adsendar-greinar Heilsa
Ragnheiður Sigurðardóttir og Kolbrún Sandra Hreinsdóttir.

Þurfa að kljást við fordóma í kerfinu og jafnvel höfnun

Hópur fólks á Akranesi, sem á það sameiginlegt að hafa veikst vegna rakaskemmda og myglu í atvinnuhúsnæði, hefur ritað landlækni bréf. Farið er fram á að landlæknisembættið beiti sér fyrir aðgerðum í heilbrigðiskerfinu vegna veikinda sem rekja má til sýkts húsnæðis. Hópurinn sér sig knúinn til að fara fram á þetta þar sem hann stendur frammi fyrir ráðaleysi sérfræðinga þegar kemur að veikindum sem rekja má til rakaskemmda. „Það eru jafnvel til læknar sem væna sjúklinga um ímyndunarveiki. Kerfið er því máttlaust þegar kemur að þessu,“ segja viðmælendur Skessuhorns. Í bréfi þeirra segir meðal annars: „Við eigum það öll sameiginlegt að glíma við veikindi vegna staðfestra rakaskemmda og myglu á vinnustað og höfum leitað til lækna sem búa yfir ólíkri sérfræðiþekkingu í þeirri von að fá leiðbeiningar og aðstoð við að ná bata. Það hefur oftast, því miður, borið lítinn árangur,“ segir í upphafi bréfsins. Þá er bent á að mygla sé hið nýja asbest og beri að meðhöndla sem slíkt.

Blaðamaður Skessuhorns settist niður með nokkrum þeirra sem standa að ritun ákallsins til landslæknis. Fólkið býr allt á Akranesi en hefur veikst vegna rakaskemmda og myglu á vinnustöðum á höfuðborgarsvæðinu en þó einkum á Akranesi. Hluti hópsins biðst undan að koma fram undir nafni, en þær Kolbrún Sandra Hreinsdóttir og Ragnheiður Sigurðardóttir samþykkja að gera það, ekki síst til að lesendur leggi trúnað við frásögn þeirra, en vantrú og höfnun eru einmitt algeng viðbrögð samfélagsins þegar nýir sjúkdómar, eins og þessir, gera vart við sig. Þær vilja upplýsa almenning um veikindin, að þau séu alvarleg og ekki síst til að fólk geti áttað sig á einkennunum. Kolbrún er starfsmaður ríkisskattstjóra, en nýverið var húsnæði RSK við Stillholt á Akranesi rýmt og starfsemin flutt að Kirkjubraut. Hún kveðst þakklát Snorra Olsen ríkisskattstjóra fyrir hans meðhöndlun á málinu. Í fyrstu hafi verið búið að ákveða að starfsemi RSK yrði áfram í húsinu meðan viðgerðir á því færu fram, en daginn eftir að hún sendi honum ítarlega lýsingu á sjúkdómsferli sínu hafi verið ákveðið að flytja starfsemina annað.

Þegar Ragnheiður veiktist af völdum raka og myglu í atvinnuhúsnæði var fyrirtækið sem hún vinnur hjá til húsa við Bæjarháls í Reykjavík, í húsi Orkuveitu Reykjavíkur. Það hús og fleiri hafa eins og kunnugt er verið sýkt af myglu og rakaskemmdum og hafa ýmist verið rýmd eða jafnvel rifin. Á höfuðborgarsvæðinu má nefna fyrrum hús Íslandsbanka við Kirkjusand, gömlu Heilsuverndarstöðina í Reykjavík sem landlæknir er nýlega fluttur úr, hluta Landspítalans við Hringbraut og fleiri stofnanir og fyrirtæki. Á Akranesi hefur auk húsnæðis RSK við Stillholt meðal annars verið staðfest mygla í tveimur þjónustuhúsum við Dalbraut; húsi Orkuveitunnar og Fjöliðjunni. Þannig að raki og mygla í húsnæði finnst víða.

Húsasótt víðfeðmara orð

En hvers vegna skyldi mygla og rakaskemmdir hafa þessar alvarlegu afleiðingar á fólk og er þetta nýtt fyrirbrigði? Líklega hafa margir heyrt minnst á orðið húsasótt. Öfgakennd tilfelli húsasóttar voru einmitt rakin til raka sem náð hafði að búa um sig í byggingarefnum vegna t.d. lélegrar loftræsingar. Viðmælendur Skessuhorns segja að um sé að ræða myglugró sem nái við vissar aðstæður, þ.e. vegna raka, galla í byggingu, byggingarefnum eða hönnunar húsa, að búa um sig. Tegundirnar Aspergillus og Penicillum mynda eiturefni sem eru heilsuspillandi mönnum. Sumar Aspergillus tegundir framleiða aflatoxín sem eru best þekktu sveppaeiturefnin en þau eru meðal eitruðustu efna sem til eru og þar að auki krabbameinsvaldandi. Aspergillus tegundir valda ofnæmi og astma en lítil gróin berast auðveldlega niður í lungu (Fungal glossary, Aspergillus, skv. heimasíðu Mycotoxins). Þannig getur byggingarefni einnig leyst frá sér eiturefni sem smjúga út í andrúmsloftið og eitri það. Þetta geta verið gólfdúkar, klæðningarplötur og gifs. Í myglusýktu húsnæði hefur jafnvel orðið að farga húsgögnun, pappír og öðru sem ekki er hægt að þrífa með sérstökum hætti. Þrátt fyrir að ýmsar staðreyndir liggi fyrir um byggingarefni hefur ekki ein ákveðin skilgreining verið sett fram um húsasótt eða myglu. Hvort heldur vitnað sé í læknisfræði eða verkfræði. „Þó er hægt að sammælast um eftirfarandi skilgreiningu: „Þegar íbúar húss (einn eða fleiri) hafa óæskileg líkamleg eða andleg einkenni/óþægindi sem tengja má dvöl í rými,“ segir á vef Verkís, en þar segir einnig um húsasótt: „Hjá fyrirtæki sem þjáist af húsasótt má búast við að starfsmenn sýni eftirfarandi einkenni: Óútskýrð fjarvera, aukin veikindatíðni, minni afköst og starfsánægja sem getur leitt af sér háa starfsmannaveltu.  Einnig hafa rannsóknir sýnt að of hátt hitastig minnkar afköst verulega.“

Alvarleg veikindi

Ekki fór á milli mála að fólkið sem myndar hópinn sem blaðamaður ræddi við á Akranesi þjáist af afleiðingum myglu og rakaskemmda. Einkennin eru svipuð hjá þeim öllum, en í stuttu máli lýsa þau sér sem höfuðverkur, lið- og beinverkir, jafnvel taugaverkir og á margan hátt eins og flensa. „Auk þess eru einkenni á borð við hjartsláttartruflanir, meltingarvandamál, innri kuldi, sár í húð og munni, flökurleiki og depurð. Almennt verður mikil skerðing á lifsgæðum. Veikindunum getur fylgt mikil þreyta og verður sjúklingur jafnvel rúmliggjandi og ófær að leysa verkefni daglegs lífs. Augu þorna og óþægindi eru í öndunarvegi sem lýsir sér sem hæsi, bólgur og bjúgur í hálsi. Raddleysi getur fylgt þrálátum bólgum í hálsi og raddböndum. „Við erum „bjúguð“ alla daga, bara mismunandi mikið,“ segir Kolbrún Sandra.

„Sjúkdómseinkenni okkar skarast að hluta og hjá sumum lýsa þau sér eins. En það er ekki algilt,“ segir Kolbrún Sandra. Ragnheiður kveðst hafa orðið að vera langdvölum frá vinnu vegna veikinda sinna. Þá þurfi eiginmaður hennar, þegar hann kemur heim úr vinnu, að byrja á að skipta um föt í bílskúrnum, fara í sturtu og klæðast öðrum fötum áður en hann fer inn í íbúðina. „Eftir að ég veiktist er ég farin að flokka húsnæði eftir loftgæðum. Ef ég kem inn í húsnæði sem er sýkt finn ég það strax og verð að forða mér út. Get heldur ekki setið í bíl með fólki sem hefur dvalið inni í sýktu húsi. Þannig má segja að þessi sjúkdómur gagntaki mann.“ Þannig lýsir Ragnheiður því sem í raun eru varnarviðbrögð líkamans, rétt eins og þegar fólk er haldið ofnæmi. „Það sem gerist þegar við veikjumst af myglu eða í rakaskemmdu húsnæði á sér stað eitrun, tankurinn einfaldlega yfirfyllist og maður getur ekki starfað við slíkar aðstæður,“ segir hún. Kolbrún Sandra bætir við að þessu fylgi allskyns efnaóþol, til dæmis af ilm- og hreinsiefnum. „Ég hafði ávallt verið heilsuhraust og ekki gjörn á að fá umgangspestir áður en ég hóf störf á skattstofunni árið 2007. Smám saman fóru ýmis einkenni að gera vart við sig. Raunar er eins og þetta læðist að manni. Ég var algjörlega grunlaus um að verri heilsa gæti átt rætur í húsnæðinu sem ég vann í,“ segir Kolbrún Sandra.

Litið í baksýnisspegilinn

„Þegar litið er í baksýnisspegilinn með þá vitneskju sem ég hef í dag þá var ég orðin veik á árunum 2011 til 2015,“ segir Kolbrún Sandra. „Ég tók upp flestar kvefpestar, var með tíða og mikla höfuðverki ásamt svima sem olli jafnvægistruflunum. Á árunum 2016-2017 fór mér svo að hraðversna. Á þeim tíma fékk ég svæsnar hálsbólgur og ennisholusýkingar ásamt bronkítis. Hjá mér lýsti sjúkdómurinn sér sem innri kuldi, meltingartruflanir og magaverkir, daglegir sinadrættir ásamt miklum vöðvaverkjum og stífleika og ég átti af þeim sökum erfitt með svefn. Þessu fylgdi mikil þreyta og framtaksleysi, gloppótt minni, svimi, stanslaus höfuðverkur, sjóntruflanir, skjálfti í höndum, bjúgsöfnun, mæði og opin sár. Alltaf beit ég á jaxlinn. Í apríl í fyrra höfðu einkennin versnað mjög og var ég að lokum sjúkraskráð frá vinnu í júní 2018. Mörg af mínum einkennum minnkuðu í kjölfar þess og sum hurfu eftir að ég fór út úr húsnæðinu. Það er hræðilegt til þess að hugsa að maður veikist við það eitt að mæta til vinnu þar sem vanræksla á viðhaldi eignarinnar og leki sem hefur verið til staðar frá upphafi hafi rænt mann heilsunni. Í september síðasta haust fór ég til sérfræðings í ofnæmis- og ónæmislækningum. Reyndist það mikið gæfuspor. Álit hans var að það væri greinilegt orsakasamband á milli vinnustaðar þar sem rakaskemmdir væru þekktar auk myglu. Hann sagði að ég ætti ekki að snúa aftur á vinnustað minn fyrr en ljóst væri að húsnæðið væri ekki mögulega heilsuspillandi. Hann tilkynnti mín veikindi til Vinnueftirlitsins. Ég þurfti að glíma við eigin fordóma og að sætta mig við að þetta væri staðan sem ég væri komin í. Við tók mikill lestur, fræðsla og hægfara bataferli. Þrátt fyrir þetta langa ferli er ég afar þakklát Snorra Olsen ríkisskattstjóra fyrir að hafa tekið af skarið með að flytja vinnustað okkar í nýtt húsnæði. Nú er ég loksins byrjuð að vinna að nýju,“ segir Kolbrún Sandra.

Miklir hagsmunir

Þær Ragnheiður og Kolbrún Sandra bæta við að í sumum tilfellum hafi veikindi vegna húsmyglu eða raka verið skilgreint sem sjálfsofnæmi, vefjagigt eða jafnvel kulnun í starfi enda skarast mörg einkenni þessa sjúkdóms við einkenni „húsasóttar“. Miklir hagsmunir eru í húfi þegar hús skemmast og sýkjast vegna rakaskemmda. Miklir fjármunir þegar hús eru annars vegar og því hefur oft verið reynt að fara í felur með raunverulegt vandamál. Líf og heilsa fólks á þó alltaf að vera í fyrsta sæti. „Ef grunur vaknar um myglu eða rakaskemmdir í húsum, á að rannsaka í þaula hvort húsin séu sýkt og ef svo er þá þarf að gera á þeim úrbætur. Alltaf á að leyfa starfsfólkinu og heilsu þess að njóta vafans. Engu að síður er mikil þöggun í gangi í þjóðfélaginu, nánast út um allt í kerfinu. Engar tölur eru til dæmis til um hversu margir hafi orðið að hætta í vinnu vegna rakaskemmdra húsa. Það má ekki gleyma því að heilsan er dýrmæt og veikindi kosta,“ segja þær stöllur.

„Var orðin lélegt afrit af sjálfri mér“

„Upphaf veikinda minna varð vart strax á fyrsta degi framkvæmda á mínum vinnustað í júní-júlí 2016,“ segir Ragnheiður. „Ég missti röddina um leið og ég mætti til vinnu og varð veik með þessum týpísku einkennum daglega í átta mánuði þar til ég fór úr húsnæðinu við Bæjarháls. Við sem veikjumst erum alveg gríðarlega ein á báti við slíkar aðstæður. Ég hef í þrjú ár verið að glíma við mín veikindi. Um tíma er ekki hægt að segja að ég hafi átt mér neitt líf. Ég var orðin lélegt afrit af sjálfri mér. Gat ekki séð um heimilið og var hætt að geta sofið á nóttunni vegna kvíða. Fannst ég vera að svíkja fjölskylduna, vinnuna og sjálfa mig. Það tók mig langan tíma að viðurkenna að ég gæti ekki meir. Þurfti engu að síður að viðurkenna það fyrir sjálfri mér. Vissulega var þetta erfitt, enda er manni ekki tamt að gefast upp,“ segir Ragnheiður. Síðasta árið hefur ýmislegt verið reynt til að ná bata, til dæmis bótox sprautur í raddbönd, sterameðferðir auk sjúkra- og talþjálfunar. Þrátt fyrir langan tíma er ég bjartsýn á að ná bata og að röddin komi aftur,“ segir Ragnheiður.

Markmiðið er að fræða og upplýsa

Viðmælendur Skessuhorns segja að tilgangur með því að vekja máls á veikindunum og með bréfinu til landlæknis sé ekki að ásaka neinn. „Markmiðið er að geta leitað okkur lækninga, náð betri heilsu og þar með lífsgæðum í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld. Við köllum sérstaklega eftir því að tekinn verði upp sérstakur greiningarlykill í heilbrigðiskerfinu svo unnt sé að halda utan um, greina umfang, safna og vinna upplýsingar um heilsufar sjúklinga sem rekja má til veikinda vegna rakaskemmda og myglu í húsnæði,“ segir í bréfinu til landlæknis. Hópurinn kallar eftir aukinni ráðgjöf og fræðslu um rakaskemmdir í húsum og myglu og hversu alvarlegar afleiðingar þær geta haft á heilsu fólks. Til þess þurfi t.d. heilbrigðisstarfsfólk aðgengilegt efni, fræðslu og menntun til að hjálpa sjúklingum að vinna í veikindum sínum. „Okkar reynsla er sú að meðan fákunnátta ríkir um sýkt húsnæði, þá er hvergi rætt opinberlega um afleiðingarnar, um það sem við erum að glíma við, verandi meira og minna óvinnufær. Menn jafnvel gera ekkert í að lagfæra sýkt hús og sumir sjúklingar verða fyrir aðkasti, jafnvel sagðir aumingjar. Við verðum náttúrlega að taka því og umfram allt að láta ekki afneitun, sorg, reiði og vonleysispakkann ná yfirhöndinni. Fólk einfaldlega þorir ekki að stíga fram og viðurkenna veikindi sín. Við það bætist að stjórnendur í fyrirtækjum hafa ekki heldur kunnað að taka á þessum málum. Þannig má segja að þekkingarleysi og þöggun séu helst að tefja opna umræðu sem leitt getur til úrbóta.“

Að endingu segja viðmælendur Skessuhorns að það hafi hjálpað þeim mikið að koma saman sem hópur og ræða veikindin. Þannig geti þau miðlað af reynslu sín á milli og veitt hvert öðru stuðning. Það hjálpi mikið. Mest um vert er þó að auka umræðuna í þjóðfélaginu um afleiðingar myglu og rakaskemmda í viðhaldslausum og gölluðum húsum. Einnig verði að bæta eftirlit með byggingum og vanda val á byggingarefnum og frágangi. „Síðast en ekki síst þurfa heilbrigðisyfirvöld að bæta sinn þátt til að hægt verði að bæta heilsu okkar og allra annarra sem eru að kljást við þennan slæma sjúkdóm,“ segja þær Ragnheiður og Kolbrún Sandra að endingu.

Góðar greinar

Nokkrar gagnlegar greinar hafa verið ritaðar um myglu og afleiðingar hennar á liðnum árum. Meðal þeirra er grein sem rituð var á vefritið Kjarnann fyrir ári og nefnist; „Hollráð húseigandans – Sumarið er tíminn.“ Greinina ritar Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir fagstjóri hjá Eflu, en hún hefur sérhæft sig í ráðgjöf vegna afleiðinga myglu og rakaskemmda í húsum. Í þeirri grein sem vitnað er til gefur hún einnig góð ráð um viðhald og umhirðu húsa til að forðast megi rakaskemmdir og myglu þannig að húsnæði verði sem heilnæmast. Á vef Eflu má jafnframt finna vandaða grein undir heitinu; „Rakaskemmdir og mygla“.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir