adsendar-greinar Mannlíf
Sylvía kennir söng við Tónlistarskólann í Stykkishólmi og er að fara af stað með söngnámskeið í Grundarfirði. Ljósm. tfk.

Flutti heim og kennir söng í Stykkishólmi

Sylvía Rún Guðnýjardóttir flutti aftur heim til Grundarfjarðar síðastliðið sumar og kennir nú söng við Tónlistarskólann í Stykkishólmi og stefnir á að bjóða upp á námskeið í Grundarfirði. Sylvía er fædd og uppalin í Grundarfirði en flutti þaðan til Reykjavíkur þar sem hún hefur búið undanfarin ár. Sylvía hefur alltaf verið syngjandi en fór að syngja af meiri alvöru þegar hún var ellefu ára gömul. Þá fór hún að syngja í brúðkaupum og við aðra viðburði og hefur ekki hætt síðan. Hún stóð fyrir söngkeppni á bæjarhátíðinni Á góðri stund í Grundarfirði þegar hún var 18 ára og tók þátt í Idol keppninni árið 2009. „Það má alveg segja að ég hafi alltaf ætlað mér að verða söngkona en það var líka draumur að vera söngkennari. Þegar ég hélt söngkeppnir í nokkur ár með mömmu minni Á góðri stund í Grundarfirði var þetta ekkert keppni sem krakkarnir skráðu sig í og mættu svo upp á svið til að keppa. Keppendur komu heim til mín á æfingar. Mér hefur alltaf þótt gaman að kenna og koma minni þekkingu til annara,“ segir Sylvía og hlær.

Allir geta sungið

Í dag er Sylvía búsett í Grundarfirði og kennir söng við Tónlistarskólann í Stykkishólmi og er að fara af stað með söngnámskeið í Grundarfirði. Hún kennir söngtæknina Complete Vocal Technique. „Þetta er frekar nýleg tækni, sem gengur út á að allir geti lært að syngja. Fólki er kennt á röddina sína, hvernig hún virkar svo viðkomandi geti sungið. Öll hljóð er hægt að gera á heilbrigðan hátt allt frá klassískum söng yfir í þungarokk,“ útskýrir Sylvía. En hvers vegna þessi tækni? „Þetta byrjaði allt árið 2004 þegar stofnandi Complete Vocal tækninnar Cathrine Sadolin var á Íslandi og ég hitti hana. Hún seldi mér alveg þá hugmynd að þessi tækni væri fyrir mig. Ég komst að því að margt af því sem ég var þegar að gera var í raun það sama og við notum í Complete Vocal tækninni,“ segir hún. Sylvía fór árið 2016 á námskeið í tækninni hjá söngkonunni Heru Björk. Eftir það ákvað hún að skrá sig í þriggja ára nám við Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn sem hún lauk síðastliðið sumar. Samhliða náminu kenndi hún í Söngsteypunni og Tónlistarskólum í Reykjavík.

Gott að vera komin í Grundarfjörð

Aðspurð segist Sylvía mjög ánægð að vera komin aftur í Grundarfjörð. „Það var eiginlega dóttir mín sem er nýorðin ellefu ára sem fékk mig til að flytja hingað aftur,“ segir Sylvía og hlær. „Hún var búin að suða um þetta lengi. Svo þegar ég kynntist sjómanni frá Ólafsvík varð möguleiki að flytja hingað aftur, sem er frábært,“ bætir hún við. Auk þess að kenna söng er Sylvía að syngja í kirkjunni Catch the fire í Reykjavík alla sunnudaga. Söngnámskeiðið sem Sylvía er að fara af stað með í Grundarfirði er ætlað 17 ára og eldri og verður kennt tvö kvöld í viku aðra hverja viku í Samkomuhúsinu í Grundarfirði. „Ég ákvað að hafa ekki fleiri en fimm á námskeiðinu bæði útaf Covid og svo þá getum við haft námskeiðin styttri. Við munum byrja klukkan 19:30 og vera til klukkan 22:00,“ segir hún. Áhugasamir geta fundið Sylvíu á Facebook og haft þar samband við hana.

Líkar þetta

Fleiri fréttir