adsendar-greinar Mannlíf
Starfshópur Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi. F.v. Brynja Mjöll Ólafsdóttir, Eva Karen Þórðardóttir, Inga Dóra Halldórsdóttir, Guðrún Vala Elísdóttir og Hafdís Fjóla Ásgeirsdóttir. Á myndina vantar Sunnu Rós Þorsteinsdóttur sem starfar einnig hjá Símenntunarstöðinni. Ljósm. glh.

Nýjar og ferskar áherslur hjá Símenntunarmiðstöð Vesturlands

Nú með haustinu fer allt á fullt hjá Vestlendingum eftir stórgott sumar. Krakkar byrja í skólum, fullorðna fólkið fer í vinnuna og allir snúa að nýju í sína kunnuglegu vetrarrútínu. Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi er þar engin undantekning og hafa verkefnastjórar og annað starfsfólk Símenntunarmiðstöðvarinnar í nógu að snúast þessa dagana nú þegar haustar og styttist óðum í veturinn. Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarmiðstöðvarinnar á Vesturlandi, og Eva Karen Þórðardóttir verkefnastjóri ræddu við blaðamann Skessuhorns um verkefnin framundan.

Jákvæð þróun

Framkvæmdastjórinn segir Símenntunarmiðstöðina vera í stöðugri sjálfsskoðun, að það sé nauðsynlegt að vera vakandi fyrir tækifærum og breytingum. „Við eigum að vinna með tækninni en ekki að streitast á móti henni,“ segir Inga Dóra.

Stærsti markhópur Símenntunarmiðstöðvarinnar var hér áður fyrr einstaklingar sem höfðu ekki lokið formlegri menntun á framhaldsskólastigi eða lokið stúdentsprófi. „Þetta var stærsti hópurinn sem leitaði til okkar en við sjáum breytingar þar líka, sem er bara ánægjulegt. Við fengum til að mynda tölur frá ráðuneytinu nýlega sem sýna að þessi markhópur er nú kominn niður í 24% en var 31% árið 2016,“ segir Inga Dóra ánægð með þróunina. „Við fórum í átaksverkefni árin 2014-2016 sem gekk út á að hækka menntunarstigið í Norðvesturkjördæmi. Þá fengum við aukið fjármagn frá ríkinu, fórum meðal annars í raunfærnimat í auknum mæli, tilraunaverkefni í íslenskukennslu fyrir útlendinga og vinnustaðanám og buðum upp á aukna þjónustu við fyrirtæki. Ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi skilað sér og er þessi hópur að minnka. Við erum einnig með öfluga framhaldsskóla og háskóla á Vesturlandi sem ég er fullviss um að hefur einnig áhrif á þessa jákvæðu þróun,“ bætir hún við.

Brúa bilið milli atvinnulífs og formlega skólakerfisins

Þrátt fyrir að þessi hópur fari minnkandi þá er Símenntunarmiðstöðin hvergi hætt að mæta þörfinni hjá þessum hópi. „Við erum með samning við Fræðslusjóð framhaldsfræðslunnar, þar sem við fáum fjármagn frá honum til að sinna þessum markhópi, það er þeim sem hafa ekki lokið þessari formlegu menntun. Þar sem við bjóðum meðal annars upp á vottaðar námsleiðir, raunhæfnimat og starfs- og námsráðgjöf. Sem dæmi erum við með Menntastoðir í fjarnámi, Íslenska menningu og samfélag fyrir erlenda nýbúa í landshlutanum, Grunnnámskeið í fiskvinnslu og margar fleiri námsleiðir. Allt þetta er liður í því að brúa bilið á milli atvinnulífs og formlega skólakerfisins þar sem fólk getur mögulega fengið metnar einingar úr náminu inn í framhaldsskólana og frumgreinadeildir háskólanna,“ útskýrir Inga Dóra. „Margt fólk sem kemur til okkar langar virkilega að halda áfram að læra en sumir vilja síður fara aftur inn í formlega skólakerfið. Við erum í rauninni fyrsta stoppistöð ef hugur er fyrir áframhaldandi námi,“ bætir Eva Karen við.

„Við erum líka að þróa okkur áfram í fjarkennslu og nú í haust munum við bjóða upp á íslensku fyrir útlendinga í fjarnámi. Það nám er ætlað þeim sem eru lengra komnir í íslensku og við stefnum að því að hluti íslenskukennslunnar verði í fjarnámi hjá okkur í framtíðinni,“ segir Inga Dóra.

Vinna með ferðaþjónustunni á Vesturlandi

Símenntunarmiðstöðin gerði samning við Hæfnisetur ferðaþjónustunnar í vetur með það að markmiði að heimsækja ferðaþjónustufyrirtæki á Vesturlandi og sjá hvernig hægt er að aðstoða þau betur til að ná sínum markmiðum, meðal annars með aukinni fræðslu starfsmanna. Hæfnisetur ferðaþjónustunnar heyrir undir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og er samstarfsverkefni aðila vinnumarkaðarins, fræðsluaðila og stjórnvalda um heildstæðar lausnir og úrbætur til að auka hæfni og fagmennsku starfsfólks í ferðaþjónustu á Íslandi. „Við unnum til dæmis með starfsfólki Gestastofu Snæfellsness síðastliðið vor og aðstoðuðum með undirbúning fyrir opnun Gestastofunnar þar í formi fræðslu,“ segir Eva Karen. „Við förum í rauninni inn í fyrirtæki, greinum þarfir þess, heyrum hvert það vill stefna og aðstoðum fyrirtækin að mæta þessum markmiðum. Þetta er svakalega skemmtilegt,“ bætir hún ánægð við.

„Eins og við höfum talað um þá erum við að breyta áherslunum okkar og það er í takt við tímann. Við viljum að fyrirtæki á Vesturlandi geti leitað til okkar,“ segir Inga Dóra.

Fjölbreytt starfsemi og mikil þekking

Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi er sjálfseignarstofnun sem á 20 ára afmæli í ár. Miðstöðin rekur þrjár starfsstöðvar í landshlutanum. Í Átthagastofunni í Ólafsvík, á Bjarnabraut í Borgarnesi og við Suðurgötu á Akranesi. Góður og reynslumikill mannafli er á bakvið starfsemina, þar af eru sex í fullu- eða hlutastarfi ásamt því að ýmsir verktakar og ráðgjafar koma inn í starfsemina eftir því sem hentar. „Við viljum fyrst og fremst láta vita af okkur, vera sýnileg í samfélaginu og að fólk viti að það geti leitað til okkar. Það skiptir okkur miklu máli að geta boðið þessa aðstoð og þekkingu sem við búum yfir,“ segir Inga Dóra að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir