adsendar-greinar Mannlíf
Unnsteinn Guðmundsson sýnir hérna einn hvolpinn. Ljósm. tfk.

Fékk átta hvolpa úr gotinu hjá Kolku og Aski

Unnsteinn Guðmundsson og Mandy Nachbar eru búsett í Grundarfirði og una hag sínum vel. Þau eiga tvo þýska veiðihunda, þau Kolku og Ask, en hundarnir eru af tegundinni German Jagterrier og voru fluttir inn frá Ítalíu.

„Það eru til tvö pör af þessari tegund á landinu,“ segir Unnsteinn í stuttu spjalli við Skessuhorn. „Við Mandy fluttum okkar hunda inn frá norður Ítalíu en svo eru hjón í Hafnarfirði sem fluttu inn þessa sömu tegund frá Danmörku og Svíþjóð,“ bætir hann við. Unnsteinn kynntist þessari tegund þegar hann var í villisvína-veiðiferð í Þýskalandi. „Ég sá þessa tegund fyrst í Þýskalandi en Mandy er þaðan. Þar fengum við þessa hugdettu að flytja inn og prófa að rækta upp þennan stofn,“ segir Unnsteinn. Eftir veiðiferðina til Þýskalands hófu þau Unnsteinn og Mandy leit að hundum af þessari tegund. „Við fundum loksins ræktanda sem okkur leist vel á eftir tveggja ára leit. Þá tók við ferli að kaupa svona hund og fengum við Kolku í hendurnar átta mánaða gamla í desember 2018. Askur kom svo til okkar í maí 2019 og nú eru fyrstu hvolparnir komnir.“

Kolka eignaðist níu hvolpa á dögunum og komust átta þeirra á legg. „Þetta eru þrjár tíkur og fimm rakkar og er strax mikil eftirspurn eftir þeim,“ segir Unnsteinn. „Við erum í samstarfi með hjónunum í Hafnarfirði og er stefnan að rækta upp góðan stofn af hreinræktuðum refa- og minkahundum. „Þessir hundar eru rosalega fínir heimilishundar, barngóðir og fjölskylduvænir auk þess að vera frábærir veiðihundar. Ég hef verið með þá á minkaveiðum og refaveiðum og hafa þeir reynst frábærlega. Kolka tók fyrsta minkinn þegar við vorum að keyra heim með hana í fyrsta sinn en þeir hafa náð um það bil 80 minkum hérna á svæðinu síðan við fengum þá. Hjónin í Hafnarfirði hafa notað hundana til að veiða mink og rottur með góðum árangri.“

Þau Askur og Kolka hafa farið á hundasýningu og stóðu sig vel þar enda glæsilegt par. „Nú er bara að hjálpa þeim að koma hvolpunum á legg og halda ræktuninni áfram,“ segir Unnsteinn að endingu og við klöppum þessum krúttlegu hvolpum aðeins meira áður en við kveðjum þessi heiðurshjón.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira