adsendar-greinar Mannlíf
Anna Jónsdóttir sópransöngkona heldur tónleika úr alfaraleið/ Ljósm. aðsend

Flytur íslensk þjóðlög úr alfaraleið

Anna Jónsdóttir sópransöngkona er á ferð um landið með tónleikaröð sem ber nafnið „Upp og niður og þar í miðju – úr alfaraleið. “ Þar mun Anna syngja íslensk þjóðlög á áhugaverðum stöðum úr alfaraleið. Er þetta í annað sinn sem hún fer í slíka tónleikaferð. „Markmiðið er að syngja á stöðum sem alla jafnan eru ekki tónleikastaðir. Mér fannst þjóðlögin bara bjóða upp á að ég færi út til fólksins í stað þess að fá fólkið til mín,“ segir Anna. „Eftir ferðina fyrir fjórum árum var ég lengi að jafna mig á því að hafa ekki tekið alvöru kvikmyndagræjur með til að festa þetta á filmu. Ég ákvað því að endurtaka leikinn og þá með allan búnað og rétta fólkið til aðstoðar. Við förum þrjú saman í þennan leiðangur; ég, Dragos Alexandrescu kvikmyndatökumaður og Árni Gylfason hljóðmaður,“ segir Anna. Tvennir tónleikar verða haldnir á Vesturlandi, annar í Akranesvita föstudaginn 12. júlí og hinn í Stefánshelli í Hallmundarhrauni sunnudaginn 14. júlí.

Röddin sterkur miðill

Aðspurð segist Anna hafa byrjað að syngja þjóðlögin fyrir næstum tíu árum þegar hún var stödd í Bandaríkjum. „Þetta var í rauninni frekar sérstök staða. Ég var beðin um að halda fyrirlestur og kynna íslenskan tónlistararf. Mér fannst ég ekki geta mætt bara með hefðbundinn fyrirlestur án þess að gefa fólki líka hljóðdæmi,“ segir Anna. „Ég söng lögin án undirleiks og uppgötvaði þá hversu sterkur miðill röddin okkar er í raun og veru. Það er hægt að gera svo mikið með henni og mörg þessara íslensku þjóðlaga eru ekki síðri án undirleiks, sér í lagi þegar þau eru svo flutt í hreinni íslenskri náttúru,“ segir Anna, en hún mun einnig flytja öll lögin án undirleiks á tónleikunum. „Það er mikil áskorun fyrir söngvara að hafa ekkert nema röddina en það getur líka verið áskorun fyrir áheyrendur því röddin kemur svo beint og milliliðalaust til hans með þessum hætti,“ segir Anna. Tónleikarnir verða um 45 mínútur að lengd þar sem Anna mun bæði syngja lögin og segja stuttlega frá þeim og hennar persónulegu tengingu við lögin. „Þetta varður í rauninni smá uppistand líka,“ segir Anna og hlær. „En það eru margar skemmtilegar sögur tengdar þessum lögum, bæði persónulegar sögur og sögur af ljóðskálunum.“ Tónleikarnir verða opnir fyrir alla og ókeypis aðgangur. „Mér finnst ég ekki geta rukkað fólk á þessa tónleika því þjóðlögin eru eign okkar allra. En ég mun glöð taka á móti frjálsum framlögum. Ég er ekki að þessu til að hagnast en þar sem þetta er stórt verkefni sem kostar meira en matarpeningar mínir ráða við fór ég af stað með söfnun á Karolinafund. Hugmyndin er að úr þessu verður svo efni fyrir sjónvarp, innsetningar og tónlistarmyndbönd. En fyrst og fremst er ég að þessu því ég vil varðveita þennan íslenska þjóðararf sem þjóðlögin okkar eru og ég mér þykir eðlilegt að gera það með þessum hætti, úti í íslenskri náttúrunni eða öðrum óhefðbundnum tónleikastöðum. Upplifunin verður sterkari í þessum aðstæðum og maður sér hreinlega lögin ljóslifandi fyrir sér,“ segir Anna að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Bland í poka pokinn tæmdur

Myndlistarkonan Tinna Rós Þorsteinsdóttir, sem gengur undir listamannsnafninu Tinna Royal var bæjarlistamaður Akraness árið 2020. Hún var að ljúka sýningu... Lesa meira

Hvaðan kemur Regnbogafáninn?

Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á... Lesa meira