adsendar-greinar Mannlíf
Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir er verkefnastjóri hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands. Ljósm. arg.

Átthaganám er fyrir þann sem vill fræðast um svæðið sitt

Nú í september mun Símenntunarstöðin á Vesturlandi bjóða upp á átthaganám með sérstaka áherslu á Akranes og Hvalfjarðarsveit. Markmiðið með náminu er að efla þekkingu þátttakenda á svæðinu og auka færni þeirra í að miðla þekkingu á skemmtilegan hátt. „Við köllum þetta átthaganám, svæðisþekking og upplýsingamiðlun. Núna á þessari önn er sérstök áhersla lögð á Akranes og Hvalfjarðarsveit. Það hefur áður verið boðið upp á átthaganám með áherslu á Snæfellsnes,“ segir Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir, verkefnastjóri hjá Símenntunarstöðinni í samtali við Skessuhorn.

Kynnast sínu nærumhverfi

Í átthaganáminu verður unnið með sögu, náttúrufar og byggðina á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit. Auk þess verður farið yfir undirstöðuatriði í móttöku gesta og upplýsingamiðlun. „Það verður farið í það hvernig er best og áhrifaríkast er að miðla þessum upplýsingum um svæðið sitt til gesta. Þetta er í rauninni fyrir þann sem vill fræðast um svæðið sitt. Hver er sérstaðan og hvað einkennir svæðið eru spurningar sem verða lagðar fyrir. Það fer líka svolítið eftir þátttakendum, hvernig þeir vilja þróa námið áfram, það er svo spennandi,“ segir Hafdís Fjóla sem leggur þó áherslu á að ekki sé verið að kenna leiðsögu heldur frekar að þekkja sitt nærumhverfi og geta deilt þeim upplýsingum á skilvirkan hátt með hverjum sem er.

Enginn undirbúningur nauðsynlegur

Hafdís segir námið tilvalið fyrir þá sem vilja vita meira um svæðið sitt. Engar sérstakar aðgangskröfur eru gerðar fyrir námið og því hvetur hún áhugasama að skrá sig. „Námið eflir þekkingu og færni sem nýtist þátttakendum til að skapa sér fjölbreytt og spennandi atvinnutækifæri í heimabyggð. Oft eru einstaklingar sem eru í nýsköpun einangraðir þar sem margir hverjir vinna einir síns liðs. Með þessu móti erum við að hvetja til samvinnu og efla tengslanet þátttakenda þar sem allir aðilar njóta góðs af,“ segir Hafdís.

Búið er að opna fyrir skráningu en námið hefst laugardaginn 28. september og verður það í fullum gangi til 23. nóvember. Námið byggist á fjórum staðarlotum sem fram fara á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit og vikulegum netfundum. „Þetta er dreifnám en við búumst við því að fólk taki vel í þetta, þegar eru einhverjir búnir að skrá sig,“ segir Hafdís að lokum.

Hægt er að hafa samband við Hafdísi á hafdis@simenntun.is varðandi nánari upplýsingar um námið. Einnig er hægt að hafa samband við Hlédísi Sveinsdóttur á hlediss@gmail.com en hún skipuleggur og heldur utan um námið í samvinnu við Símenntunarmiðstöðina.

Líkar þetta

Fleiri fréttir