adsendar-greinar Erlent
Bill Cosby á leið úr dómssal í gær.

Bill Cosby dæmdur til fangelsisvistar

Bill Cosby fékk þriggja til tíu ára fangelsisdóm en hann var sakfelldur á árinu fyrir kynferðisbrot. Þyngsta refsing fyrir brot eins og Bill Cosby var sakfelldur fyrir er tíu ára fangelsisvist. Dómarinn sagði að hann skyldi minnst sitja inni í þrjú ár, en mest í tíu ár. Cosby var dæmdur fyrir að hafa byrlað Andreu Constand lyfjum og brotið gegn henni kynferðislega á heimili sínu árið 2004. Um sextíu konur hafa sakað Cosby um brot gegn sér. Cosby var vinsæll gamanleikari á árunum 1984-1992.

Að auki skilgreindi dómarinn Cosby sem ofbeldishneigðan kynferðisafbrotamann, sem hefur það í för með sér að Cosby er núna skráður á lista hjá lögrelgu yfir kynferðisafbrotamenn. Hann þarf einnig að tilkynna nágrönnum sínum að hann sé kynferðisbrotamaður, hann þarf að sækja reglulega sálfræðiráðgjöf og tilkynna sig til yfirvalda fjórum sinnum á ári.

Í frétt Guardian um málið segir að Cosby sé fyrsti maðurinn sem staðið hefur í sviðsljósinu sem er sakfelldur og dæmdur í kjölfar #metoo-byltingarinnar. Verjandi Cosby mótmælti því að hann væri skilgreindur sem ofbeldishneigður kynferðisafbrotamaður þar sem hann sé 81 árs gamall lögblindur maður og ólíklegur til ofbeldisglæpa. Einnig benti hann á að Cosby væri orðinn heilsuveill og því varla verjandi að leggja það á hann að fara á milli nágranna sinna og tilkynna þeim að hann væri kynferðisbrotamaður.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir