adsendar-greinar Mannlíf
Guðlaug ásamt Helgu Alexíu sem er síðasta barnið sem var í dagvistun hjá henni. Ljósm. glh.

Gulla mamma hættir störfum eftir 40 ár sem dagmamma

Guðlaug Aðalsteinsdóttir á Akranesi, betur þekkt sem Gulla mamma, mun hætta störfum sem dagmamma í dag. Guðlaug hefur verið dagmamma í 40 ár eða síðan 1. ágúst árið 1979. Þessi lávaxna, hlýja kona hefur passað 390 börn á 40 ára starfsferli sem dagmamma og hefur gefið hverju barni sem hún passar, númer sem þau halda alla tíð, jafnvel þótt þau hætti og komi síðan aftur. Þegar rætt var við Guðlaugu fyrr í vikunni var hún að fara af skila af sér síðasta barninu áður en hún fór í sumarfrí og sagði hún tilfinningarnar blendnar fyrir breytingunum sem þessu fylgir. „Ég er að fara í sumarfrí og hlakka til þess. Ég kem svo aftur heim, vitandi af því að þau koma ekki, mér er farið að kvíða fyrir því. Ég vil helst ekkert spá í því, það er seinni tíma vandamál,“ segir Guðlaug.

Vildi vera heima hjá börnunum

Guðlaug vildi vera hjá börnunum sínum þegar þau voru að alast upp og var það ástæðan fyrir því að hún valdi þetta starf. „Þetta var aðallega vegna þess að ég átti börn sjálf og ég vildi vera hjá þeim. Það var alls ekki fyrir peningana eða neitt slíkt, heldur leyfði ég krökkunum að koma og vera heima hjá mér. Svoleiðis hafði yngsti strákurinn minn félagsskap,“ útskýrir Guðlaug en yngsti sonur hennar verður 41 árs núna í september. „Þetta bara vatt einhvern veginn upp á sig.“ Guðlaug hefur alltaf verið ein með börnin og segir það betra fyrir þau, því það eru engar tvær manneskjur eins. Að vísu kom maðurinn hennar Guðlaugar eftir að hann hætti að vinna og hefur eldað síðustu 3-4 árin fyrir krakkana en að öðru leyti hefur hún staðið í þessu ein að hennar sögn.

Mikilvægt að tala eðlilega við börnin

Þegar mest var, þá segir Guðlaug hafa verið troðið inn hjá sér eins og hægt var. Ef það vantaði pláss þá var komið með krakkana til hennar. „Það var enginn rammi þá eins og er í dag. Það var ekki einu sinni leikskóli fyrir krakkana fyrr en þau voru orðin þriggja og hálfs árs. Þau þekktu mann miklu betur þá,“ rifjar Guðlaug upp. En hvað er það sem hún hefur lært eftir öll þessu ár? „Börnin þurfa á öðru að halda en barnatali. Þau eru bara míní-fólk og læra mun betur að tala ef maður talar við þau eðlilega. Eins legg ég mig alla fram í að láta þau hlusta á lög þar sem þau skilja orðin í þeim. Eins og til dæmis lagið, „Ég er kominn heim“. Íslensk dægurlög sem hægt er að skilja orðin, ekki eitthvað sem við verðum að geta okkur til, þannig lög set ég oft á fóninn. Orð sem eru sögð illa er ekki skóladæmi fyrir lítil börn sem eru að læra að tala. Það er líka mikilvægt að láta þau hlusta til að hjálpa þeim með talið. Svo þegi ég náttúrlega aldrei svo þau læra heilmikið af mér,“ segir hún og hlær. „Ef börn væru bara hjá fólki sem þegir þá veit ég ekki hvernig þau myndu verða. Þau eru móttækilegust á þessum fyrstu mánuðum. Það skiptir máli að tala við þau. Svo má aldrei hóta meiru en maður getur staðið við. Það er ég búin að segja foreldrum frá upphafi. Þegar maður heyrir foreldra hóta að rassskella eða taka dótið af börnunum, ef þau hætta ekki einhverju, svo hættir barnið ekki og dótið er ekki tekið af barninu. Það eru bara innantóm orð og barnið hættir á endanum að taka mark á manni. Það hef ég aðallega lært, að maður verður að standa við orðin, annars er maður ekki trúverðugur,“ segir Guðlaug.

Börn agaðri fyrir 40 árum

Guðlaug sér mikinn mun á börnum á þessum 40 árum sem hún hefur verið í þessu starfi og er sannfærð að börn voru agaðri fyrir 40 árum. „Það kom tímabil sem maður mátti ekki aga börn. Þá gerðu börn það sem þeim sýndist. Það var ekki talið gott að beita börnin aga. Þetta gekk svo langt að skóli á Akureyri þurfti að kenna börnum kurteisi,“ segir hún og hristir hausinn. Nú fer Guðlaug í sumarfrí og segist ætla að finna sér eitthvað nýtt að gera en viðurkennir að hún muni sakna þess að fá krakkana heim til sín.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bland í poka pokinn tæmdur

Myndlistarkonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Tinna Royal var bæjarlistamaður Akraness árið 2020. Hún var að ljúka sýningu... Lesa meira

Hvaðan kemur Regnbogafáninn?

Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á... Lesa meira