Ég á bara eitt líf
Bjarki Aron og Magnea, vinir Einars Darra. Ljósm. Ásta Kristjánsdóttir, förðun Alexía Mist og hönnun fatalínu Una Hlín hjá DUTY.

Ný vefsíða og fatalína frá Ég á bara eitt líf

Þjóðarátakið Ég á bara eitt líf er komið með nýja og endurbætta vefsíðu, www.egabaraeittlif.is. „Það hefur lítið verið sofið undanfarið til að koma þessu í gagnið,“ segir Bára Tómasdóttir móðir Einars Darra í samtali við Skessuhorn. Síðan gefur gott heildaryfirlit yfir verkefni þjóðarátaksins, sem eru orðin ótalmörg og yfirgripsmikil. Auðveldlega er hægt að styrkja átakið með ýmsum hætti. Nýjasta viðbótin er fatalína merkt Einari Darra en fötin verða seld til styrktar þjóðarátakinu. Einnig er hægt að fylgjast með fréttum af átakinu. Hönnuður fatalínunnar er Una Hlín Kristjánsdóttir hjá DUTY. Á síðunni er hægt að kaupa húfur, hettupeysur, stuttermaboli, töskur og háskólapeysur allar merktar með lógóinu Einar Darri. Fyrirsæturnar fyrir fatalínuna eru krakkar alls staðar að. „Þetta er ungt fólk héðan og þaðan og út um allt. Okkur fannst öflugt að vera með fólk allsstaðar að því öll börn kannast við þennan veruleika,“ segir Bára. Myndirnar fyrir fatalínuna eru teknar í svefnherbergi Einars Darra og eru mjög sterkar. Ljósmyndari er Ásta Kristjánsdóttir og Alexía Mist sá um förðun.

Ég á bara eitt líf hefur einnig fána sem flakkar um fjallstinda. „Elísabet Pálmadóttur stjórnar því verkefni. Hún er aðstandandi sem missti bróður sinn og er mikil útivistarkona,“ segir Bára og bætir við að fáninn sé núna í Ástralíu með vinkonu Einars Darra. Fjallgöngur eru skipulagðar reglulega og fánanum komið á nýjan stað og tekin mynd af honum. Fyrsta ferðin var upp á Úlfarsfell og þangað mættu fjölmargir aðstandendur og gera má ráð fyrir að fáninn verði víðreistur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira