adsendar-greinar Mannlíf
Kvennakórinn Vox feminae verður með tónleika á laugardeginum.

Glæsileg dagskrá fyrir Reykholtshátíð í lok mánaðar

Árleg Reykholtshátíð verður haldin í 23. skipti helgina 26.-28. júlí og venju samkvæmt verður dagskráin hin glæsilegasta. „Í fyrra var aldarafmæli fullveldis Íslands allsráðandi en í ár ætlum við að fara vítt í dagskrárgerð. Á hátíðinni koma fram einsöngvarar af yngri kynslóðinni sem þó hafa unnið sér sess sem frábærir listamenn. Einn þeirra er Oddur Arnþór Jónsson sem mun opna hátíðina. Hann hefur nokkrum sinnum sungið burðarhlutverk hjá Íslensku óperunni og víðar, m.a. í óperunni Brothers auk þess sem hann var valinn söngvari ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum í ár,“ segir Valgerður G Halldórsdóttir kynningarstjóri Reykholtshátíðar í samtali við Skessuhorn.

Glæsilegir opnunartónleikar

Opnunartónleikarnir hefjast klukkan 20:00 á föstudagskvöldinu og þá flytja Oddur Arnþór og Anna Guðný Guðmundsdóttir hluta úr Schwanengesang D. 957 eftir Franz Schubert. „Þau ger þetta á nokkuð óvenjulegan hátt með því að skipta þessum fræga ljóðasveig eftir ljóðskáldum – byrja tónleikana á ljóðum Ludwig Rellstab og enda á ljóðum eftir Heinrich Heine,“ segir Valgerður. „Inn á milli flytja þau dásemleg verk sem ekki hafa heyrst oft á Íslandi, Dover Beach eftir Samuel Barber en það flytja strengjaleikarar ásamt Oddi, og svo Let us Garlands Bring eftir Gerald Finzi sem hann samdi við ljóð William Shakespeare.“ Á laugardeginum kemur Kvennakórinn Vox feminae fyrstur fram á síðdegistónleikum undir stjórn Hrafnhildar Árnadóttur Hafstað en hún er tiltölulega nýflutt heim frá Hollandi og hefur komið víða fram undanfarið. Kvennakórinn Vox feminae er meðal bestu kvennakóra landsins og mun flytja íslenska efnisskrá af bæði frumsömdum lögum og útsettum þjóðlögum og bera tónleikarnir yfirskriftina Ó, ljúfa sól. Á laugardagskvöldið verða kammertónleikar undir yfirskriftinni Rétttrúnaður og rómantík. „Þar kemur fram sérstakur gestur, Anna Magdalena den Herder, lágfiðluleikari frá Hollandi, en hún er að koma í fyrsta sinn fram á Reykholtshátíð,“ segir Valgerður.

Heimskringla og hetjudáð

Á sunnudeginum klukkan 16:00 verða lokatónleikar hátíðarinnar undir yfirskriftinni Heimskringla og hetjudáð. Þar koma allir hljóðfæraleikarar hátíðarinnar fram ásamt þeim Oddi Arnþóri og Hrafnhildi og þá bætist Guja Sandholt, mezzósópran í hópinn. Á tónleikunum munu hljóðfæraleikarar Reykholtshátíðar flytja Píanókvintett í f-moll eftir Johannes Brahms. „Einnig verður afar skemmtilegur lagaflokkur eftir Tryggva M Baldvinsson við texta Þórarins Eldjárns. Þá mun Guja flytja stystu óperu í heimi, að við höldum, King Harald’s Saga. Það er verk sem unnið er upp úr Heimskringlu Snorra Sturlusonar og er aðeins um 10 mínútur að lengd,“ segir Valgerður. „Allir sem fram koma á hátíðinni eru einstakir listamenn á sínu sviði. Þarna verða hljóðfæraleikarar sem fólk þekkir vel, svo sem Bryndís Halla Gylfadóttir, Auður Hafsteinsdóttir og svo auðvitað Sigurgeir Agnarsson sem er jafnframt listrænn stjórnandi hátíðarinnar eins og undanfarin ár. Við verðum líka með nýja hljóðfæraleikara eins og Helgu Þóru Björgvinsdóttur sem hefur ekki komið fram á Reykholtshátíð áður,“ segir Valgerður. Kynnir á hátíðinni verður Guðni Tómasson útvarpsmaður og mun hann sjá um að leiða áheyrendur í gegnum dagskrá tónleikanna á skemmtilegan og fróðlegan hátt.

Frásögn af Gísla Súrssyni

Snorrastofa í Reykholti tekur þátt í hátíðinni með að bjóða upp á fyrirlestur á laugardeginum. „Bjarni Guðmundsson mun segja frá búskap Gúsla Súrssonar og hans fólks. Það er alltaf áhugavert að hlusta á Bjarna,“ segir Valgerður. Hægt verður að kaupa helgarpassa fyrir alla tónleika hátíðarinnar en einnig verður boðið upp á að kaupa aðgang að stökum tónleikum eða þriggja tónleika passa. „Við buðum upp á þriggja tónleika passa í fyrra og því var mjög vel tekið svo við ætlum að endurtaka það. Það komast um 200 manns á hverja tónleika og það var næstum uppselt á þá alla í fyrra og vonumst við til að það verði svipað í ár,“ segir Valgerður.

Nánari upplýsingar um hverja tónleika og hátíðina í heild er hægt að nálgast á www.reykholtshatid.is

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bland í poka pokinn tæmdur

Myndlistarkonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Tinna Royal var bæjarlistamaður Akraness árið 2020. Hún var að ljúka sýningu... Lesa meira

Hvaðan kemur Regnbogafáninn?

Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á... Lesa meira