

Góð aðsókn í Fab Lab smiðju Vesturlands
Búið er að gefa út ársskýrslu Fab Lab smiðju Vesturlands í Breið nýsköpunarsetri fyrir árið 2021. Alls heimsóttu 1.115 manns smiðjuna á því starfsári. „Markmið með starfsemi Fab Lab smiðjanna er að auka þekkingu skólafólks og almennings á persónumiðaðri framleiðslu og stafrænum framleiðsluaðferðum,“ segir í skýrslunni. „Verkefninu er ætlað að auka áhuga á verk- og tækninámi í grunn- og framhaldsskólum, auka tæknilæsi og tæknivitund og efla hæfi til nýsköpunar í námi og atvinulífi.“
Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi er virkur þátttakandi í Fab Lab smiðjunni og hefur tengt hana inn á námsbrautir við skólann. Alls voru fimm skráðir nemendur við skólann sem hafa sótt smiðjuna reglulega. 37 einstaklingar frá Endurhæfingarhúsinu Hver og Starfsendurhæfingu Vesturlands notuðu smiðjuna reglulega og 14 einstaklingar frá Arttré og Fjöliðjunni á Akranesi notuðu smiðjuna reglulega. „Framundan er vinna við að fullklára uppsetningu smiðjunnar, sem og kaup á tækjum og tólum til að auka á möguleika smiðjunnar í kennslu og stafrænni nýsköpun,“ segir í ársskýrslunni.