
Bifröst verði ekki einsleit byggð langtímaflóttafólks
Byggðarráð Borgarbyggðar hvetur stjórn Háskólans á Bifröst til þess að breyta um stefnu í útleigu húsnæðis á Bifröst þannig að hún verði; „sjálfbær frá sjónarhóli sveitarfélagsins,“ eins og segir í samþykkt byggðaráðsins. Fyrir nokkrum vikum síðan var ákveðið að setja aðalbyggingar Háskólans á Bifröst í sölu auk 65 íbúða á stúdentagörðum skólans. Byggð og mannlíf á Bifröst stendur á gömlum og grónum merg skólastarfs þar, fyrst á vegum Samvinnuskólans og síðast undir merkjum Háskólans á Bifröst. Á tímum fjarnáms er nú svo komið að byggingar á Bifröst teljast ekki lengur nauðsynlegar starfsemi skólans. Einnig hafa verið umræður um sameiningu skólans við aðrar háskólastofnanir t.d. Háskólans á Akureyri. Engin niðurstaða hefur þó orðið í þeim vangaveltum.