adsendar-greinar Viðskipti
Matreiðslumennirnir Gunnar H Ólafsson og Birki Snær Guðlaugsson eru í hópi þeirra sem standa að Matstofu Gamla kaupfélagsins. Hér eru þeir að halda vörukynningu í versluninni Módeli á síðasta ári. Ljósm. úr safni/ mm

„Matstofunni okkar hefur verið mjög vel tekið“

„Við heyrðum það meðal annars frá viðskiptavinum okkar að það væri þörf á hádegisverðarstað þar sem afgreiðslan gengi hratt fyrir sig. Í hádeginu vilja viðskiptavinir ekki bíða lengi eftir því að fá afgreiðslu og var það ein af ástæðum þess að þessi hugmynd fæddist,“ segir Gunnar H. Ólafsson, matreiðslumaður á Matstofu Gamla Kaupfélagsins á Akranesi þegar hann var spurður um ástæðu þess að veitingastaðnum var breytt. Matstofunni hefur verið mjög vel tekið, að sögn Gunnars, og voru um hundrað manns í hádeginu hjá þeim á virkum dögum þegar starfsemin var opnuð í sumar, en eftir að Covid -19 kom til sögunar hafa þetta verið um 70-80 manns á dag. „Við vorum búnir að velta því fyrir okkur um nokkurn tíma að breyta rekstrinum hjá okkur og forgangsraða hlutunum auk þess að vera með veisluþjónustuna okkar áfram bæði á Akranesi og í Hlégarði í Mosfellsbæ,“ segir Gunnar.

Þótt ekki sé lengur opið á kvöldin á Gamla kaupfélaginu þá er ýmislegt á döfinni. „Við ætlum að bjóða upp á að hafa opið á veitingastaðnum á kvöldin í tengslum við ýmsa viðburði hjá okkur. Þar skal fyrst nefna svokallað „Haltu kjafti kvöld“ þar sem hamborgarinn margrómaði verður á matseðlinum. Vð vorum með grillpakkana í sumar sem gekk mjög vel og gæti orðið framhald á. Bingókvöldin verða áfram þar sem ég og Gísli rakari Guðmundsson sjáum um skemmtunina auk ýmissa annarra viðburða sem verða auglýstir þegar að því kemur.

En þetta eru auðvitað fordæmalausir tímar í miðjum kórónuveirufaraldri sem heftir okkur auðvitað eins og aðra. Ástandið gerði það að verkum að við urðum að skipta upp matstofunni þar sem aðeins er rými fyrir 18 manns í veitingasalnum af öryggisástæðum. Því færðum við „Take away“ heimsendinguna yfir í annan sal,“ segir hann.

Matstofa Gamla kaupfélagsins er með fjölbreyttan matseðil í hádeginu, en opið er frá klukkan 11:30 – 14:00 alla virka daga. Þar er purusteik fastur liður auk kjúklinga-, fisk- og veganrétta vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir