adsendar-greinar Mannlíf
Hjónin Þorgerður og Jón Jökull við verslun Blue Water Kayaks. Ljósm. vaks.

Búið að opna Blue Water Kayaks á Akranesi

Blue Water Kayaks er nýtt fyrirtæki á Akranesi sem er með leigu og sölu á kajökum, róðrabrettum, blautgöllum og öðrum aukahlutum eins og árum, vatnsheldum símapokum og björgunarvestum. Opnað var síðastliðinn þriðjudag fyrir sölu og bókanir á kajökunum á síðunni https://bw-kayak.com og þar er að finna allar helstu upplýsingar. Svo verður opnunarhátíð 5.-6. júní næstkomandi og getur fólk mætt til að skoða eða prófa kajaka í Krókalóni, sem er rétt hjá kajakleigunni ef veður, vindar og fjara leyfir.

Alls eru eigendur Blue Water Kayaks með sjö tegundir í leigu af svokölluðum Sit On Top kajökum í allskonar stærðum, frá eins manna Conger skemmtikajak upp í Oceanus fjölskyldukajak sem er góður fyrir tvo fullorðna og eitt barn og allt þar á milli þannig að allir ættu að geta fundið kajak sem hentar. Þá er mikið úrval af veiðibátum til sölu en einnig til leigu. Allir bátar, vesti og aukahlutir sem leigðir eru út eru sótthreinsaðir eftir hverja notkun. Boðið er upp á sólarhringsleigu á kajökunum og er verð frá 5500 kr fyrir fyrsta dag og lækkar svo með aukadögum.

Blaðamaður Skessuhorns kíkti í síðustu viku í heimsókn til hjónanna Þorgerðar Steinunnar Ólafsdóttur og Jóns Jökuls Jónssonar og óhætt er að segja að þar var allt á fullri ferð við undirbúning opnunarinnar. Þorgerður vinnur í Reykjavík hjá innkaupadeild Landspítalans auk þess að sjá um viðskiptahliðina á Blue Water Kayaks, en Jón tekur á móti viðskiptavinum í versluninni. Þau eru fyrst spurð hvernig þessi hugmynd hafi komið upp að stofna kajakleigu á Akranesi:

„Þessi hugmynd var eiginlega komin í kollinn á okkur þegar við fluttum hingað á Akranes fyrir fjórum árum síðan frá Los Angeles í Kaliforníu frá litlum bæ sem heitir Redondo Beach. Jón Jökull Jónsson, maðurinn minn, hefur búið þar nánast alla tíð en hann flutti þangað með foreldrum sínum fjögurra mánaða gamall frá Reykjavík. Hann kom til Íslands af og til í gegnum tíðina og við kynntumst í Reykjavík árið 1996 en þá var ég að vinna með eldri systur hans sem barþjónn en hún var þá nýlega flutt til Íslands. Við Jón vorum í fjarsambandi í einhvern tíma en síðan skrepp ég út til hans og kom ekkert aftur heim.“

Vildu að dóttirin yrði íslensk

Þorgerður minnist þess þegar hún hitti foreldra Jóns í fyrsta skipti, þau Birnu og Jón Sævar, að þá töluðu þau ensku með mjög sterkum íslenskum hreim við hana þó þau væru öll íslensk. „Málið er að þegar maður vinnur og lifir í Bandaríkjunum að þá breytist maður í Ameríkana en þeim fannst æðislegt að fá Íslending inn í fjölskylduna því þau voru alltaf rosalega hrifin af Íslandi.“ Saman bjuggu þau hjónin í um tuttugu ár í Bandaríkjunum en þá var komið að tímamótum í lífi þeirra því þá áttu þau dóttur sem var orðin fimm ára og spurningin hvort hún yrði amerísk eða íslensk og fengi þetta frelsi sem felst í því að búa á Íslandi. „Pólitíkin var orðin skrýtin og andrúmsloftið leiðinlegt í Bandaríkjunum og við vildum að dóttir okkar yrði íslensk og okkur fannst bara vera tími til að koma heim. Systir mín hafði flutt til Akraness og mælti með bænum, sem leiddi til þess að við fórum bara á Google Maps og fundum Akranes og ákváðum að flytja þangað því það var stutt frá Reykjavík. Síðan keyptum við þetta hús á Bakkatúni sem er á mjög fallegum stað og við erum mjög ánægð hérna.“

Af Jónum Jónssonum

Aðspurð hvort þau séu bjartsýn varðandi reksturinn segir Þorgerður að þau hafi fengið rosalega góð viðbrögð og samfélagið á Akranesi sé mjög aktívt og fjölskylduvænt og ekki skemmir sjórinn allt í kring. „Ég er mjög bjartsýn og ég held að þetta verði frábært enda held ég að enginn fari út í rekstur nema vera bjartsýnn.“ Jón bætir við að hann eigi rætur hér og hafi mikla tengingu við Akranes. Afi hans hét Jón Jónsson og var kallaður Jón Ríki og fæddist árið 1871. Hann átti fiskibát og var að flytja inn timbur og pabbi hans var fæddur 1820 og var gullsmiður. Þau hjónin komust að því að þau áttu bæði afa sem hétu Jón Jónsson, voru báðir kallaðir Jón ríki og þau væru því líklega mikið skyld, en sem betur fer munaði einu ári á þeim Jónum og þau því sloppið með skrekkinn!

Opið er alla daga í Blue Water Kayaks frá kl. 10-18 og er verslunin staðsett á Bakkatúni 22.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira