
Hús kynslóðanna fer brátt að rísa úr jörðu, en búið er að steypa bílakjallara hússins. Ljósm. mm
Kraftur í nýbyggingum í Borgarnesi
Þessa dagana eru iðnaðarmenn víða að störfum í Borgarnesi og hús að rísa. Að vísu er einnig unnið við fækkun húsa því niðurrifa fyrrum sláturhúss og frystihúss í Brákarey er í fullum gangi. Við vesturenda Skallagrímsvallar er byrjað að slá upp fyrir grunni fjölnota íþróttahúss og búið að reka niður staura sem húsið mun hvíla á. Þá er við Borgarbraut 55 búið að reisa tveggja hæða fjölbýlishús. Nokkru ofar við götuna, eða við Borgarbraut 63, er nú búið að steypa upp bílakjallarann undir Hús kynslóðanna, en húsið mun rúma nemendagarða fyrir Menntaskóla Borgarfjarðar og tólf íbúðir fyrir eldri borgara á efri hæðum. Við ofanverða Kveldúlfsgötu, næst Þórðargötu, er svo risið fjölbýlishús.