Fréttir
Maja Stína keramiker á vinnustofu sinni. Ljósm. mm

Leirbakaríið opnað á nýjum stað á Akranesi

Leirlistarkonan María Kristín Óskarsdóttir, Maja Stína, opnaði í gær Leirbakaríið við Kirkjubraut 56 á Akranesi. Þar er nú búið að innrétta skúr fyrir keramikstúdíó og vinnustofu. Skúrinn keypti Maja Stína og gerði upp fyrir starfsemi sína, en hann stendur innarlega á lóðinni við hlið Oddfellowhússins. Þar hefur hún rennibekki og aðra vinnuaðstöðu og framleiðir skálar, kertastjaka, diska, bolla og aðra nytjahluti sem hún brennir síðan í leirbrennsluofni. Hver hlutur hefur sinn karakter eins og sjá má í útstillingu á verkstæðinu.

Leirbakaríið var upphaflega opnað við Suðurgötu 50a árið 2018 í húsnæði sem áður hafði hýst Brauða- og kökugerðina. Þá var með Maju Stínu í rekstrinum Kolbrún Sigurðardóttir en báðar eru þær menntaðir í leirlist og kennslu. Maja Stína stendur nú ein að enduropnun Leirbakarísins. Nafnið á fyrirtækinu er dregið af þeirri starfsemi sem upphaflega verkstæði var í, það er Brauða- og kökugerðinni. Það er því við hæfi að starfsemin nú sé komin í næsta nágrenni við fyrrum höfuðstöðvar Harðarbakarís við Kirkjubraut 56. Starfsemi Leirbakarísins var hætt á Covid árunum og hefur Maja Stína frá þeim tíma sinnt kennslu á öllum skólastigum á Akranesi.

„Mig langar að gera leirinn aftur að aðalstarfi,“ segir Maja Stína, en hún lærði keramiker í Kunstakademiunni í Aarhus í Danmörku á árunum 2005-2008. „Við fluttum 2008 á Akranes og höfum búið hér síðan,“ segir hún. Aðspurð segist hún ætla að taka á móti hópum á vinnustofuna og reiknar með að verða með opið þrjá daga vikunnar. Það verði nánar auglýst síðar.

Í dag verður opið hús í Leirbakaríinu frá klukkan 13-17.

Búið er að gera skúrinn við Kirkjubraut 56 upp bæði utan sem innan.

Leirbakaríið opnað á nýjum stað á Akranesi - Skessuhorn