adsendar-greinar Mannlíf
Hvalfell í Hvalfirði. Ljósm. Þórdís Björnsdóttir.

Áhuginn var endurvakinn með stafrænu tækninni

Þórdís Björnsdóttir hefur alltaf haft gaman af ljósmyndun en segir þó áhugann hafa kviknað fyrir einhverri alvöru árið 2005 þegar hún eignaðist sína fyrstu stafrænu myndavél. „Ég gæti ekki sagt þér hvernig myndavél ég átti fyrst. Líklega var ég í kringum 16 ára aldurinn þegar ég eignaðist myndavél en ég er löngu búin að gleyma hvaða tegund það var. Á 6. og 7. áratugunum tóku Kodak Instamatic við og mátti finna þær vélar á flestum heimilum á þessum tíma. Í dag er ég hins vegar að skjóta á Canon eos 80D og nota í leiðinni aðallega tvær linsur; Sigma 17-70 mm í landslagsmyndir og svo Sigma 100-400 mm í fuglamyndatökur,“ segir Þórdís.

Nauðsynlegt að eiga áhugamál

Þórdís hefur búið á Akranesi síðan 1961 en er alin upp í Fljótshlíðinni í Rangárvallarsýslu. Sama ár giftist hún eiginmanni sínum, Þorvaldi Guðmundssyni, og fluttu þau í kjölfarið á Akranes. Saman eignuðust þau fjögur börn, þrjá stráka og eina stelpu, barnabörnin eru orðin sex og það yngsta rúmlega ársgamalt. Í dag tekur Þórdís því rólega eftir að hún hætti að vinna. Hún les mikið, hlustar á bækur, horfir á sjónvarp og tekur myndir þegar tími gefst auk þess sem hún hugsar um heimilið sem hún segir auðvelt verk þar sem þau hjónin eru tvö eftir í kotinu. „Ég hef átt nokkur áhugamál í gegnum tíðina, t.d. var ég mikið í bútasaum sem veitti mér mikla ánægju í fleiri ár. Ég er þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að eiga sér áhugamál, sérstaklega eftir að komið er á eftirlaun. Það er úr svo mörgu að velja að allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.“

Fjölbreytt myndefni

„Ég hef gaman af svo mörgu þegar kemur að ljósmyndun. Í fyrstu myndaði ég mest landslag, ég var líka alltaf með myndavélina á lofti í ferðalögum. Mér þykir nefnilega sérstaklega gaman að mynda fólk í útlöndum. Á sumrin mynda ég mikið blóm og fugla. Einnig er ég duglega að prófa mig áfram í myndvinnsluforritinu Photoshop, og þykir mér gaman að fikta í myndum, svo þetta er mjög fjölbreytt og skemmtilegt hjá mér,“ segir Þórdís en bætir við að fuglaljósmyndun sé líklega hennar uppáhalds myndefni því það er svo vandasamt að ná góðum og nothæfum myndum af fuglunum sem flestir eru yfirleitt alltaf á hreyfingu og með varann á.

Það að taka myndir er ekki alltaf eins einfalt og það, að taka myndir. Til að ná góðri mynd sem fangar augu annarra þarf að hafa ýmislegt í huga. Ljós spilar stórt hlutverk á hverri mynd sem er tekin sem og myndbygging sömuleiðis. „Ljósmyndun getur verið mjög tæknileg. Þegar ég byrjaði með fyrstu stafrænu myndavélina mína hafði ég ekki kynnt mér mikið tæknilegu hliðina á ljósmyndun. Í dag veit ég aðeins meira og hef aflað mér upplýsinga á netinu og var áskrifandi að ljósmyndablöðum. Ég er einnig meðlimur í félagi áhugaljósmyndara á Akranesi, Vitanum, þar er fræðsla og stuðning að fá,“ segir Þórdís.

Góð mynd á að vekja áhuga

Þórdís hefur tekið einhver ósköp af myndum í gegnum tíðina eins og hún orðar það sjálf. „Ég á myndir af næstum öllum kirkjum á landinu, um 360 talsins og við hjónin höfum ferðast mikið um landið og myndað allt mögulegt. Ég á að vísu ekki allar myndir sem ég hef tekið og reyni að henda öllum misheppnuðu myndunum en geyma aðrar á flökkurum og myndlyklum. Einnig hef ég prentað út mikið af myndum, þá helst þær sem ég vil alls ekki glata,“ útskýrir Þórdís sem segir aðalatriðið að góðri mynd sé skerpa, falleg birta, áhugavert myndefni og allt í fókus. „Að mínu mati er mynd góð ef hún vekur áhuga, undrun og spurningu áhorfandans, en það er alltaf vandi og skemmtileg áskorun,“ segir Þórdís að endingu.

Þórdís Björnsdóttir var sagnaritari samtímans í Jólablaði Skessuhorns 2019. Í því má sjá fleiri myndir Þórdísar. Ljósm. glh.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira