adsendar-greinar Mannlíf
Helga Margrét Friðriksdóttir, framkvæmdarstýra Landnámsseturs Íslands (til vinstri), heldur hér á sérstökum Veganúar matseðli sem verður í boði út janúarmánuð. Við hliðina á henni, f.v: Viktor Leifsson, Justyna Jasińska og Weronika Sajdowska. Ljósmyndir: Gunnhildur Lind.

Landnámssetur Íslands er þátttakandi í Veganúar

Landnámssetur Íslands í Borgarnesi hefur ákveðið að taka virkan þátt í Veganúar sem Samtök grænkera á Íslandi hafa staðið fyrir síðan 2016 og er þetta því í sjöunda sinn sem áskorunin fer fram. Í janúar ár hvert máta hundruðir þúsunda einstaklinga og fyrirtækja um allan heim sig við vegan lífstílinn. Vegan eða veganismi er lífsháttur sem sífellt færist í aukana. Það eru þrjár mismunandi eða samtvinnaðar ástæður fyrir því að fólk temur sér veganisma eða tekur þátt í viðburði á borð við Veganúar; fyrir dýrin, fyrir umhverfið eða fyrir heilsuna. Þátttakendur í Veganúar eru eins og fyrr segir, um allan heim og fjölmörg fyrirtæki, eins og Landnámssetur Íslands, taka þátt í átakinu hérlendis. Veitingastaðir setja nýja vegan rétti á matseðla, matvöruverslanir bjóða upp á tilboð á vegan vörum og Samtök grænkera á Íslandi standa fyrir fræðandi og nærandi viðburðum. Með þessu er verið að kynna veganisma og gera fólki auðveldara fyrir að prófa vegan lífstílinn.

Taka yfir samfélagsmiðlum Veganúar

„Við ákváðum að taka þátt í þessu skemmtilega verkefni,“ segir Helga Margrét Friðriksdóttir, framkvæmdarstýra Landnámsseturs Íslands í Borgarnesi. Landnámssetrið hefur verið þekkti fyrir veglegt grænmetishlaðborð sem það býður upp á í hádeginu dag hvern og margir sækjast í, en nú í janúar verður allt vegan. „Við förum alla leið með þetta í janúar á meðan við tökum þátt í Veganúar. Alla jafna er hlaðborðið okkar grænmetismiðað, en við merkjum allt sérstaklega ef það eru vegan réttir í boði, eða eitthvað er laktósa- eða glútenfrítt. Eins með súpuna okkar, hún er alltaf vegan hjá okkur,“ bætir Helga Margrét við.

Í dag, 18. janúar, tók Landnámssetrið yfir Instagram reikning Veganúar: veganuar_iceland. „Við ætlum að segja frá öllu því sem við erum að gera í janúar í tilefni okkar þátttöku í Veganúar en líka segja almennt frá okkar starfssemi og kynna okkar flotta veitingastað,“ segir Helga Margrét spennt og hvetur jafnframt alla til að fylgjast með því.

Tilraunastarfsemi í eldhúsinu

Alla jafna býður Landnámssetrið upp á vegan valmöguleika á matseðli sínum en í tilefni Veganúar þá draga þau fram alla þá vegan rétti sem nú þegar eru í boði ásamt því að bæta við tveimur nýjum vegan réttum við svo úr verður sérstakur Veganúar matseðill sem verður í boði út mánuðinn. „Við bættum til dæmis við falafel bollum og vegan lasagne. Svo fá kokkarnir okkar að prófa sig áfram á hverjum degi og búa til rétt dagsins sem verður alltaf vegan og aldrei sá sami,“ útskýrir Helga Margrét. „Það er svo gaman að gefa starfsfólkinu okkar svigrúm til að koma með hugmyndir og prófa sig áfram í því sem það gerir best, nota sitt hugvit og búa til nýja rétti,“ bætir Helga Margrét jákvæð við. „Að því sögðu langar mig að hvetja alla til að koma til okkar í janúar og prófa réttina okkar og segja sína skoðun. Við viljum heyra hvað fólki finnst og ef fólk er ánægt þá er það bara hvati til að halda þessu áfram,“ segir Helga Margrét bjartsýn að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira