
Döðlunammi með karamellukeim
Til eru ýmsar útfærslur af alls kyns góðgæti úr döðlum. Döðlur eru sætar á bragðið og eru þar af leiðandi oft notaðar í stað sætu í uppskriftum af ýmsum toga. Döðlugóðgæti líkt og þetta sem við birtum hér er bæði til í hollari kantinum sem og óhollari. Við birtum þó óhollari uppskriftina að þessu sinni. Hollari útgáfan er þó svipuð þessari, púðursykrinum er einfaldlega sleppt og örlítið hunang sett í staðinn. Uppskriftin er fengin frá hópi mæðra sem hittast reglulega með börnin sín og segja þær að góðgætið sé hrikalega gott, með karamellubragði. Uppskriftin hefur gengið manna í millum og klárast sælgætið yfirleitt upp til agna á skömmum tíma.
Döðlunammi
500 gr döðlur
150 gr púðursykur
250 gr smjör
5 bollar Rice Krispies morgunkorn
Súkkulaði
Aðferð: Döðlur, smjör og púðursykur soðið saman í potti þar til döðlurnar eru mjúkar. Rice Krispies er sett út í síðast og hrært varlega saman við. Smyrjið blöndunni á plötu með bökunarpappír, þannig að þykktin verði um einn til einn og hálfur cm. Látið kólna. Bræðið því næst dökkt súkkulaði, smyrjið því yfir og látið kólna. Skerið í teninga eða tígla og berið fram.