adsendar-greinar Tækni og vísindi
Lilja Björk rannsakar gos úr Snæfellsjökli.

Lilja Björk ætlar að rannsaka eldgos úr Snæfellsjökli

Næsta haust ætlar Lilja Björk Pétursdóttir að hefja rannsókn á eldgosi úr Snæfellsjökli. Um er að ræða mastersverkefni í jarðfræði við Háskóla Íslands og ætlar hún að rannsaka gjósku úr eldgosi sem varð fyrir um 1700 árum, en eldgosin úr Snæfellsjökli hafa aldrei veirð rannsökuð áður. Lilja Björk er fædd og uppalin í Borgarnesi og aðspurð segist hún aldrei hafa séð fyrir sér að læra jarðfræði. „Ég hafði mjög takmarkaðan áhuga á þessu þegar ég var í framhaldsskóla og vissi ekkert hvað ég vildi læra,“ segir hún og hlær. Eftir að hún útskrifaðist sem stúdent tók hún sér frí frá námi í eitt ár og fór til Ítalíu sem au-pair. „Þegar ég kom heim aftur vildi ég fara í háskólann og ákvað að skrá mig í líffræði en eftir eina önn fann ég að það var ekki fyrir mig svo ég prófaði jarðfræði. Ég fór með fjölskyldunni langleiðina inn í Þórsmörk að skoða eldgosið í Fimmvörðuhálsi þegar það var í gangi árið 2010. Ætli það hafi ekki verið þá sem áhugi minn kviknaði á jarðfræði,“ segir Lilja Björk.

Skoðar og greinir kvikuna

Hvað er það sem Lilja Björk er að fara að rannsaka? „Ég er að fara að skoða gjósku sem heitir SN-1 og ég ætla að gera kornastærðargreiningu á öskunni en hún getur sagt okkur hvernig kvikan hefur tæst og hvað hefur verið í gangi í eldgosinu. Þegar kvikan tætist koma minni korn,“ útskýrir Lilja Björk og heldur áfram; „Svo mun ég skoða stærri korn og gera eðlisþyngdarmælingu og skoða blöðrurnar í gjóskunni sjálfri. Eftir því sem blöðrurnar eru stærri hefur hún tekið lengri tíma að komast upp gosrásina því þá hafa blöðrurnar tíma til að stækka. Ef þær eru litlar hafa þær komið hratt upp.“ Lilja Björk mun meðal annars notast við rafeindasmásjá til að greina gjóskuna en það er að hennar sögn mjög lítið vitað um gosin úr Snæfellsjökli, hvernig þau hafi hagað sér, hversu mikil sprengivirkni var í þeim og slíkt. Það eina sem hefur verið rannsakað aðeins er að gerð hefur verið efnagreining á gjóskunni sjálfri.

Þykir þetta spennandi

Að sögn Lilju Bjarkar er búið að kortleggja ágætlega hraunlögin úr Snæfellsjökli og finna gjósku úr jöklinum. „Það sem við vitum er að gosin gátu verið stór og gjóskan úr þeim finnst á mörgum stöðum en það er spurning hvort það var sprengivirkni en það eru vísbendingar um það. Mig langar að vita meira, á hvaða tímum var sprengivirkni og á hvaða tímum í gosinu var þannig séð lítið að gerast. Það er kannski undarlegt en mér þykir þetta ótrúlega spennandi að rannsaka,“ segir hún og hlær. Rannsóknin mun taka heilt skólaár og stefnir Lilja Björk því að útskrift vorið 2021. Mögulega mun hún aðeins byrja forvinnu strax í sumar. „Ef fjármagn fæst og aðstæður leyfa mun ég fara í vettvangsferð að sækja sýni í sumar en annars á Þorvaldur Þórðarson, leiðbeinandinn minn og kennari, sýni sem ég gæti notað. En vonandi næ ég einum degi í vinnu við jökulinn,“ segir Lilja Björk spennt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira