adsendar-greinar Mannlíf
Guðný Bjarnadóttir og Gréta Björgvinsdóttir hafa opnað Borg útfararþjónustu. Ljósm. aðsend.

Borg útfararþjónusta er nýtt fyrirtæki á Vesturlandi

Borg útfararþjónusta er nýstofnað þjónustufyrirtæki sem er í eigu Grétu Björgvinsdóttur og Guðnýjar Bjarnadóttur í Borgarnesi. Fyrsta útförin í umsjón þeirra fór fram í liðinni viku. Skessuhorn fékk að forvitnast nánar um Borg útfararþjónustu og heyrði hugmyndir þeirra Grétu og Guðnýjar um starfsemina. ,,Fátt er tilviljun í lífinu og margt virðist vera skrifað í handrit. Við stöllurnar þekktumst ekkert þegar við fluttum í Borgarnes með þriggja mánaða millibili í kringum áramótin 2017 – 2018. Rúmum tveimur árum síðar rekum við saman nýstofnaða útfararþjónustu,“ segja þær Gréta og Guðný aðspurðar um aðdragandann að stofnun fyrirtækisins. Þær segjast ætla að leggja áherslu á að þjóna öllu Vesturlandi og að útfararstofuleyfið sé ekki bundið við eitt svæði frekar en annað. Engu að síður vilja þær þjóna hverjum sem vill nýta þjónustu óháð staðsetningu.

Dúfan er merkið

Guðný og Gréta segja að Borg útfararþjónusta muni leggja áherslu á persónulega þjónustu með virðingu og fagmennsku í fyrirrúmi. Samfélagið sé sífellt að verða flóknara, fjölmenning að aukast og mikilvægt sé að virða ólíkar þarfir og skoðanir fólks. „Við ætlum að leggja áherslu á að Borg útfararþjónusta veiti upplýsingar um útfararkostnað svo hann sé þekktur áður en til útfarar kemur og rík áhersla verður lögð á að þjónustan taki mið af aðstæðum fólks á sorgartíma. Við leggjum einnig áherslu á gott samstarf við aðra aðila sem koma að þjónustu í tengslum við andlát og útför,“ segir Gréta. Hún bætir við að merki fyrirtækisins, dúfan, sé samnefnari fyrir þær áherslur sem Borg hafi í þjónustu sinni. „Við völdum dúfuna hans Nóa sem sagt er frá í fyrstu Mósebók,“ segir Guðný. „Dúfuna sem sveif yfir ólgandi ringulreið hafsins og færði Nóa von í formi trjágreinar, sem sýndi að það var land og gróður framundan. Þannig viljum við skapa fólki von um að það sé land framundan og að í sorginni megi rækta það nýja land sem birtist eftir lát ástvina,“ segja þær Guðný og Gréta.

Þegar byrjaðar

,,Ég hafði kynnt mér rekstur útfararþjónustu þegar ég flutti í Borgarnes en taldi ekki tímabært að fara lengra með það verkefni á þeim tíma. Gréta starfaði sumarið eftir að hún flutti með þeim aðila sem hér hefur rekið útfararþjónustu. Við stöllurnar höfum ólíkan bakgrunn og teljum það jákvætt þegar kemur að því að þjóna fólki við erfiðar aðstæður,“ segur Guðný. „Það var svo sameiginleg vinkona sem kynnti okkur og niðurstaðan var að við hófum í haust undirbúning að stofnun útfararþjónustu og áætluðum að hefja þjónustu í byrjun apríl. Við fengum starfsleyfi í mars og erum komnar með það sem til þarf fyrir þjónustuna,“ segir Guðný og bætir við að þær hafi þegar hafið störf en apríl var ekki genginn í garð þegar rætt var við þær.

Bakgrunnurinn hjálpar

Guðný er ættuð frá Kjalvararstöðum í Reykholtsdal og er hjúkrunarfræðingur, ljósmóðir og djákni. Hún hefur starfað víða í heilbrigðiskerfinu allt frá 1972, lengst bjó hún í fjóra áratugi í Vestmannaeyjum. Hún var vígð sem djákni til Ofanleitissóknar í Vestmannaeyjum 2008.

Gréta bjó á Álftanesi ásamt fjölskyldu sinni í þrjátíu ár áður en þau hjónin fluttu í Borgarnes. Hún hefur alið upp fjögur börn og er orðin tíu barna amma. Lengst af starfaði hún á ljósmyndastofu í eigu fjölskyldunnar. Þá hefur hún unnið við umönnunarstörf og starfað sem sjálfboðaliði hjá RKÍ. Gréta lærði hárgreiðslu og fleira sem snýr að snyrtingu. Þá lagði hún stund á list- og hönnunarnám sem lauk með útskrift frá keramikdeild Myndlistaskólans í Reykjavík. Í dag rekur hún leirverkstæðið Litlu-Ljót í Borgarnesi.

Aðspurðar segjast þær Guðný og Gréta líta björtum augum til þjónustu við íbúa á Vesturlandi. „Við sjáum að það er þörf fyrir þjónustu af því tagi sem við ætlum að bjóða. Við erum komnar með það sem til þarf og erum til þjónustu reiðubúnar,“ segja Guðný Bjarnadóttir og Gréta Björgvinsdóttir að endingu.

Að endingu má benda á heimasíðuna borgutfor.is og á Facebook undir Borg útfararþjónusta.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira