adsendar-greinar Mannlíf
Hemmi og Dengsi.

Þolanleg jólalög

Ég hef verið að ströggla við að koma þessum pistli saman, það er að segja hvernig ég byrja hann. Hver uppbyggingin á honum á að vera þannig að vel sé staðið að málunum og svo framvegis. Fyrst og fremst hef ég verið latur við að skrifa en nóg um það. Síðasta hindrunin á vegi mínum að lyklaborðinu og að þessum pistli var Spotify playlistinn minn með Nickelback, erfitt var að slíta sig frá honum en skyldan kallar og ég hugga sjálfan mig við að félaga mína í Nickelback er réttlætanlegt að hlusta á allt árið um kring – ekki jólalög. Þetta er nefnilega mjög viðkvæmt mál ef það er farið út í það, ef spennti gaurinn í blokkinni byrjar að spila jólalög snemma í október þá er hætt við ofbeldi af hálfu nágrannanna – nema ef um væri að ræða Last Christmas með Wham (meira um það seinna).

Jólalög hafa það dásamlega hlutverk að færa birtu þar sem þörf er á, þegar myrkrið teppaleggur sálina við aðvífandi janúar visa-reikninginn sem kemur og faðmar þig líkt og sveitti frændinn í jólaboðinu.

Allavega, hver eru bestu jólalögin og hvað er það sem gerir gott jólalag? „Það er svo margt“ gæti einhver sagt en það er ekki nóg, við sem setjum saman topp 10 lista viljum komast inn að merg (jólamergnum #hehe) lagsins og vita hvers vegna það á skilið að vera á þessum lista. Stefán Hilmarsson fær til dæmis ekki að vera á þessum lista því jólaplatan hans er alger hamborgari. Myndin ein á albúminu lætur kalt vatn renna milli skinns og hörunds.

Allavega hefjum talninguna.

  1. Pálmi Gunnarsson – Yfir fannhvíta jörð. Er eitthvað jólalegra en silkimjúkur Pálmi og félagar að syngja texta eftir Ólaf Gauk?
  2. Ragnar Bjarnason – Er líða fer að jólum. Raggi Bjarna syngur, Gunni Þórðar semur og Ómar Ragnars er með textann. Þetta lag er kynslóðalaust, endurnýjast á hverju ári með nýjum hlustendum. Tvímælalaust með betri jólalögunum.
  3. Mariah Carey – All I Want for Christmas Is You. Stöð 2 er búin að gera sitt besta með að casha inn á hlýjuna sem fyllir mann að innan þegar þetta lag hljómar, þá með Björgvini Halldórs segja okkur hvað er á dagskránni í desembermánuði. En það er ekki hægt að hata þetta lag.
  4. Ómar Ragnarsson – Jólasveinn, taktu í húfuna á þér. Við erum hérna að tala um Prime Time Ómar Ragnarsson. Allt sem hann snerti varð að gulli á þessum tíma, hvort sem það var að fljúga flugvélinni sinni eða keyra á smábílnum sínum. Hendum hópi af krökkum inn í stúdíó til að syngja með honum og við erum komin með tímalausa snilld.
  5. Laddi – Snjókorn Falla. „Jóla hvað“ Laddi var jólin fyrir mér. Ég get ekki ímyndað mér að þetta hafi breyst mikið síðustu áratugi. Jól Alla Daga platan er í raun mesta jólapeppsplata sem hægt er að setja á. Mæli með.
  6. Vilhjálmur Vilhjálmsson – Jólin alls staðar. Ellý og Villi Vill syngja jólalegasta jólalag Íslands. Fátt fallegra og notalegra.
  7. Pálmi Gunnarsson – Gleði og friðarjól. Signature lagið hans Pálma Gunnars. Plötumyndin af honum og syni hans í greniskóginum er að eilífu greypt í minni þjóðarinnar. Hárgreiðslan er líka til fyrirmyndar; sítt að aftan (business at the front, party at the back). Pálmi er líka mátulega agressívur í þessu lagi.
  8. Wham – Last Christmas. Er eitthvað jólalegra en George Michael og Andrew Ridgeley í jólasveina- og hreindýrabúningi með pakka allt í kring? Og myndbandið maður minn lifandi, þegar Wranglerinn rennur í hlað og allir glaðir í fjallakofanum. Þetta gerist ekki jólalegra.
  9. Dominik Hauser & Katie Campbell – Christmas Vacation. Lagið úr Christmas Vacation með Chevy Chase. Einni bestu jólamynd allra tíma.
  10. Hemmi og Dengsi – Það er alveg dagsatt. Hemmi og Laddi árið 1991 í Á tali með Hemma Gunn. Spurðu gaurinn í Jólahúsinu á Akureyri hvað honum finnst um þetta lag, það er á endurtekningu þar og afgreiðslufólkið virðist ekki einu sinni vera þreytt á því „jæja Hemmi minn…“

Það má víst byrja að spila jólalögin á fullu núna svo það er lítið sem stendur í vegi fyrir þér, kæri lesandi að hefjast handa ekki seinna en strax í dag. Ég bendi á að það er einmitt til listi á Spotify sem heitir einmitt Þolanleg jólalög, innblástur þessa pistils. Endilega athugið hann.

Kveðja,

Axel Freyr Eiríksson

Líkar þetta

Fleiri fréttir