adsendar-greinar Viðskipti
Dagar 15-597 frá Hjarðarfelli hafa nú verið taldir. Ljósm. SO.

Heimtist af fjalli eftir þrjú útigangsár

Laugardaginn 3. október sá Sigurbjörn Magnússon bóndi á Minni – Borg í Eyja- og Miklaholtshreppi, nokkrar kindur í landi eyðijarðarinnar Hörgsholts. Fór hann ásamt börnum sínum og náðu þau kindunum á hús. Þar á meðal var ær nr. 15-597 frá Hjarðarfelli í sömu sveit. Þessar fjárheimtur væru ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að þessari tilteknu kind var sleppt á fjall sumarið 2017, þá með tveimur hrútlömbum. Lömbin fundust sitt í hvoru lagi þegar komið var fram á vetur, en hvorki sást tangur né tetur af ánni og var hún því talin af. „Það kom okkur því mjög á óvart að hún skyldi koma fram núna. Á myndinni má glöggt sjá gömlu reyfin þrjú, því alltaf hefur orðið meira eftir af þeim með hverju árinu. Hafi ærin eignast lömb á þessum útigangsárum hafa þau misfarist, því ekki hefur neinna ómerkinga orðið vart,“ segir Sigurbjörg Ottesen bóndi á Hjarðarfelli.

Þess má geta að ærin var rúin og síðan send í sláturhús. Það þótt öruggara svo hún stryki ekki til fjalla að nýju. Ullin af henni var vigtuð og reyndist vera 9 kíló, þá blaut, en léttist um 600-700 grömm við að þorna. Fallþungi var 38,1 kg.

Líkar þetta

Fleiri fréttir