adsendar-greinar Mannlíf

Hélt myndlistarsýningu Heimþrá á netinu

Smári Jónsson, eða Smári kokkur eins og hann er oft kallaður, hélt myndlistarsýningu á netinu á föstudaginn, 3. apríl síðastiliðinn. Smári kemur frá Akranesi en hefur undanfarin ár búið í hafnarbænum Altea á Spáni ásamt Guðbjörgu Níelsdóttur Hansen, eiginkonu sinni. „Altea er mikill listamannabær á Costa Blanca ströndinni og er það ein af ástæðunum fyrir því að við fluttum hingað,“ segir Smári. „Margir íslenskir ferðamenn sem hafa komið til Benidorm og Albir, næsta bæjar við okkur, þekkja Altea enda mæla ferðaskrifstofur með því að fólk skreppi í gamla bæinn í Altea sem er einstaklega fallegur og heillandi,“ segir hann.

Málandi matreiðslumeistari

Smári er matreiðslumeistari til rúmlega þriggja áratuga og hefur myndlist verið eitt af hans áhugamálum í gegnum tíðina. „Ég er búinn að dunda mér við að mála í fjölda ára, það er frábært að búa hér með þetta áhugamál,“ segir hann. „Síðastliðið haust var óskað eftir því við mig af eigendum mikils listamannabars hér í gamla bænum, að ég myndi setja upp einkamyndlistarsýningu hjá þeim á þessu ári, sem mér þótti mikill heiður af. Ég þáði boðið og stóð til að sýningin yrði opnuð 3. apríl. Af því varð að sjálfsögðu ekki þar sem mjög strangt útgöngubann er hérna núna,“ segir hann. „En í millitíðinni var mér boðið að taka þátt í samsýningu listamanna sem búa hér, fólk af fimm þjóðernum, sem ég þáði,“ bætir hann við.

Myndbandsmyndlistarsýningin Heimþrá

Smári hefur málað töluvert mikið undanfarinn vetur, til að eiga nóg til að fylla húsið fyrir sýninguna sem áformuð var. Þegar hún var slegin af ákvað Smári að halda sínu striki og opna myndlistarsýningu með öðru sniði. Hélt hann því myndlistarsýningu á netinu síðastliðinn föstudag. „Sýningin heitir Heimþrá og er nafnið til komið af myndefninu sem er ansi mikið frá Skaganum og nágrenni. Ég er líka að leika mér svolítið með birtu, sólsetur, sólarupprás og margt þar á milli,“ bætir hann við. „Ég lít á þetta sem mitt framlag til að lýsa upp daginn fyrir fólk á útgöngu- og samkomubannstímum og vonast til þess að þetta gleðji einhverja,“ segir Smári.

Upptöku frá sýningunni Heimþrá, sem haldin var á föstudaginn, má sjá á Facebook-síðunni Smari Art, persónulegri Facebook-síðu Smára auk YouTube rásar hans. Þar er hægt að sjá sýninguna hvenær sem er.

Sýnir á Írskum dögum

Skessuhorn ræddi við Smára að sýningu lokinni og segir hann að viðbrögðin við uppátækinu hafi verið hreint út sagt frábær. „Ég er hrærður og þakklátur fyrir öll fallegu ummælin sem ég er búinn að fá og það var gaman að upplifa hvað fólki þótti þetta skemmtilegt,“ segir Smári og ljóstrar því jafnframt upp að hann muni sýna á Akranesi í sumar. „Ég verð með litla sýningu í gestastofunni hjá Bjarna Þór á Írskum dögum núna í sumar, svo framalega sem hátíðin verður ekki slegið af,“ segir hann, en það verður fyrsta sýning hans á Íslandi í áraraðir. „Ég hef ekki haldið sýningu á Íslandi í sex eða sjö ár og hlakka mikið til að vera með í allri flórunni af viðburðum á Írskum dögum í mínum heimabæ,“ segir Smári að endingu.

Smári Jónsson, matreiðslumeistari og myndlistarmaður. Ljósm. úr safni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira