adsendar-greinar Mannlíf
Borgnesingurinn og myndlistarmaðurinn Logi Bjarnason. Ljósm. Áslaug Þorvaldsdóttir.

Leikur sér með óljós mörk höggmynda og málverka

Borgnesingurinn og myndlistarmaðurinn Logi Bjarnason opnaði nýverið sýninguna Takk, Vigdís. Sýnt er í galleríinu Midpunkt í Kópavogi. Logi er alinn upp í Borgarnesi og er einn af skipuleggjendum og upphafsmönnum Plan B listahátíðarinanr, sem haldin er þar í bæ ár hvert. Hann flutti heim til Íslands frá Þýskalandi árið 2015 og settist að í Kópavogi, þar sem hann var einmitt í göngutúr þegar Skessuhorn sló á þráðinn til hans.

Takk, Vigdís er myndlistarsýning þar Logi sýnir bæði málverk og höggmyndir. Skilin eru þó ekki alltaf skýr, því sum verkin eru hvort tveggja í senn. „Ég er í grunninn málari en hef svolítið fært mig yfir í skúlptúr og sum verkin eru beggja blands, á mörkum þess að vera skúlptúr og málverk. Skil miðlanna eru að verða svo óljós í öllu kraðaki heimsins og ég er svolítið að leika mér með það,“ segir Logi.

Átti að henda hluta af sögunni

Eitt verka sýningarinnar er í sérstökum brennidepli. Það er grindverk sem var á svölum Vigdísar Finnbogadóttur, hið sama og hún stóð við og veifaði þjóðinni þegar hún var kjörin forseti sumarið 1980. „Á námsárum mínum í listaháskólanum þá leigði ég jarðhæðina hjá Vigdísi. Svo var ég að mála húsið fyrir hana í sumar og það átti að henda þessu grindverki, hún ætlaði að láta endurnýja það,“ segir Logi, sem leist ekki á að þannig yrði hluta af sögunni hent. Hann fékk því að hirða grindverkið og lét gera það upp. „Það var sandblásið áður en ég málaði það upp á nýtt og glerjaði svo með steindu gleiri, svona eins og Gerður Helgadóttir gerði mikið í sinni myndlist á 8. áratugnum,“ segir hann. „Þannig að þetta er svona femínistaverk, með vísun í brautryðjandann Vigdísi sem var fyrsti kvenforsetinn og í Gerði Helgadóttur, sem er brautryðjandi á sviði skúlptúrgerðar meðal kvenna,“ bætir hann við.

Gæði umfram magn

Sýningin Takk, Vigdís er ein af fáum einkasýningum sem Logi hefur haldið hér á landi frá því hann sneri heim frá Þýskalandi árið 2015. „Ég sýni yfirleitt þrisvar til fjórum sinnum á ári á samsýningum. Tækifærin til að halda einkasýningar eru ekkert sérstaklega mörg. Eftir að ég flutti heim frá Þýskalandi hef ég haldið einkasýningar og samsýningar bæði hérlendis og erlendis, en ég reyni að hugsa um gæði umfram magn í þeim efnum,“ segir Logi.

Sýning Loga  verður opin til 27. september. „Þetta verður svona snörp sýning, þrjár vikur og það verður bara opið um helgar eða eftir pöntun. Þannig að ef fólk vill kíkja á öðrum tímum þá má það hafa samband við mig,“ segir Logi Bjarnason myndlistarmaður að endingu.

Þeir sem hafa ekki tök á að sjá sýninguna Takk, Vigdís á helgum geta haft samband við Loga með tölvupósti á logibjarnason@gmail.com og fengið að berja hana augum í samráði við listamanninn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bland í poka pokinn tæmdur

Myndlistarkonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Tinna Royal var bæjarlistamaður Akraness árið 2020. Hún var að ljúka sýningu... Lesa meira

Hvaðan kemur Regnbogafáninn?

Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á... Lesa meira