adsendar-greinar Tækni og vísindi
Eiríkur Jónsson tekur viðtal við tvo Skallagrímsmenn, þá Marinó Þór og Gunnar Örn, í Skallagrímsgarðinum. Ljósm. glh.

Búa til sjónvarp í Borgarnesi og héraði

Nokkrir félagar úr Borgarnesi hafa tekið sig saman og stofnað til Kvikmyndafélags. Það ber nafnið Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar og hóf formlega að framleiða myndefni nú í vor. „Við skrifum nafnið svona vegna þess að það er töff,“ segir Eiríkur Jónsson, félagi í kvikmyndafjelagi Borgarfjarðar í samtali við Skessuhorn. „Við höfum þó lent í vandræðum að fólk er ekki að finna okkur í leitarvélum á vefnum svo við erum að vinna með Kvikborg. Við erum til dæmis komnir með lénið www.kvikborg.is sem leiðir síðan áhorfendur beint inn á YouTube rásina okkar. Einnig erum við undir nafninu Kvikborg á Facebook,“ bætir Eiríkur við.

Byrjaði á blótinu

Skessuhorn fékk að kíkja á sett hjá félögunum á þjóðhátíðardaginn þar sem þeir voru við upptökur í Skallagrímsgarði í Borgarnesi. Þá voru tveir tilvonandi leikmenn Skallagríms að skrifa undir að spila með félaginu, þeir ásamt formanni félagsins voru viðtalsefni kvikmyndafélagsins þann daginn. Ásamt Eiríki í félaginu eru þeir Daði Georgsson, Eðvar Ólafur Traustason, Orri Sveinn Jónsson, Einar Árni Pálsson, Kristinn Óskar Sigmundsson og Arnar Víðir Jónsson.

„Þetta er svona kjarninn sem hefur komið að þessu frá upphafi og þetta er í rauninni sami hópur og sá sem sá um að gera skemmtivídeó fyrir þorrablót Skallagríms sem haldið var í febrúar fyrr á árinu, “ segir Eiríkur. „Þetta byrjaði allt saman þar.“

Draumur í maga

„Það voru einhverjir í hópnum með draum í maganum um að gera sjónvarp. Við töluðum um að okkur langaði að festa á filmu eða á stafrænt form, gullmola í héraðinu. Þessa gömlu nagla í kringum aldamótin sem voru að gera góða hluti. Okkur langaði og langar að festa niður þá sögu,“ segir Eiríkur um hvar hugmyndin kom að því að byrja að gera vídeó. Þeir félagar sóttu um styrki og fjárfestu í græjum og áður en þeir vissu af voru þeir farnir af stað í að búa til efni.

„Við vorum svolítið lengi að koma okkur af stað en allt í einu fór boltinn að rúlla. Við byrjuðum á að gera þætti sem innihéldu þrjá til fjóra mola. Við sáum svo fljótt að það var full langt svo núna sendum við staka mola út,“ segir Eiríkur og bætir jafnframt við að þetta sé heilmikið lærdómsferli. Molar eru þættir þar sem þeir taka stutt og hnitmiðuð viðtöl við fólk úr héraðinu, sum þeirra tímalaus en önnur ekki.

Sagnaritarar í vídeó formi

„Þetta „mola“ verkefni er í rauninni ákveðin upphitun fyrir okkur. Við erum að fikta okkur áfram áður en við förum í stóra verkefnið sem er að festa niður gullmolana sem eiga heima hérna í héraðinu. Eins og er þá ætla ég ekki að nefna nein nöfn en draumurinn er að tala við hetjurnar hérna úr héraðinu sem muna tímana tvenna og geta sagt okkur sögur. Það verða lengri þættir og markmiðið er að gera þá það vel að þeir gætu plummað sig á hvaða sjónvarpsstöð sem er,“ útskýrir Eiríkur, en stefnt er að því að byrja að framleiða gullmolana í haust. Þangað til gera þeir molana í núverandi mynd og segir Eiríkur það vera góðan undirbúning fyrir það sem koma skal.

„Við teljum að þessar hetjur sitji á góðum sögum, og þeim viljum við ekki glata, við viljum að þessar sögur séu til einhversstaðar og að við getum gert þeim góð skil.“

Vinsælt umræðuefni í saumaklúbbum

Eiríkur segir framleiðslu á þáttum hafa gengið virkilega vel hingað til. „Regluverkið í kringum þetta er í rauninni ekkert. Það er eitthvað sem við erum að þróa með okkur í leiðinni. Þannig finnum við út hvað gengur og hvað gengur ekki í svona verkefnum. Þetta er mjög hrátt og það sem gerist, gerist,“ segir Eiríkur léttur en bætir þó við að hann undirbúi sig fyrir hvert viðtal. „Ég er að vísu ekki með blað og reyni eftir fremsta megni að hafa viðtölin í góðu flæði. Það er ákveðin kúnst að ná því. Sumir eru til dæmis málglaðari en aðrir. Börn eru öðruvísi en fullorðnir og unglingar eru erfiðir,“ bætir hann við og hlær.

Vídeóin sem Kvikmyndafjelag Borgarfjarðar hafa sent frá sér hafa fengið góðar viðtökur og fólk almennt spennt að sjá næsta þátt. „Við erum að fá gríðarlega góðar móttökur. Það virðist vera fólk yfir fimmtugt sem er mjög ánægt með þetta framtak hjá okkur. Ég heyri oft að þetta er rætt í saumaklúbbum og á kvenfélagsfundum, þar er helsti aðdáendahópurinn okkar,“ segir Eiríkur ánægður að lokum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Eva Laufey til Hagkaupa

Skagakonan Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir hefur verið ráðin markaðs- og upplifunarstjóri Hagkaupa. Eva Laufey er viðskiptafræðingur að mennt og hefur... Lesa meira

Einhverfa er allskonar

Samtökin Blár apríl – Styrktarfélag barna með einhverfu hafa ákveðið að leggja bláa litnum og taka upp nafnið Einstakur apríl.... Lesa meira