adsendar-greinar Mannlíf
Sólrún við listaverkið þegar uppsetning var á lokametrunum 20. maí síðastliðinn. Ljósm. tfk.

112 tilbrigði íslenskrar tungu um vind

Listakonan Sólrún Halldórsdóttir er fædd og uppalin í Grundarfirði en býr í Kópavogi í dag. Ræturnar til Grundarfjarðar eru sterkar og kom ekkert annað til greina en að setja listaverkið með 112 tilbrigðum af íslenskum veðurorðum upp þar. Verkið var fyrst sett upp í Grundarfirði sumarið 2019 í tengslum við sýninguna Umhverfing sem samanstóð af mörgum listaverkum sem sett voru upp vítt og breytt um Snæfellsnes það sumar. „Ég fékk hugmyndina fyrst 16. nóvember 2018 á degi íslenskrar tungu, sem er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Ég heyrði að við ættum yfir 130 orð yfir vind. Þetta þótti mér áhugavert og kjölfarið fór ég í rannsóknarvinnu og ræddi við marga vítt og breytt um landið, til sjávar og sveita, og fann 138 orð sem hægt er að skilgreina sem vind eða veðurbrigði þar sem vindur kemur við sögu,“ segir Sólrún í stuttu spjalli við Skessuhorn.

„Ég ákvað að hafa orðin 112 og tengdi þetta þannig við neyðarnúmer viðbragðsaðila á Íslandi sem þurfa oft að fara af stað í allskyns veðrum, einkum ef vindur er mikill.“ Sólrún segist oft fá athugasemdir um einhver ákveðin orð sem vanti og hefur bara gaman af því. Nú geta menn komið saman á Kirkjuholtinu í Grundarfirði og haft sérstaka ástæðu til að rökræða um veðrið.

Úr traustara efni nú

Verk Sólrúnar sem hún setti upp sumarið 2019 átti upphaflega að standa í þrjár vikur og var gert úr ódýrara og veikbyggðara efni en hún notar við endurgerð þess nú. Verkið var þannig úr garði gert að mjög freistandi var að sitja á því og krökkunum fannst gaman að hlaupa eftir endilöngu verkinu. „Undirstöðurnar voru ekki að þola það,“ segir Sólrún. Verkið vakti mikla athygli og var góður rómur gerður að því enda sómdi það sér vel þar sem það stóð á túninu við Grundarfjarðarkirkju. „Ég ákvað því að sækja um styrk til að gera verkið þannig úr garði að það gæti staðið af sér veður og vind og verið prýði til lengri tíma. Uppbyggingarsjóður Vesturlands styrkti mig fyrir hluta af efniskostnaði og hjálpaði það til. Ég byrjaði á þessu 5. janúar á þessu ári og það hafa farið um fjögur hundruð vinnustundir í verkið. Uppsetning á verkinu hófst svo 22. apríl og hefur verið i um það bil mánuð. Ég fann grjót í undirstöðurnar í sömu malarnámu og grjótið fór í nýju höfnina. Ég hef fengið hjálp úr ýmsum áttum síðustu daga og hafa starfsmenn bæjarins meðal annarra hjálpað til og kann ég þeim bestu þakkir fyrir.“

Forsetafrúin mun afhjúpa verkið

Verkið verður formlega afhjúpað föstudaginn 4. júní næstkomandi sem er föstudagurinn fyrir sjómannadagshelgina. Frú Elíza Reid forsetafrú mun afhjúpa verkið sem er ákaflega viðeigandi þar sem hún er glæsilegur fulltrúi þeirra fjölmörgu Íslendinga sem hafa íslensku sem annað mál. Hugmyndasamkeppni var um nafn á verkið og verður það upplýst við afhjúpun, en gárungarnir hafa auðvitað gefið því nafnið Vindgangur. En hvert sem nafnið verður er verk Sólrúnar glæsilegt á að líta og verður mikil prýði í Grundarfirði.

Líkar þetta

Fleiri fréttir