adsendar-greinar Mannlíf

Útieldstæði tekið í notkun á Varmalandi

Lokið er við að byggja upp eldstæði á skógarsvæðinu á Varmalandi í Borgarfirði. Þar hefur grunnskólinn nýtt sér aðstöðuna til útikennslu til margra ára. „Fyrir nokkrum árum þegar Imba okkar, Ingibjörg Daníelsdóttir á Fróðastöðum, lét af störfum að loknum kennsluferli sínum ákvað hún að gefa ákveðna fjárhæð fyrir hvert ár sem hún starfaði við skólann okkar. Þessi sjóður hefur gengið undir nafninu Imbusjóður og var ætlaður til verkefna sem myndu styðja við og stuðla að útinámi og útveru barnanna í skólanum,“ segir Ása Erlingsdóttir kennari við Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi.

„Við hérna á Varmalandi erum síðan svo heppin að ungmennafélagið okkar hefur verið að byggja upp aðstöðuna á skógarsvæðinu. Félagið var svo tilbúið að leggja til það sem uppá vantaði til að hlaða upp eldstæði sem mun nýtast skólanum og öllu samfélaginu til samveru og skemmtunnar. Þannig er það til komið að Imbusjóðurinn var nýttur í verkefnið ásamt framlagi ungmennafélagsins. Okkur í Grunnskóla Borgarfjarðar á Varmalandi langar að þakka þessum aðilum fyrir framkvæmdina og þessa frábæru aðstöðu til að efla kennslu í nærumhverfi skólans. Kærar þakkir Imba okkar og Umf. Stafholtstungna,“ segir Ása.

Samskiptin á ensku sjálfan vígsludaginn

Það var svo 10. nóvember síðastliðinn sem ákveðið var að prófa nýja eldstæðið og fengu nemendur unglinga- og miðstigs að baka sér brauð á priki. „Þess má geta að annar hópurinn átti að vera í enskutíma og fóru því öll samskipti fram á ensku þessa stund sem við vorum úti. Það má nefnilega ekki gleyma því að nám fer fram víðar en í skólastofunni og það að hafa tækifæri til þess að brjóta upp daginn getur gert kraftaverk fyrir marga nemendur. Yngsti nemendahópurinn fær einnig sinn tíma til að prófa flottheitin enda mikilvægt á þessu sérkennilegu tímum að fá smá uppbrot í hefðbundin skóladag. Við munum svo sannarlega nýta okkur þessa aðstöðu áfram,“ segir Ása Erlingsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira