adsendar-greinar Mannlíf
„Ég er ekkert stór. Þetta er lítil stöð með lítinn rekstur og það gengur vel,“ segir Sædís Guðlaugsdóttir eigandi Gleym mér ei í Borgarnesi. Ljósm. glh.

Leiðist ekki að segja fólki að vökva

Með hækkandi sól, hlýindum og árstíðarskiptum fara eflaust margir að skipuleggja vorverkin framundan og þá ekki síst í garðinum heima hjá sér. Suma hlakkar til að komast með puttana í beðin á meðan aðrir klóra sér í hausnum yfir því hvar og hvenær eigi að byrja, hvað skuli gera, hvenær og hvað megi – og megi ekki. Hjá Sædísi Guðlaugsdóttur í gróðrarstöðinni Gleym mér ei við Sólbakka 16 í Borgarnesi kemur enginn að tómu borðinu. Sædís hefur þjónað fólki á Vesturlandi og víðar um sumarblóm og fjölæringa ásamt öðrum plöntum í hartnær 36 ár og er uppfull af upplýsingum og svörum fyrir sína viðskiptavini þegar kemur að garðyrkjustörfum.

Hægt að byrja „vorverkin“ í febrúar

Það fer alfarið eftir tíðarfarinu hvenær má byrja að græja og gera garðinn kláran. „Þú klippir tré og runna þegar það koma góðir dagar í febrúar og mars. Það er svokölluð vetrarklipping og góður undirbúningur fyrir vorið,“ útskýrir Sædís. Með því að nota vetrarklippingu er auðvelt að taka burtu skemmdar greinar og þær greinar sem særa eða eru plöntunni til óprýði. Eins þarf oftast að hjálpa stöku tré til að það geti orðið beinvaxið. Vetrarklipping er best til að móta limgerði og annan trjágróður og því best að klippa áður en laufgast á vorin. „Svo hreinsarðu upp eftir þig og kantskerð á meðan grasið, jörðin og rótin er laus. Vorið er tíminn til að taka allt úr beðunum. Þess vegna er svo stjarnfræðilega vitlaust að láta unglingavinnuna gera þetta á sumrin því þá er það erfiðast,“ bætir Sædís við hreinskilin.

Opnar þegar veður leyfir

Sædís opnar stöðina sína þegar veður leyfir henni að opna eins og hún orðar það sjálf. „Ég er á mjög köldu svæði og ég fæ veðrið niður frá Bröttubrekku og Norðurárdal. Þess vegna get ég ekki opnað sölu hjá mér fyrr en næturfrostið er hætt,“ segir hún ákveðin. „Ég get ekki sett upp sölusvæðið mitt og boðið fólki að koma hingað fyrr en ég veit að ég get haft allt í lagi. Ég þarf oft að spyrja á vorin kúnnana mína hvert blómin eru að fara. Ef þau eru til dæmis að fara í Vesturbæinn þá get ég selt blómin en ef það er kannski að fara á Böðvarsgötuna þá þarf ég stundum að segja fólki að hinkra í þrjá daga eða þangað til það er ekkert næturfrost. Ég hef stundum fengið bágt á rassinn fyrir það en ég hef líka fengið klapp á bakið,“ bætir Sædís ánægð við en hún vill sínum viðskiptavinum eingöngu það besta því það getur hreinlega verið of dýrt að byrja of snemma vors þegar nóttin er of köld. „Ekki vera bráðlátur. Ekki koma of snemma og versla því þá skemmirðu vöruna þína, það viljum við ekki,“ segir Sædís.

Vökvun er lykill

Best er að gróðursetja plöntur sem fyrst eftir að þær eru keyptar. Best er að gróðursetja í röku veðri að morgni eða kvöldlagi og koma í veg fyrir að plönturnar þorni í sól og þurrviðri. „Það helsta sem fólk áttar sig ekki á er vökvunin. Þegar þú kaupir blóm þá kaupirðu á sólardegi og góðum degi helst og eðlilega. Í gróðrarstöðinni er plantan í potti sem hún er komin á damp í. Hún er á mjög góðu vaxtarstigi en þarf eiginlega vökvun annan hvern dag. Þegar þú kaupir hana þá hefur hún kannski verið vökvuð kvöldið áður eða um morguninn. Þú ferð með hana í sjóðandi heitan bíl og ferð með hana heim. Svo vökvar þú hana ekki þegar þú tekur hana út úr bílnum og gróðursetur hana kannski daginn eftir. Þá getur hún verið farin að leka og hætt að halda dampi. Ef þetta gerist þá hefur plantan fengið þurrkaáfall og þú hefur eyðilagt plöntuna,“ útskýrir Sædís sem dæmi um algeng mistök. „Ekki bíða með að gróðurseta. Það eru svona lítil tips sem fólk hefur sótt til mín yfir árin því ég er alltaf á vaktinni og mér leiðist ekki að segja fólki að vökva. Jarðtengdu plöntuna með vatni, þú þarft að festa hana. Þetta eru lífsins blóm, þú festir lífsins blóm þar sem það á að vera. Vökvunin er lykillinn að því að allt sem þú setur niður í garðinn þinn lukkast,“ bætir Sædís við.

Ávallt að vinna áfram í tímann

Sædís er ófeimin við að reka viðskiptavini sína heim með heimavinnu. „Ég segi farðu heim og gerðu holurnar, komdu svo næstu helgi og segðu að þú eigir 25 holur fyrir birki og 25 holur fyrir aspir,“ segir Sædís sem dæmi um samskipti við sumarbústaðar- og landeigendur sem koma til hennar. „Komdu þá og keyptu plönturnar. Þú hefur ekkert að gera heim með plönturnar og láta þær kannski veltast um hálft sumarið og ekki planta þeim fyrr en um haustið. Það gerist mjög oft. Þú átt alltaf að vinna áfram í tímann,“ bætir hún við. „Ef þú ert að gróðursetja í sumarbústaðarlandið þitt þá áttu að vinna ár fram í tímann og skipuleggja þig. Þú átt að læra að lesa landið þitt og ég aðstoða mína kúnna með það. Fólk kemur með myndir í tækjunum sínum og ég segi, hérna er blautt og hérna er þurrt. Oft á tíðum er mjög auðvelt að spotta það á myndunum, ég þekki sveitina nokkuð vel hérna í kring. En þú þarft að segja mér sólarganginn hjá þér og hvernig það snýr gagnvart veröndinni hjá þér og þú þarft að segja mér vindáttirnar þínar. Ég kenni fólki að vinna ákveðna undirvinnu áður en það fer að planta einhverju vitleysu á vitlausa staði. Síðan, þarftu að læra hver fjarlægðin á milli trjáa á að vera. Þú þarft að komast að því hvort þú viljir gegnsæjan lund eða massívan lund eða vegg. Hvort þú ætlir að nota grenitré eða lauffallandi tré. Persónulega finnst mér alltaf skemmtilegast að planta í svona grúbbur. Eina grúbbu þarna og aðra grúbbu hinum megin sem dæmi og svo kyssast þær, mætast eins og hlekkir. Þannig verður meiri breytileiki í umhverfinu.“

Upplýsingar allsstaðar

Á Facebook er grúbba sem heitir: „Ræktaðu garðinn þinn – Garðyrkjuráðgjöf.“ Þar inni segir Sædís vera hægt að sækja sér mikinn fróðleik. „Þetta er allt þarna á netinu, allar upplýsingar og allt. Það er nefnilega ekkert nýtt af nálinni í þessu. Mér þykir svo mikið atriði að fólk sé ekki bjargarlaust, að það geti spurt, hvort sem það sé ég sem svara eða fólkið á Facebook síðunni,“ segir Sædís. „Mér hefur nú aldrei leiðst að tala og tala við alla sem koma hingað til mín og reyni að hjálpa því,“ segir Sædís glöð að endingu. Allir sem koma til Sædísar í gróðrarstöðina Gleym mér ei fá hjá Sædísi bæklinga stútfulla af upplýsingum og heilræðum ásamt sumarblómum, þegar veður lofar; matjurtir, krydd og fjölæringa.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira