Íþróttir Mannlíf
Valdís Þóra Jónsdóttir. Ljósm. úr safni/ gbh.

Valdís Þóra þrítug

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur frá Akranesi, er þrítug í dag, 4. desember. Hún hefur um árabil verið einn allra besti kylfingur landsins og í fremstu röð íslenskra íþróttamanna.

Hún varð fyrst Íslandsmeistari í 14-15 ára floki stúlkna 2014 og 16-18 ára flokki árið 2007. Hún hefur þrisvar hampað Íslandsmeistaratitli kvenna; 2009, 2012 og 2017, en hún hefur ekki getað keppt á Íslandsmótinu undanfarin tvö ár þar sem þau hafa skarast á við Opna skoska meistaramótið. Hún varð einnig Íslandsmeistari í holukeppni 2010. Þá varð hún árið 2017 fyrsti íslenski kylfingurinn til að tryggja sér keppnisrétt á Opna bandaríska.

Sjö sinnum hefur Valdís verið valin Íþróttamaður Akraness; 2007, 2008, 2009, 2010, 2016, 2017 og 2018. Enginn hefur oftar verið sæmdur þeirri heiðursnafnbót.

Hún hóf atvinnumannaferil sinn árið 2013, að loknu námi við Texas State háskólann í Bandaríkjunum. Um þessar mundir er hún stödd í Kenýa, en lokamót Evrópumótaraðarinnar hefst þar í landi á morgun. Valdís situr fyrir mótið í 71. sæti á styrkleikalista Evrópumótaraðarinnar, en 70 efstu halda sæti sínu í mótaröðinni á næsta ári.

Líkar þetta

Fleiri fréttir