adsendar-greinar Mannlíf
Á Arnarstapa. Ýmis opinber störf án staðsetningar mætti inna af hendi þar eins og annars staðar. Ljósm. úr safni.

Rætt um staðsetningu ríkisstarfa á haustþingi SSV

Staðsetning opinberra starfa á vegum ríkissins var sérstakt þema haustþings Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi, sem haldið var rafrænt síðastliðinn föstudag. Blásið var til pallborðsumræðna um málefnið, en í því sátu Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, Hólmfríður Sveinsdóttir, formaður stýrihóps stjórnarráðs um byggðamál, Vífill Karlsson, hagfræðingur og atvinnuráðgjafi hjá SSV og Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Stjórnmálin hafa áhrif

Ásmundur Einar sagði í upphafserindi sínu að áhugi væri meðal ungs fólks fyrir því að búa úti á landi en atvinnutækifæri hefðu því miður verið af skornum skammti. Stjórnmálin gætu haft áhrif á það með því að færa opinber störf út á land og það væri pólitísk ákvörðun að halda landinu í byggð. „Til að svo megi vera þarf að huga að samgöngum og menntun meðal annars og síðast en ekki síst atvinnutækifærum,“ sagði Ásmundur. „Metnaður okkar sem samfélag á að vera að dreifa störfum hins opinbera um landið, í anda annarra ríkisstjórna á Norðurlöndum. Þar er talið óeðlilegt að opinberar stofnanir séu nánast allar á afmörkuðu svæði í höfuðborginni. Það er ekkert náttúrulögmál að opinber störf séu flest í 101 Reykjavík,“ sagði félagsmálaráðherrann. Enn fremur lýsti hann þeirri skoðun sinni að ráðast ætti í róttækar aðgerðir til að dreifa opinberum stofnunum betur um landið.

Ein forsenda búsetuvals

Hólmfríður hafði orð á því að störf við hæfi væri ein meginforsendan í búsetuvali fólks. Því væri mikilvægt að ríkið stuðlaði að sem fjölbreyttustum störfum um landið allt. Hún rifjaði upp tölur Byggðastofnunar um staðsetningu ríkisstarfa, sem teknar voru saman árið 2014. Samkvæmt þeim voru stöðugildi ríkisins á landsvísu um 24 þúsund, en af þeim voru 17 þúsund á höfuðborgarsvæðinu en sjö þúsund utan þess. Ef tölurnar væru skoðaðar sem hlutfall af íbúafjölda væru væru tæp 8% á höfuðborgarsvæðinu, en meðaltalið væri tæp 7% á landsvísu. „En Vesturland rekur lestina með 4,7% starfa,“ sagði Hólmfríður. Hún sagði að verið væri að uppfæra þessar upplýsingar þessa dagana og von væri á nýjum tölu innan tíðar. Hún hafi fengið leyfi til að birta bráðabirgðatölur fyrir Vesturland og gerði það. Samkvæmt þeim virðist hafa orðið hlutfallsaukning um sirka 1,3% sem væri ívið meira en aukningin á landsvísu, sem væri 0,8%.

Skerpa á byggðahlutverkinu

Í því samhengi rifjaði Hólmfríður einnig upp að það markmið hefði verið sett að 10% allra auglýstra starfa skyldu vera auglýst án staðsetningar fyrir árið 2024. „Þannig að þetta er byggðaaðgerð. En hins vegar getur þetta vissulega gengið í allar áttir. Störfin geta til dæmis flust af landsbyggðinni og þess vegna frá Íslandi til útlanda,“ sagði hún og rifjaði upp starf sem Ferðamálastofa auglýsti fyrir nokkru síðan. Hæfasti umsækjandinn var ráðinn en það vildi þannig til að hann bjó erlendis. „Það er ekkert við það að athuga per-se en það er ekki byggðaaðgerð,“ sagði Hólmfríður og hnykkti á því að ef þessi aðgerð ætti að vera áfram inni í byggðaáætlun þyrfti að skerpa á byggðahlutverkinu. 1. júní 2019 var samþykkt í ríkisstjórn að undirbúa framkvæmd verkefnisins, en öll ráðuneyti eiga aðkomu að því. Óskað hefur verið eftir lista frá ráðuneytum og stofnunum um störf sem sem skilgreina má án staðsetningar. Teknar hafa verið saman upplýsingar um aðstöðu til að sinna slíkum störfum um land allt og gerðar breytingar á starfatorgi og þar er eitt og eitt starf auglýst án staðsetningar. „En ávinningurinn lætur á sér standa einhverra hluta vegna, þó við séum núna í mjög góðri stöðu til að keyra þetta í gegn. Covid hefur sýnt bæði stjórnendum og starfsmönnum að búseta skiptir ekki máli í mjög mörgum tilfellum,“ segir hún. „En hvar stendur hnífurinn í kúnni? Ég vil meina að hann standi fyrst og fremst hjá stjórnendum ráðuneyta og stjórnendum stofnana,“ sagði Hólmfríður en bætti því við að ábyrgðin lægi líka hjá þeim sem töluðu fyrir þessari aðgerð, henni sjálfri þar á meðal. „Og hjá almenningi. Hann ber líka sök, ekki mikla, en fólk sem býr úti á landi og hefur áhuga á að starfa hjá ráðuneyti eða stofnun eða þess vegna einkafyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu, á að vera duglegt að sækja um störfin þó þau séu ekki auglýst án staðsetningar, vísa þess vegna í stjórnarsáttmála og byggðaáætlun og reyna að kýla það í gegn,“ segir Hólmfríður.

Hallar á Vesturland

Vífill Karlsson tók næstur til máls og sagði frá þeim atriðum í Hagvísi, sem kom út í byrjun þessa árs, er snúa að þróun ríkisstarfa á Vesturlandi. Hann kynnti til sögunnar hugtakið ríkisstarfahalla. Kannað væri hvernig fjöldi ríkisstarfa skiptist eftir landshlutum, það borið saman við fjölda íbúa landshlutanna og athugað hvort misræmi væri þar á. Til að gera langa sögu stutta sagði Vífill að árið 2018 hefði þurft að fjölga störfum í landshlutanum um 422, og þá væri eingöngu litið til ríkisstarfa. Væri litið til ríkisstarfahallans og allra opinberra stofnana lagaðist staðan heldur fyrir Vesturland, en engu að síður þyrfti að fjölga um 321 til að ná jafnvægi. „Fjöldi ríkisstarfa er eingöngu 821 en þyrfti að vera 1.142,“ sagði Vífill og bætti því við að Vesturland væri verst statt ásamt Suðurlandi í þessu samhengi. Þá greindi hann einnig frá þróun á fjölda starfa yfir tímabilið 2013 til 2018. Á þeim tíma hefur ríkisstörfum á Vesturlandi fjölgað um 1%. Hins vegar, ef leiðrétt væri fyrir íbúafjölda á sama tímabili kæmi í ljós hlutfallsleg fækkun um 5%. „Þá vakti athygli mína að fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu einu er um 1.347 störf, sem hefði farið langt með að jafna hluta þeirra landssvæða sem hallaði á árið 2018, en það hefði þurft 1.390 störf. Þannig hefði kerfisbundin áætlun um störf án staðsetningar ekki þurft að bitna á neinum starfsmannni á höfuðborgarsvæðinu ef menn gæfu sér tíu ára aðlögunartíma,“ sagði Vífill. „Þannig hefði mátt með nýjum störfum leiðrétta þetta þannig að ekki hefði þurft að fara í sársaukafullar aðgerðir þar sem rótgróin störf hins opinbera eru rifin upp með rótum frá höfuðborgarsvæðinu og flutt út á land. Það er hægt að gera ótrúlega hluti í þessu á skömmum tíma ef menn vilja,“ sagði Vífill. „Auðvitað segja sumir að það sé óheppilegt að opinberum störfum skuli fjölga yfirleitt, nokkrir stjórnmálaflokkar eru með það á stefnuskránni. En svo veltir maður fyrir sér hvað er raunhæft í þessu. Við sjáum ekki heilbrigðis- og menntageirann, sem eru stærstir á könnu hins opinbera, dragast saman á næstu árum miðað við markmið um þróun atvinnulífs og hvernig aldursdreifing íbúanna er að breytast í landinu,“ sagði hann.

Litið til einstakra sveitarfélaga á Vesturlandi sagði Vífill að samkvæmt útreikningunum hallaði mest á Hvalfjarðarsveit en í raun hallaði mest á Eyja- og Miklaholtshrepp þar sem ekkert ríkisstarf væri. Staðan væri góð í Dalabyggð en nokkurn veginn í jafnvægi í Stykkishólmi. Í Hólminum hefði þeim hins vegar fækkað mest á tímabilinu 2013 til 2018, en fjölgað mest á Akranesi. „En betur má ef duga skal, til dæmis á Akranesi, því þar er hallinn enn 35,7%,“ sagði Vífill.

Skakkt kynjahlutfall

Til langs tíma litið sagði Vífill að störfum sem lengst af hefðu verið burðarásar á landsbyggðinni hefði fækkað verulega, þá í sjávarútvegi og landbúnaði. Ef litið væri aftur til ársins 1870, sem væri vissulega nokkuð langt aftur, hefðu opinberir starfsmenn verið um 1% af heildarvinnuafli landsmanna, en hlutfallið var komið í 30% árið 2018. Störf í sjávarútvegi og landbúnaði, sem hefðu alltaf verið landsbyggðinni mikilvæg, væru nú um 3% af heildinni hvort um sig. „Ef litið er á þróun ársverka hjá hinu opinbera og í öðrum þjónustugreinum og svo allra atvinnugreina sést hvað meðbyrinn er gríðarlega mikill á þeim svæðum sem notið hafa opinberra starfa, eins og höfuðborgarsvæðið hefur gert í ríkara mæli en önnur svæði,“ sagði Vífill. Einnig sagði hann alvarlegt í þessu samhengi hversu hátt hlutfall opinberra starfsmanna væru konur, en samkvæmt bráðabirgðaskoðun á tölum Hagstofu Íslands væru eru þær um 72% opinberra starfsmanna. „Og kynjahlutfallið á landsbyggðinni er skakkt, það vantar konur á landsbyggðina,“ sagði Vífill. Hann sagði að byggja þyrfti upp meira af menntunarfrekum störfum úti á landi, einnig í ljósi þess hve stöðugleiki þeirra væri mikill og hve vöxtur þeirra væri mikill og stöðugur, samanborið við aðrar atvinnugreinar og þá sérstaklega þær sem væru ríkjandi á landsbyggðinni. Þá benti hann á að allir landshlutar tækju þátt í að fjármagna tilvist þessara opinberu starfa og eðlilegt að allir fengju að njóta þess.

Aðeins 3% í borginni

Næstur tók til máls Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs. Hann sagði fyrst stuttlega frá þjóðgarðinum en síðan frá starfsliðinu. Í máli hanns kom fram að nú í haust hefðu 34 starfað hjá þjóðgarðinum í heilsársstöðugildum, en auk þess bættust við um 70 manns í föstum starfsgildum á hverju ári frá maí til október. Og störfin dreifast um starfssvæði þjóðgarðsins. Flest eru heilsárssvæðin á suðursvæði hans, þar sem þjóðgarðsmiðstöðin í Skaftafelli er staðsett, eða 19 talsins en aðeins fjögur á höfuðborgarsvæðinu. „En síðan bætast margir við á sumrin, t.d. 48 á suðursvæði, 20 á vestursvæði og 19 á austursvæði,“ sagði Magnús. Miðað við heildarfjölda starfsmanna í júlí síðastliðnum voru aðeins 3% starfandi á höfuðborgarsvæðinu. „Langstærstur hluti er starfandi á landsbyggðinni,“ sagði hann en bætti því við að því fylgdu áskoranir og nefndi fyrst húsnæðismál starfsfólks. „Það er mikill skortur á íbúðarhúsnæði á þeim svæðum þar sem þjóðgarðurinn hefur verið að auka starfsemi sína.“ Einnig skorti gott skrifstofuhúsnæði en það mætti mögulega leysa í samstarfi við fleiri stofnanir á svæðinu. Enn fremur hefði innviðauppbygging ekki haldið í við öra fjölgun ferðamanna, en þó væri mikið að gerast í þeim málum þessi misserin.

Hvernig skila störfin sér út á land?

Upp kom umræða um hvernig mætti tryggja að störf sem væru auglýst án staðsetningar skiluðu sér til landsbyggðarinnar. Hólmfríður sagði að í raun væri ekki hægt að tryggja það. Hins vegar þætti henni að þegar búnar væru til nýjar ríkisstofnanir þyrfti að færa sérstök rök fyrir því ef stofnunin ætti að vera á höfuðborgarsvæðinu. Undir það tók Magnús en ítrekaði að taka þyrfti tillit til aukins ferðakostnaðar í fjármögnun ýmissa stofnana. Hólmfríður hafði bent á að það ætti að vinna með landsbyggðinni að húsnæði væri þar almennt ódýrara en í borginni og undir það tók Vífill. Skynsamlegt væri að opinberar stofnanir litu til annarra staða en póstnúmers 101. „Það er farið að bera aðeins á því að opinberar stofnanir séu að flytja í Hafnarfjörð eða önnur hverfi á höfuðborgarsvæðinu til að forðast háan kostnað í 101, til dæmis Hafrannsóknastofnun sem dæmi,“ sagði hann. Vífill sagði að auðvitað væru til störf sem væri skynsamlegt að vinna á höfuðborgarsvæðinu, svo sem þingið og störf þar sem starfsfólk stofnana þarf að hitta skjólstæðinga sína hvaðan sem þeir kæmu af landinu. „En svo eru það störf sem hafa sáralítið með þetta að gera, til dæmis störf Hagstofunnar, sem gætu verið þess vegna á Hveravöllum. Það er bara fólk sem er að grauta í tölum eins og ég og henda því á vefinn,“ sagði hann og kallaði eftir flokkun opinberra starfa svo betur mætti átta sig á hvaða störfum væri skynsamlegt að dreifa út á land. „Þá náum við betri árangri, held ég,“ sagði Vífill.

Gefist vel að flytja stofnanir

Ásmundur Einar nefndi í þessu samhengi Rarik, sagði rétt sem nefnt var í spurningu til hans að starfsemi þeirrar stofnunar væri nær öll utan höfuðborgarsvæðisins, það er að segja bæði dreifikerfið og virkjanirnar. „En samt eru 60 starfsmenn af 200 á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Ásmundur. „Ég held að það sé akkúrat stofnun sem ætti ekki að vera á höfuðborgarsvæðinu.“

Félagsmálaráðherra sagði að í undirbúningi væri að allar stofnanir settu sér markmið um hlutfall starfa án staðsetningar. Hann ítrekaði þó þá skoðun sína að ekki ætti að hætta flutningi deilda og stofnana í heilu lagi. „Það á ekki að vera þannig að yfirstjórn allra stofnana eða deilda og allt þurfi að vera á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur sýnt sig að hin leiðin gefst vel,“ sagði hann en bætti því við að þar væri alltaf um pólitíska ákvörðun að ræða. Undir þetta tók Hólmfríður, sem sagði að störf án staðsetningar ættu ekki að koma í staðinn fyrir að flytja einstaka deildir eða stofnanir, eða koma á fót nýjum úti á landi. Nefndi Ásmundur síðar að í félagsmálaráðuneytinu væri verið að skoða hvatana fyrir undirstofnanir þess til að ráða inn starfsfólk án staðsetningar.

Kjarnar með vinnurýmum

Magnús kvað sér næst hljóðs og nefndi að starfsstöðvar opinberra stofnana á landsbyggðinni væru margar mjög litlar. Sagði hann að raða ætti stofnunum saman í kjarna þar sem starfsfólk nokkurra stofnana gæti starfað undir sama þakinu. Slíkt væri bæði gott fyrir starfsfólkið og hagkvæmara en að reka eitt starf hér og þar. Sjálfur stýrir hann stofnun sem hefur níu starfsstöðvar. Það væri vissulega áskorun en vel mætti láta slíkt ganga upp.

Út frá því spunnust umræður um einmitt svona kjarna. Var bent á að nýsköpunarmiðstöð með vinnurýmum hefði þegar verið komið á fót á Akranesi og að tvær aðrar sambærilegar miðstöðvar væru í undirbúningi í landshlutanum; í Dölum og Stykkishólmi. Hólmfríður vísaði til þess sem hún sagði áður, að Byggðastofnun hefði tekið saman lista yfir mögulegar starfsstöðvar út um allt land og rifjað var upp að sú hugmynd hefði komið upp að taka húsnæði í Borgarnesi undir slíka starfsemi en ekkert hefði orðið af því. Ásmundur sagði mikinn kost ef slík vinnurými yrðu til víða um land samhliða því að störf væru auglýst án staðsetningar. Þá væri hægt að þrýsta enn frekar á ríki og stofnanir að færa störf út á land og auglýsa ný störf sem eldri án staðsetningar. Hólmfríður lagði til að lagst yrði í sameiginlega markaðsherferð þar að lútandi.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir