adsendar-greinar Mannlíf

Lærir margt í gegnum tónlistina

Anna Þórhildur Gunnarsdóttir er upprennandi píanisti frá Brekku í Norðurárdal. Hún hélt fyrir skömmu útskriftartónleika og jafnframt sína fyrstu einleikstónleika fyrir gesti sem er liður í aðdraganda útskriftar frá Listaháskóla Íslands þar sem hún hefur stundað nám síðustu þrjú ár. Tónleikarnir voru þýðingamiklir fyrir Önnu Þórhildi. „Þetta eru fyrstu einleikstónleikar mínir og undirbúningurinn fyrir þá var ómetanlegur lærdómur. Efnisskráin fyrir þá krafðist mikillar undirbúningsvinnu en þetta voru meðal stærstu tónverka sem ég hef tekið fyrir. Þó svo að þetta sé stórt og mikilvægt verkefni þá er mikilvægt að muna að þetta er ekki „duga eða drepast“ augnablik,” segir Anna um undirbúninginn. Margt gekk vel í aðdraganda tónleikanna en Anna segir að sumt hefði gengið betur á æfingum, og að svoleiðis væri það bara. „Maður lærir svo mikið af þessum fyrstu tónleikum. Þetta er ótrúlegur spenningur. Svo hlakkar manni alltaf til framhaldsins til að gera enn betur og læra af því sem betur hefði mátt fara.“

Lærði fyrst Óðinn til gleðinnar

Anna byrjaði sjö ára gömul að læra á píanó hjá Dóru Ernu Ásbjörnsdóttur við Tónlistarskóla Borgarfjarðar. „Bróðir minn lærði á píanó þegar ég var yngri og ég vildi alltaf æfa mig með honum. Hann kenndi mér fyrst Óðinn til gleðinnar og mér fannst það svo ótrúlega skemmtilegt að ég þurfti að halda áfram,“ útskýrir hún og hlær. Að spila á hljóðfæri hefur kennt Önnu meira en henni hefði nokkurn tímann grunað, bæði sem tónlistarkonu og manneskju ásamt því að tónlistin hefur fært henni allskyns tækifæri. „Ég hef dregið ótrúlegan lærdóm af fólkinu í kringum mig, ég hef kynnst kraftmiklu tónlistarfólki og þau eiga það öll sameiginlegt að vera yndislegar manneskjur, dugnaðarforkar og eljusöm. Maður lítur upp til svona fólks og vill læra af þeim í tónlistinni sem og í lífinu sjálfu.“

Fjölbreytt verkefni

Það sem kemur Önnu mest á óvart þegar hún lítur til baka yfir stutta píanóferil sinn, sem er nú bara rétt að hefjast, er hvað hún hefur tekið þátt í mörgum skemmtilegum og fjölbreyttum verkefnum, bæði á vegum skólans og utan hans. „Ég hef spilað inn á plötu, frumflutt bæði nýleg verk eftir samnemendur mína sem og eldri verk eftir önnur tónskáld, spilað erlendis og tekist á við mun fjölbreyttari tónlist en áður.“ Hún bætir við: „Draumurinn í sjálfu sér breytist aldrei, heldur frekar leiðin að honum sem tekur sífelldum stakkaskiptum. Þegar maður kemur í nýtt umhverfi eins og Listaháskólann og kynnist öllu fólkinu þar þá allt í einu sér maður margar nýjar dyr opnast og tækifæri á hverju strái. Plön eru fljót að breytast í þessu umhverfi. Helsta þróunin er kannski sú að maður verður sveigjanlegri og meira opinn með tímanum og aukinni reynslu.“

Ætlar út í framhaldsnám

Það sem tekur við hjá Önnu að útskrift lokinni er áframhaldandi nám og ætlar Anna að halda hiklaust áfram á sömu braut og hamra járnið á meðan það er heitt. „Næsta skref er að fara út í framhaldsnám. Ég er enn í umsóknarferli með nokkur prógrömm og á eftir að heyra niðurstöðurnar, en ég er að líta til nokkurra skóla í Evrópu,“ segir Anna spennt. „Maður þarf að láta hendur standa fram úr ermum. Ég mun svo ferðast fyrir sum inntökupróf til Evrópu sem og fara til Kanada að hitta vinkonu mína í sumar.“ Nú býr Anna í Reykjavík og hefur gert síðan hún hóf nám við Listaháskólann. Á sumrin kemur hún í Borgarnes og hefur verið að vinna hjá Safnahúsi Borgarfjarðar og núna í vetur kenndi hún á píanó í Varmalandsskóla og í Borgarnesi hjá Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Alltaf haft áhuga á pólitík

Nýlega hélt Samfylkingin í Norðvesturkjördæmi kjördæmisþing. Á dagskrá þingsins var kosning um þrjú efstu sætin á framboðslista flokksins fyrir komandi... Lesa meira