adsendar-greinar
Auður Jónsdóttir segir frá á Sögulofti Landnámssetursins. Ljósm. kgk.

Frábær Auður og Auður á Söguloftinu

Sýningin Auður og Auður var frumsýnd á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi á laugardagskvöld. Þar talar Auður Jónsdóttir rithöfundur til ömmu sinnar, Auðar Laxness, um leið og hún segir söguna Ósjálfrátt, en nú á annan hátt en áður.

Sýningin segir frá ýmsu í lífi Auðar; sambandi hennar við ömmu sína, skrifandi konur, skáldskapinn sjálfan og skáldskapinn í lífinu. Hún segir ýmsar sögur af fólkinu í kringum sig, snjóflóðinu á Flateyri, óhamingjusömu og mislukkuðu hjónabandi og erfiðum stundum á eigin lífshlaupi.

Útsendari Skessuhorns var staddur á frumsýningu Auðar og Auðar. Hann ætlar hér að neðan að segja frá sinni upplifun af sýningunni og því við hæfi að skipta frásögninni yfir í fyrstu persónu: ég var yfir mig hrifinn af sýningu Auðar. Hún er ákaflega yfirveguð í frásögn sinni en umfram allt segir hún sögurnar af einlægni. Þá gildir einu hvort hún er að lýsa ánægjustundum með ömmu sinni eða erfiðum tímum ráðvilltrar konu í vansælu hjónabandi og þeim erfiðu tilfinningum sem á hana leita. Jafnvel þegar hún segir frá löstum fólks gerir hún það af hreinskilni en um leið af virðingu. Kannski er slíkt aðeins mögulegt sé það gert af fullri einlægni og með hlýju. Sama hvað um er rætt, alltaf fannst mér frásögnin falleg og Auður leggja hjartað á borðið.

Enn fremur segir Auður frá með húmorinn að vopni. Sýningin er nefnilega bráðfyndin oft og ekki síst þegar hún segir frá erfiðustu stundunum í sögunni. Þó þær hafi án efa verið henni þungbærar á sínum tíma sér hún húmorinn í þeim í dag. Húmorinn hefur dramatískan undirtón og því hef ég mikinn smekk fyrir. En þetta væri ekki fyndið nema af því að maður skynjar að henni finnst þetta sjálfri fyndið í dag. Hún virkar sátt við vegferð sína og langar að segja frá henni. Það gerir hún svona líka listavel og fallega, af einlægni, með húmor og hlýju. Um leið og sýningin var búin langaði mig að grípa niður í bók hennar, Ósjálfrátt, sem ég hef ekki lesið enn. Hún er hér með komin á leslistann sem aldrei styttist. Mig langar að heyra meira af sögu Auðar og gæti meira að segja vel hugsað mér að fara aftur á þessa sýningu. Já, í alvöru, mér fannst hún frábær.

 

Kristján Gauti Karlsson

Líkar þetta

Fleiri fréttir