adsendar-greinar Heilsa
Þóra sýnir flotta takta við brautina. Ljósm. arg.

Keilufélag Akraness hefur tekið í notkun nýjan búnað

Síðasta haust tók Keilufélag Akraness í notkun nýjar brautir og búnað og er aðstaðan þeirra í dag með besta móti í kjallara íþróttahússins við Vesturgötu. „Þetta er allt annað fyrir okkur. Gömlu vélarnar voru alveg búnar, þær voru alltaf að stoppa eða bila og þá þurfti að fara bakvið og laga. Það var bæði erfitt og slítandi auk þess sem aðstæður voru ekki öruggar því búnaðurinn var ekki í lagi,“ segir Jónína Björg Magnúsdóttir, þjálfari yngstu iðkenda Keilufélags Akraness í samtali við Skessuhorn. „Það er líka ekki boðlegt að búnaðurinn sé alltaf að stoppa, kannski í miðjum leik,“ bætir hún við. Keilusalurinn er með þrjár brautir. Jónína segir félagið hafa óskað eftir stærra rými þar sem þrjár brautir takmarki verulega mótagetu. „Mótin byggjast upp á brautarpari. Það þýðir að það þarf að hafa helst fjórar, sex eða átta brautir til að geta haldið alvöru mót. Því miður fengum við ekki styrk til að fjölga brautum en við fengum fjármagn fyrir nýjum vélum, sem er frábært og við erum þakklát fyrir,“ segir hún.

ÍA á pall

„Við viljum auðvitað geta haldið mót hér en þá þurfum við fleiri brautir. Við getum haldið deildarkeppni og svo erum við stundum með skemmtimót,“ segir Jónína og bætir við að iðkendur í Keilufélagi Akraness hafi alltaf staðið sig mjög vel á mótum. „ÍA hefur alltaf átt Íslandmeistara og það komast alltaf keppendur frá okkur á pall á mótum. Svo er líka gaman að segja frá því að margir þeirra sem komast á pall fyrir önnur félög hafa byrjað að æfa hjá okkur,“ segir Jónína í sömu andrá og lítill hópur yngstu iðkenda mætti á æfingu. Þau koma sér fljótt að verki og létu það ekki trufla sig þótt blaðamaður væri á svæðinu. „Þau eru rosalega dugleg og gaman að sjá hvernig þau bæta sig með hverju skiptinu,“ segir Jónína.

Áhuginn að kvikna

Laugardaginn 27. febrúar síðastliðinn var keppt í 4. umferð af fimm í Meistarakeppni ungmenna og á því móti var besti spilarinn frá ÍA, Matthías Leó Sigurðsson. „Við erum með marga svona góða og efnilega leikmenn og myndum vilja fá enn fleiri til okkar að æfa,“ segir Jónína og bætir við að hjá Keilufélag Akraness eru um tuttugu iðkendur á grunnskólaaldri og samtals um fimmtíu á öllum aldri. „Ég held samt að áhuginn fyrir keilu sé að kvikna og við stefnum á að auka kynningu á starfinu. Við höfum til dæmis verið að bjóða upp á fyrirtækjamót sem við munum vonandi geta farið af stað með aftur í haust. Þá geta starfsmannahópar, saumaklúbbar eða aðrir hópar komið í salinn og haldið skemmtimót og fengið að kynnast því að spila keilu. Við stefnum á að auka opnunina fyrir almenning og svo bjóðum við líka upp á að halda afmælisveislur í salnum,“ segir Jónína.

Líkar þetta

Fleiri fréttir