
Banaslys á sjó
Lögreglan á Vestfjörðum greinir frá því að strandveiðisjómaður hafi í morgun látist í kjölfar þess að bátur sem hann réri á sökk vestur af Blakki, suðvestur af Patreksfirði. Í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni segir að skipstjóri fiskibáts í grenndinni hafi haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar rétt fyrir klukkan 11 í morgun og tilkynnt að báturinn væri sokkinn og að einn maður væri í sjónum. Þyrla Gæslunnar og áhöfnin á björgunarskipinu Verði II á Patreksfirði voru kölluð út á hæsta forgangi. Þá voru öll skip á svæðinu beðin um að halda tafarlaust á staðinn. Áhöfnin á Verði II var fyrst viðbragðsaðila á vettvang og náði manninum úr sjónum. Hann var fluttur með björgunarskipinu til Patreksfjarðar, en var úrskurðaður látinn við komuna þangað.
Ekki er unnt að birta nafn hins látna að svo stöddu, en samband hefur verið haft við nánustu aðstandendur vegna málsins. Rauði krossinn var virkjaður í því skyni að veita þeim sem að málinu komu viðeigandi aðstoð. Lögreglan á Vestfjörðum fer með rannsókn málsins og er Rannsóknarnefnd samgönguslysa kunnugt um það. Ekki verða gefnar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.