn við skólahjúkrun og er með aðstöðu í Grundaskóla. Ég vinn svo þriðju hverja helgi í heimahjúkrun og fer þá inn á heimili fólks og sinni þeim skjólstæðingum í þeirra umhverfi, þá er ég eins og gestur. Sem skólahjúkrunarfræðingur í Grundaskóla og Heiðarskóla, sem er mjög fjölbreytt starf, sinni ég m.a. skólaskoðunum, bólusetningum og fræðslu og sinni börnum sem meiða sig á skólatíma. Ég sit einnig fundi sem tengjast skólastarfinu. Ég vinn líka í mæðraskoðun og sinni ungbarnavernd, þar sem ég fer inn á heimili fólks sem er nýbúið að eignast barn. Það er oftast fólk sem ég hef hitt á meðgöngunni og fæ að fylgjast með fjölskyldunni þar til barnið verður um níu vikna gamalt.

Dagur í lífi hjúkrunarfræðings

Einn dagur í lífi mínu getur sem dæmi litið svona út: Ég byrja daginn í Grundaskóla og við Ólöf Lilja Lárusdóttir hjúkrunarfræðingur gerum lífstílsmat á 4. bekk. Við mælum hæð og þyngd, tökum sjónpróf og lífstílsmat þar sem við spyrjum spurninga sem meta m.a. hvernig börnunum líður í skólanum, svefnvenjur, tannburstun og fleira. Svo sinni ég börnum sem hafa komið eftir að hafa meitt sig í skólanum. Ef það er eitthvað alvarlegt fara börnin niður á heilsugæslu. Klukkan eitt fer ég á nemendaverndarfund í Heiðarskóla og bóluset starfsfólk við inflúensu. Ég fer svo niður á Akranes þar sem ég fer í tvær vitjanir hjá nýfæddum börnum og fjölskyldum þeirra. Eftir það fer ég á heilsugæsluna og skrái það sem ég er búin að vera að gera, færi inn bólusetningar og vigtina á ungabörnunum. Ég fer eftir vinnu til mömmu minnar sem þarf oft aðstoð þar sem hún er 84 ára og á erfitt með að gera suma hluti sem við systkinin og dóttir mín aðstoðum hana við. Seinni partinn fer ég í leikfimi hjá Ernu Sigurðardóttur, sem mér þykir alveg frábært og lykilatriði til að líða vel. Eftir tíu ár verð ég trúlega hætt að vinna og vona að ég eigi eftir að geta sinnt mínum áhugamálum.

Lilja Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir