adsendar-greinar Mannlíf
Fjölskyldan í Bakkakoti; Lilja Rannveig og Ólafur Daði með börnin sín; Hauk Axel þriggja ára og Kristínu Svölu átta mánaða.

Fékk ung brennandi áhuga á pólitík

Nýverið lá ljóst fyrir hvernig röðun efstu manna yrði á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningar í haust. Framsóknarflokkurinn reið á vaðið og stóð fyrstur stjórnmálaflokkanna fyrir póstkosningu þar sem tæplega 1200 félagsmenn greiddu atkvæði. Síðan hafa línur tekist að skýrast, meðal annars hjá Samfylkingunni og Pírötum hér í Norðvesturkjördæmi. Í fyrsta sæti á lista Framsóknar verður Stefán Vagn Stefánsson, lögregluvarðstjóri á Sauðárkróki og forseti sveitarstjórnar Skagafjarðar, en í öðru sæti er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, kennaranemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna. Hún er nú varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi og hefur á kjörtímabilinu tekið sæti á þingi.

Lilja Rannveig er búsett á æskuheimili sínu í Bakkakoti í Stafholtstungum ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum þeirra. Þau búa nú í elsta íbúðarhúsinu á bænum, húsi sem Axel og Kristín, langafi og langamma hennar byggðu. Ef fylgi Framsóknarflokksins í kosningunum í haust verður svipað og það var fyrir kosningarnar fyrir fjórum árum er Lilja Rannveig mögulega á leiðinni á þing. Hún yrði þá um leið í röð yngstu þingmanna, en hún fyllir 25 ára afmælið tíu daga fyrir kjördag í haust. „Iðulega hef ég átt afmæli á réttardaginn, þegar búannir á mínu heimili standa sem hæst. Þegar ég kom í heiminn var pabbi einmitt í leitum og var honum ekið með hraði ofan úr Fornahvammi og á Akranes til að geta verið viðstaddur fæðingu frumburðar síns. Ófáum afmælisdögum 14. september hef ég því varið við réttarvegginn í Þverárrétt. Foreldrar mínir, Kristín Kristjánsdóttir og Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, reka fjárbú hér í Bakkakoti, tóku við búi foreldra mömmu, sem aftur tóku við búi af foreldrum afa,“ segir Lilja Rannveig í samtali við Skessuhorn. Sjálf hefur Lilja Rannveig nú stofnað fjölskyldu, er gift Ólafi Daða Birgissyni og saman eiga þau tvö börn; Hauk Axel þriggja ára og Kristínu Svölu átta mánaða. Þau giftu sig um jólin, í miðju kóvíd ástandi, en ætla að blása til stórrar veislu síðar þegar aðstæður leyfa. Blaðamaður Skessuhorns settist niður með Lilju Rannveigu á sunnudaginn. Á næstu vikum og misserum mun í Skessuhorni verða rætt við þá frambjóðendur sem kalla eftir stuðningi til að gegna þeim mikilvægu störfum að verða fulltrúar Norðvesturkjöræmis á þingi í kosningunum 25. september.

Fer nú í framboðsfrí

„Ég og maðurinn minni Ólafur Daði höfum þekkst frá því við vorum í Versló. Þar vorum við bestu vinir en urðum ekki par fyrr en á sjálfan útskriftardaginn. Við höfðum ákváðum fyrir útskriftina að flytja saman í Búðardal og unnum um sumarið á Eiríksstöðum og veturinn eftir í leikskólanum í Auðarskóla í Búðardal. Hugurinn hjá okkur báðum leitar í Dalina og býst ég við að ef við byggjum ekki í Borgarfirði, þá værum við þar. Við hófum síðan háskólanám, ég innritaðist í stjórnmálafræði en Ólafur í félagsfræði. Strákurinn okkar fæddist svo tveimur mánuðum fyrir tímann, í miðjum jólaprófunum, og við ákváðum að hætta bæði í náminu og flytja í Borgarfjörðinn. Fluttum inn í gamla íbúðarhúsið í Bakkakoti sem langafi og langamma byggðu og erum nú smám saman að gera það upp. Þannig að nú eru fjórir ættliðir búsettir í Bakkakoti, í þremur íbúðarhúsum. Eftir að sonur okkar fæddist fór ég í kennaranám og er nú á þriðja ári í því, með áherslu á faggreinakennslu og samfélagsfræði. Ólafur Daði er núna í uppeldis- og menntunarfræði en stefnir síðan á talmeinafræði þegar hann lýkur fæðingarorlofi. En fæðingarorlofið sem ég tók frá náminu mínu mun nú breytast og verða framboðsfrí vegna þessara jákvæðu úrslita sem urðu fyrir mig í prófkjörinu,“ segir Lilja Rannveig.

Áhugi fyrir pólitík frá barnsaldri

Lilja Rannveig segist ung hafa fengið áhuga fyrir stjórnmálum. „Pólitík var mikið rædd á mínu heimili í uppvextinum og sjálfsagt hef ég fengið bakteríuna snemma. Ég fór ung að fylgjast með þeirri umræðu og fékk meira að segja að fara með pabba á kjördæmisþing. Hlustaði af andakt á ræður sem fluttar voru en setti mig svo síðar inn í málefnin. Í unglingadeild grunnskólans á Varmalandi var ég farin að taka þátt í ræðukeppnum og var kosin formaður í nemendafélaginu. Þegar ég svo fór suður til náms í Verslunarskólann lenti ég í að leigja húsnæði á fjórum stöðum á jafnmörgum árum. Fór því að skrifa um mikilvægi þess að ungu fólki af landsbyggðinni yrði tryggt viðunandi leiguhúsnæði á námsárunum. Það varð svo mitt fyrsta þingmál þegar ég sem varaþingmaður í Norðvesturkjördæmi tók fyrst sæti á þingi. En í aðdraganda þess að ég valdi Framsóknarflokkinn til að starfa með, hafði ég skoðað stefnur annarra stjórnmálaflokka og fannst ég samsama mér best með Framsókn. Ég var í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna í þrjú ár áður en ég bauð mig fram sem formaður í SUF. Fékk afar góða kosningu í það embætti og er ánægð með að hafa fengið tækifæri þar til að láta til mín taka.“

Öflugt nýliðastarf

Sem formaður SUF lagði Lilja Rannveig strax mikla áherslu á að auka nýliðastarf í flokknum og gera það heillandi fyrir ungt fólk að taka þátt í stjórnmálum. „Við til dæmis komum á mánaðarlegum fundum með forystufólki í flokknum þar sem ungt fólk getur milliliðalaust rætt við ráðherrana okkar og komið að sínum skoðunum. Þetta hefur síðan orðið til þess að virkasta ungliðastarfið er einmitt hjá okkur í Framsókn. Því hlakka ég mjög til að beita mér í komandi kosningabaráttu og virkja fleiri á mínu reki til góðra verka. Ungt fólk er framtíðin og að sjálfsögðu eigum við að taka virkan þátt í málum sem snúa að okkur sjálfum; hasmunum og réttindum,“ segir Lilja Rannveig. Hún segir að framundan sé ekki endilega að virkja öll þau litlu ungliðafélög sem eitt sinn voru til víðsvegar um landið, heldur reiknar með að félög ungra á kjördæmavísu virki betur sem eining með tilliti til þeirra tækniframfara sem orðið hafa.

Tel listann sterkan

En kom niðurstaðan úr prófkjörinu fyrr í mánuðinum Lilju Rannveigu á óvart? „Bæði og. Ég ákvað það í upphafi þessarar prófkjörsbaráttu að setja mér skýr skilaboð og taka þetta með trukki. Ég stefndi á annað sætið og ekkert annað. Ég hellti mér því í baráttuna af heilum hug, opnaði vefsíðuna liljarannveig.is og kom mér á framfæri víða. Vissulega var ég að keppa á móti stórum nöfnum og öflugum einstaklingum, en baráttan skilaði sér og er ég þakklát fyrir stuðninginn. Kannski hjálpaði það mér að margir eru meðvitaðir um öflugt starf í SUF undir minni forystu og þá hefur það vafalaust einnig hjálpað að ég á mínar rætur hér í kjördæminu; í Borgarfirði, Dölum og Skagafirði, auk þess sem móðuramma mín er úr Vestmannaeyjum. En nú er þessum kafla lokið og ég tel að prófkjörið hafi skilað sterkum og sigurstranglegum lista. Nú tekur við heilmikil vinna við að sannfæra kjósendur um hvernig farsælast er að verja atkvæði sínu,“ segir Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir