adsendar-greinar Heilsa

Hægt að fylgjast með afreksíþróttafólki á Klefanum

Vefurinn Klefinn.is var opnaður nú í byrjun janúar. Að baki honum standa nokkrir afreksíþróttamenn, sem allir eru um þessar mundir að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana í Tókýó í sumar. Sumir hafa náð lágmarki inn á leikana en aðrir vinna að því hörðum höndum þessi misserin. Íþróttafólkið tekur höndum saman í að miðla þekkingu sinni og reynslu, auk þess sem fjöldi gestapenna sem tengjast íþróttum munu skrifa á síðuna. Klefanum er ætlað að veita öllum sem hafa áhuga á hreyfingu, íþróttum og að ná árangri, tækifæri til að læra af reynslumiklu fólki. Á sama tíma er hann vettvangur fyrir íþróttamenn að bjóða styrktaraðilum þjónustu í formi auglýsinga. „Með þessu veitir Klefinn íþróttamönnum í fremstu röð tækifæri á að koma sér á framværi gagnvart styrktaraðilum á meðan þau eltast við að ná lágmarkinu á Ólympíuleikana,“ segir á Klefanum.

Þeir afreksíþróttamenn sem miðla reynslu sinni á klefanum eru, í stafrófsröð: Anton Sveinn McKee sundmaður, Ásdís Hjálmsdóttir spjótkastari, Eygló Ósk Gústafsdóttir sundkona, Guðlaug Edda Hannesdóttir þríþrautarkappi, Guðni Valur Guðnason kringlukastari, Ingibjörg Kristín Jónsdóttir sundkona, Kári Gunnarsson badmintonmaður, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir kylfingur, Sveinbjörn Jun Iura júdókappi, Valdís Þór Jónsdóttir kylfingur og Þuríður Erla Helgadóttir kraftlyftingakona.

Á vefnum má finna upplýsingar um alla íþróttamennina, yfirlit yfir besta árangur þeirra og hvað þeir þurfa að gera til að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í Tókýó. Auk þess skrifa íþróttamennirnir pistla og deila reynslu sinni, sem fyrr segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir