Fréttir

Banaslys á sjó

Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að strandveiðisjómaður hafi í morgun látist í kjölfar þess að bátur sem hann réri á sökk vestur af Blakki, suðvestur af Patreksfirði. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipstjóri fiskibáts í grenndinni hafi haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir klukkan 11 í morgun og tilkynnt að báturinn væri sokkinn og að einn maður væri í sjónum. Þyrla Gæslunnar og áhöfnin á björgunarskipinu Verði II á Patreksfirði voru kölluð út á hæsta forgangi. Þá voru öll skip á svæðinu beðin um að halda tafarlaust á staðinn. Áhöfnin á Verði II var fyrst viðbragðsaðila á vettvang og náði manninum úr sjónum. Hann var fluttur með björgunarskipinu til Patreksfjarðar, en var úrskurðaður látinn við komuna þangað.