adsendar-greinar Erlent
Svanur Steinarsson hefur tekið bókina um Pourquoi pas í sölu hjá Brúartorgi í Borgarnesi. Ljósm. arg.

Bók um rannsóknaskipið Pourquoi pas?

Rannsóknaskipið Pourquoi pas? fórst eins og kunnugt er við Straumfjörð á Mýrum 16. september árið 1936. Með skipinu fórst franski vísindamaðurinn og landkönnuðurinn Jean-Baptiste Charcot ásamt nærri allri sinni áhöfn en alls fórust 40 manns í slysinu og aðeins einn skipverji komst lífs af. Nú hefur verið gefin út bók um fornleifarannsókn á flaki skipsins sem hvílir enn á botni Straumfjarðar. Bókina skrifuðu í sameiningu Jean-Pierre Joncheray, skýrsluhöfundur og leyfishafi fornleifarannsóknarinnar, Svanur Steinarsson, sem er vel kunnugur svæðinu sem lakið liggur á og hefur verið leiðsögumaður kafara í þetta flak í 37 ár, og René Tamarelle, sem sá um skipulag leiðangurs að flakinu auk þess að vera fjárhagslegur stuðningsaðili rannsóknarinnar.

Jean-Pierre Joncheray hefur stundað kafanir og rannsóknir á skipsflökum um allan heim í rúma hálfa öld og gefið út 33 bækur. Bókin um Pourquoi pas? var síðasta bókin sem hann gaf út en hann lést viku eftir útgáfu bókarinnar, 80 ára gamall. Í bókinni er hægt að finna allar upplýsingar um skipið, tilgang þess og leiðangra. Bókin er gefin út á þremur tungumálum; frönsku, ensku og íslensku og hana er hægt að kaupa hjá Svani í verslun hans Brúartorgi í Borgarnesi. „Ég ákvað að kaupa nokkur eintök og selja hér heima því það var enginn annar að selja þessa bók hér á Íslandi. Þetta er merkileg saga og mikilvægt að geta nálgast upplýsingar um skipið og slysið,“ segir Svanur í samtali við Skessuhorn. Svanur keypti auk þess nokkur eintök og gaf á nokkur söfn. Hann átti þrjú eintök eftir nú fyrir helgi en átti von á fleiri eintökum til landsins. „Þessi bók er í raun bara skýrsla um skipið fléttað saman við sögu þess og rannsóknir á liðnum árum,“ segir Svanur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Saman á Skaga

Verkefni sem snýst um að rjúfa félagslega einangrun fullorðinna fatlaðra einstaklinga Undanfarin tvö ár hefur Hildur Karen Aðalsteinsdóttir stýrt verkefni... Lesa meira