adsendar-greinar Tækni og vísindi
Blaðamennirnir Finnbogi Rafn Guðmundsson og Anna Rósa Guðmundsdóttir á Skessuhorni á fyrsta Teams fundi norrænu fjölmiðlanna sem fram fór í mars.

Skessuhorn þátttakandi í norrænum viðskiptahraðli á vegum Facebook

Samfélagsmiðillinn Facebook auglýsti síðastliðinn vetur eftir svæðisbundnum fjölmiðlum á Norðurlöndunum til þátttöku í nýjum viðskiptahraðli. Nú um helgina greindi fyrirtækið svo formlega frá verkefninu sem raunar hófst í mars. Í viðskiptahraðlinum voru samþykktar umsóknir frá sextán fjölmiðlafyrirtækjum víða af Norðurlöndunum sem valin voru úr hópi hundruða umsækjenda. Þeirra á meðal er Skessuhorn sem einn íslenskra fjölmiðla var valið til þátttöku.

Í stuttu máli gengur Facebook viðskiptahraðallinn út á að styðja starfandi svæðisbundna fjölmiðla á Norðurlöndunum til að hagnýta nýstárlegar hugmyndir í fjölmiðlun og dreifingu frétta og ekki síst að laga sig betur að stafrænni fjölmiðlun. Í verkefninu er leitað leiða til að auka tekjustreymi og takast þannig á við breytingar sem fjölmiðlar víðsvegar um heiminn þurfa að mæta. Sextán fyrirtæki á Norðurlöndunum voru valin til þátttöku í viðskiptahraðlinum og er hvert þeirra stutt til þátttöku með um 50 þúsund dollara styrk frá Facebook. Litið er svo á að það sé hagur Facebook að efla fjölmiðla sem víðast um heiminn, enda byggir samfélagsmiðillinn fyrst og fremst afkomu sína á deilingu ritstýrðra frétta sem eiga uppruna sinn hjá öðrum en þeim sjálfum. Í þessu verkefni á Norðurlöndunum eru Avisa Lofoten í Noregi og Skessuhorn á Íslandi fámennustu fjölmiðlafyrirtækin sem þátt taka. Meðal stærstu miðlanna eru fjölmiðlafyrirtæki á borð við Det Nordjyske Mediehus í Danmörku og Keskisuomalainen Oyj í Finnlandi sem gefur út yfir 70 svæðisbundna miðla í fimm héruðum. Hjá finnska fjölmiðlinum eru um 1200 starfsmenn.

Deila þekkingu

Facebook viðskiptahraðallinn felst í að miðla þekkingu og fræðslu innan hópsins en þeirri vinnu stýrir Tim Griggs, stofnandi og forstjóri Blue Engine Collaborative en hann var áður framkvæmdastjóri The New York Times og Texas Tribune. Espen Egil Hansen, fyrrverandi ritstjóri Aftenposten í Noregi, er þjálfari í verkefni norrænu fjölmiðlanna. Allir hafa þátttakendur í verkefninu mismunandi áherslur í fjölmiðlarekstri sínum og þar af leiðandi mismunandi þekkingu og reynslu til að deila með hver öðrum. Þátttakendahópurinn var valinn af Facebook ásamt International Center for Journalists (ICFJ) og þjálfurum Nordic Accelerator. „Þetta er framúrskarandi hópur útgefenda frá öllum svæðum Norðurlandanna, fyrirtæki sem hafa ólík tekjulíkön í rekstri sínum,“ segir Tim Griggs í tilkynningu.

Með þátttöku í viðskiptahraðlinum felast meðal annars vikulegir fjarfundir á Teams fyrstu þrjá mánuðina en að þeim tíma loknum verða mánaðarlegir vinnufundir út þetta ár. Þátttakendur leysa fjölbreytt verkefni; greina stöðu fyrirtækja sinna og setja markmið í rekstri sem byggja á því að fréttir sem þau skrifa nú þegar nái til stærri hóps lesenda. Verkefninu lýkur síðan í janúar 2022.

Til móts við nýja tíma

„Það er að sjálfsögðu mikill heiður fyrir Skessuhorn að hafa verið valið til þátttöku. Í raun erum við sem afar lítill fjölmiðill í hinu stóra samhengi að henda okkur beint út í djúpu laugina. En ég lít á það sem skyldu okkar að taka þátt. Vonandi mun þessi vinna svo leiða til þess að Skessuhorn, líkt og aðrir þátttakendur, mæta nýjum áskorunum í framtíðinni með þeim hætti sem tæknibreytingar og breyttar áherslur í upphafi fjórðu iðnbyltingarinnar fela í sér. Í þessu felst því áskorun en vonandi upphaf að lengra lífi staðbundinna, ritstýrðra fjölmiðla,“ segir Magnús Magnússon ritstjóri Skessuhorns.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir