adsendar-greinar Mannlíf
Þórarinn Jónsson ljósmyndari frá Akranesi. Ljósm. glh.

Fer með ljósmyndara um landið í ljósmyndaferðir

Þórarinn Jónsson frá Akranesi hefur rekið ferðaþjónustufyrirtæki sitt Thor Photography frá árinu 2014. Hann er með dyggan hóp fylgjenda á samfélagsmiðlum eða yfir 30.000 samtals og eins og nafnið gefur til kynna þá sérhæfir hann sig í sérstökum ljósmyndaferðum eða workshops eins og slíkar ferðir eru gjarnan kallaðar á ensku. „Ljósmyndunin var alltaf áhugamál sem svo þróaðist yfir í það að ég fór að guidea,“ segir Þórarinn sem þekkir Ísland eins og handarbakið á sér og fer með erlenda áhugaljósmyndara í ljósmyndaferðir um landið allan ársins hring. „Ég er menntaður smiður en hef alltaf haft áhuga á ljósmyndun, alveg frá því ég var í grunnskóla í myrkrakompunni að framkalla filmur. Ég er líka meðlimur í ljósmyndaklúbbnum Vitanum á Akranesi og hef verið þar næstum frá upphafi klúbbsins eða frá árinu 2012. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt, stofnaði fyrirtæki og fór að guidea aðra ljósmyndara um Ísland. Sem betur fer átti ég skilningsríka atvinnuveitendur hjá Akri sem leyfðu mér að hoppa svona til og frá. Svo vatt þetta upp á sig og ég fór allur inn í reksturinn árið 2014 þegar ég stofnaði fyrirtækið og hef verið í þessu síðan. Sennilega hef ég komið inn á réttum tíma,“ bætir Þórarinn við léttur í lund.

Ferðir fyrir ljósmyndara

Þórarinn segir það einfalt sem hann gerir. „Ég er í rauninni að kenna ljósmyndun og fæ eingöngu ljósmyndara til mín í ferðirnar. Ekkert annað. Svo þetta er mjög sérhæft hjá mér,“ útskýrir Þórarinn en hann starfar oft með öðrum ljósmyndurum í stærri og fjölmennari ferðum. „Við erum oftast tveir með þetta, bæði það er skemmtilegra og einfaldara að fylla í ferðirnar því þá höfum við úr tveimur kúnnahópum að taka og saman erum við að kenna og leiðbeina fólkinu,“ bætir hann við. Annars er hann mikið í sérsniðnum ferðum með allt frá einum og upp í þrjá til fjóra kúnna. Félagar Þórarins koma meðal annars frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Írlandi og saman halda þeir workshop bæði á Íslandi og erlendis. Kúnnahópur Þórarins er að mestu Ameríkanar en einnig fær hann til sín fólk víðsvegar að úr heiminum svo sem frá Ástralíu, Bretlandi og Norðurlöndunum.

Sumir staðir eru vinsælir af ástæðu

Ísland er ekki eini staðurinn sem Þórarinn býður upp á ferðir. Hann hefur mikið verið að starfa í Noregi, Færeyjum, Ítalíu og í Patagóníu sem dæmi og fer þá á þessa staði sem eru vinsælastir. „Við förum á staði sem eru vinsælir af ástæðu. Þeir eru virkilega fallegir og ljósmyndavænir. Við reynum auðvitað að finna staði sem eru fáfarnir en það verður alltaf erfiðara og erfiðara þökk sé internetinu,“ útskýrir Þórarinn. Mikill undirbúningur fer í hverja ferð sem Þórarinn setur saman fyrir sína kúnnahópa. „Við fórum til dæmis í tvær vikur til Patagóníu að skáta eða kanna svæðið. Þá vorum við kannski að fara á sömu staðina á mismunandi tíma dags til að sjá birtuna hverju sinni. Undirbúningurinn snýst ekki síður um aðgengi. Við þurfum að finna út hvar er best að gista, hvar er gott að borða, aðgengi að klósetti þarf að vera til staðar og svo framvegis. Þú getur ekki verið að fara með fólk eitthvað án þess að hafa þessa hluti á hreinu ég tala nú ekki um þegar kúnnahópurinn minn er mestmegnis 60 plús,“ segir Þórarinn. „Það var í einni ferð til Færeyja síðastliðinn september þegar Covid var enn að hafa áhrif. Þá var aðgengi að mat nánast ekkert og við þurftum að lifa á hamborgara og pizzu í viku því það var það eina sem var í boði,“ bætir hann við og hlær.

Áhugaverðasti kúnninn

Í einni desemberferðinni fékk Þórarinn einn sinn áhugaverðasta kúnna. „Það fara eðlilega fullt af tölvupóstum á milli okkar og kúnnana og aldrei minnist þessi maður á eitt né neitt. Svo mætir hann í það sem við köllum welcome dinner og förum yfir það sem er framundan. Þá mætir einn einfættur og á hækjum,“ rifjar Þórarinn upp. „Hann minntist ekki orði á það fyrirfram og ég fékk næstum áfall hvernig þetta ætti nú að ganga upp. Þá vorum við að fara í íshelli, í Breiðamerkurfjöru og fleira. Ég hugsaði að þetta yrði áhugavert,“ bætir hann við. „Þessi maður hafði gríðarleg áhrif á mig því andinn sem hann bjó yfir var ótrúlegur. Hann var aldrei síðastur, alltaf með þeim fremstu. Hann fór út í sjó að mynda ísjakana og til baka, alltaf á hækjum. Þetta var geggjaður gaur. Stundum notaði hann bara aðra hækjuna ef það var mikið action. Hann fékk krabbamein þegar hann var sjö ára, og löppin tekin af honum alveg upp við nára. Hann hafði alltaf langað til að verða sundmaður, en gat það ekki svo hann fór að ganga í staðinn.“

Kennsla í myndvinnslu

Fólk sækist í ferðir Þórarins ekki eingöngu fyrir stórbrotið landslag og náttúru heldur líka fyrir kennsluna og fróðleikinn sem fylgir með tengt ljósmyndun. „Ég er með lokaðan hóp á Facebook þar sem bara kúnnarnir mínir og þeir sem hafa farið í ferðirnar hjá mér fá aðgang að. Þar er ég með kennsluefni á myndvinnslu og þess háttar. Það er því smá aukaverðmæti og eftirfylgni sem fylgir með ferðunum hjá mér,“ útskýrir Þórarinn. „Oft eftir hverja ferð þá erum við með myndvinnslu Skype tíma. Þá fæ ég hópinn til að senda mér tvær til þrjár myndir og við förum yfir þær, vinnum þær og ég sýni hvernig ég myndi vinna myndirnar sjálfur. Þetta er oft það sem fólk á í erfiðleikum með, það er eftirvinnslan,“ bætir hann við.

September uppáhalds mánuðurinn

Þórarinn vinnur allt árið í kring en hans háannatími er á veturna út af norðurljósunum. Þá segir hann suðurströndina að vetri til vera geggjaða vegna þess að sólin rís og sest sunnan við landið. „Uppáhaldsmánuðurinn er september því þá erum við með norðurljósin og haust litina, en líka með aðgang að hálendinu. Erfiðustu mánuðirnir eru samt september, mars og apríl. Þá eru vinnudagarnir langir, kannski 12 til 14 tíma dagar, plús norðurljós. Sólarupprás er þá upp úr 5:30 og sólsetur klukkan 21:00 og svo er farið og elt norðurljósin. Á þessum tíma þá sofum við bara á daginn,“ útskýrir Þórarinn og hlær. „Á sumrin sem dæmi, þá sting ég upp á því við fólk sem er að koma í ferðir að snúa sólarhringnum við til að ná að mynda í fallegasta ljósinu. Kosturinn við það líka er að þá eru fáir á þessum vinsælustu svæðum, ekki nema svona ljósmyndanördar eins og við,“ bætir hann við og hlær. „Þetta er gríðarleg vinna, en þetta er eitthvað sem ég hef áhuga á og að vinna við það sem maður hefur áhuga á er bæði gaman og forréttindi.“

Snæfellsnesið fjölbreytt

Uppáhaldsstaður Þórarins á Vesturlandi er Snæfellsnes. Hann ólst upp á Hellissandi svo hann er kunnugur svæðinu þar í kring. „Ég fer mikið á Snæfellsnesið, það er svo fjölbreytt. Svo er fjall þarna sem flestir vilja skoða og mynda, Kirkjufellið. Arnarstapi og öll ströndin frá Búðum yfir til Hellna er mjög myndræn, Lóndrangar líka og fleira. Í Borgarfirði eru það líklega Hraunfossar sem eru vinsælastir. Svo er líka hægt að fara aðeins upp fyrir Húsafell þar er Geitá sem hefur runnið í gegnum berg og er gaman að mynda ásamt hellunum þar í kring. Svo er auðvitað hægt að skoða vitana hér á Akranesi,“ bætir hann kátur við að endingu. Hægt er að fylgjast með Þórarni á samfélagsmiðlum undir Thor Photography.

Sjá nokkrar myndir úr safni hans:

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira