Fréttir
Iðunn Silja Svansdóttir Borgfirðingi sýnir hér Fleyg frá Snartartungu í B flokki. Hlutu þau 8,49 fyrir sýninguna. Ljósm. mm

Fjórðungsmót hestamanna hafið í Borgarnesi

Vallarsvæði hestamannafélagsins Borgfirðings í Borgarnesi er komið í hátíðarbúning. Í morgun hófst þar Fjórðungsmót Vesturlands sem mun standa fram á sunnudag. Dagskrá þessa fyrsta dags mótsins hófst með undankeppni í unglingaflokki klukkan 10 í morgun en eftir hádegið hófust sýningar í B flokki og verður þeim fram haldið í dag. Að sögn Magnúsar Benediktssonar framkvæmdastjóra hefur undirbúningur mótsins gengið prýðilega. „Við byrjuðum þetta á unglingaflokki í morgun og þar komu frábær hross og flottir knapar fram. Þetta lofar því góðu fyrir gott mót. Það verða smáskúrir í dag en svo glaðnar til og við eigum því von á ágætu veðri og fjölda gesta,“ sagði Magnús.