adsendar-greinar Mannlíf
Egill Örn og Bryndís Inga eru nýflutt á Bifröst. Þau eru bæði að hefja nám og eru spennt að nýta sér Bifröst sem búsetukost á meðan á náminu stendum. Ljósm. Skessuhorn/glh

Segjast flutt í sannkallaðan sælureit á Bifröst

Egill Örn Rafnsson og Bryndís Inga Reynis, ásamt hundinum Katli, fluttu nýverið úr Reykjavík og á Bifröst. Þau hafa nýtt vel síðustu vikuna í að taka upp úr kössum og koma sér fyrir í íbúð sinni á Bifröst og leynir sér ekki spenningurinn fyrir nýja staðnum. „Þetta er búið að vera æði. Maður getur rétt úr sér hérna,“ segir Egill en hann og Bryndís bjuggu áður í 40 fermetra kjallaraíbúð í miðborg Reykjavíkur og segja þau viðbrigðin mikil að vera komin í 85 fermetra raðhús fyrir mun lægri leigu. „Það var ekki einu sinni pláss fyrir eldhúsborð. Svo þurfti ég alltaf að beygja mig til að komast inn á baðherbergi,“ segir Bryndís um kjallaraíbúðina í Reykjavík. „Það er æðislegt hvað er hátt til lofts hérna. Okkur líður strax rosalega vel og sofum bæði eins og börn. Það er einmitt fínt að koma hingað núna í byrjun ágúst, koma okkur fyrir í rólegheitum og kynnast umhverfinu áður en skólinn byrjar,“ bætir hún við. „Við tókum allt upp úr kössunum og settum á sinn stað. Við nennum ekkert að breyta um íbúð né neitt svoleiðis og ætlum okkur að vera hér á meðan náminu stendur,“ segir Egill. „Við ákváðum að ef við ætlum að gera þetta þá myndum við gera þetta af alvöru.“ Bryndís segir einmitt mikinn kost að fá að hengja upp myndir í íbúðinni til að búa til meiri heimilisstemningu, en yfirleitt er það ekki leyft í stúdentaíbúðum eins og í Reykjavík. „Okkur áskotnaðist þessi hundur í sumar. Ég hélt alltaf að það mætti ekki vera með dýr en það má hér svo við tókum hann með sem er geggjað,“ segir Bryndís um Ketil.

Egill rifjar upp í kjölfarið að hafa heyrt frá nokkrum einstaklingum, áður en þau Bryndís fluttu á staðinn, sem höfðu búið á Bifröst í einhvern tíma, að það hefði verið bestu ár lífs þeirra. „Ég hafði bara heyrt jákvætt. Ég skil það alveg núna þó þetta sé eiginlega ekki almennilega byrjað. Ég er farinn að sjá hvað þau meina.“ Bryndís tekur undir. „Það er einhver góð orka hérna.“

En af hverju að flytjast á Bifröst?

„Mér datt þetta einhvern veginn í hug að koma á Bifröst og fara í nám hér. Ég var að klára frumgreinadeildina í HR í vor og var farin að hugsa um næstu skref. Ég þurfti heldur ekkert að sannfæra Egil um að koma með mér því um leið og hann sá skapandi greinar sem eina af námsleiðunum, þá var þetta eiginlega borðleggjandi,“ segir Bryndís um ákvörðunina.

Egill og Bryndís misstu bæði vinnuna sína þegar Covid skall á. Egill var að leiðsegja amerískum ferðamönnum um landið og Bryndís hefur verið að reka bar á hóteli. „Það var ekkert annað í boði en að koma í ódýrara húsnæði sem er eiginlega lán í óláni,“ segir Egill um aðstæðurnar hjá þeim.

Bryndís skráði sig í viðskiptafræði með áherslu á markaðssamskipti og samfélagsmiðla. „Mér fannst þessi námsbraut svo heillandi. Mig langaði líka mikið til að njóta þess að vera í námi. Ég kláraði ekki menntaskólann á tilteknum tíma heldur vann og vann og vann í staðinn. Ég hætti að vinna um síðustu áramót með skólanum þegar ég var að klára í HR. Mér finnst að maður eiga að leyfa sér meira að vera bara í skóla og ekki alltaf í endalausri kvöldvinnu eða helgarvinnu samhliða því. Maður hefur alltaf gert þetta og það gleymist oft að skólinn er 100% vinna út af fyrir sig,“ segir Bryndís staðráðin í að njóta þess að vera í námi. „Ég vil skila af mér góðum einkunnum og taka með mér út í lífið það sem ég læri hér. Ég er ótrúleg spennt fyrir þessu.“

Egill skráði sig í nýja námsleið, skapandi greinar, hjá háskólanum. „Ég þekki sjálfan mig það vel og það er ekki séns að ég færi að læra á kvöldin, ég er svo góður við sjálfan mig,“ segir Egill og hlær. „Nei, nei, þetta er eiginlega bara heppileg tilviljun. Það er langt síðan ég hef verið í skóla vegna mikilla anna í vinnu síðustu ár, þangað til núna. Ég var að fara með Ameríkana í hringferðir um landið og fimm daga ferðir sömuleiðis. Það eru engir Ameríkanar að koma til landsins núna og hluti af mér er eiginlega bara feginn. Planið var upphaflega að vinna með náminu en í staðinn get ég verið hér að læra í rólegheitunum,“ útskýrir Egill en ásamt því að hafa verið að leiðsegja Ameríkönum þá er hann tónlistarmaður og spilar á trommur í þungarokkshljómsveitinni DIMMU.

Ég elska „hér“

Parið segir ekkert mál að aðlagast sveitalífinu á Bifröst. „Við erum í rauninni búin að lifa eins og sígaunar síðan 1. júní. Við sögðum upp íbúðinni okkar í Reykjavík og erum búin að búa í tösku og vera mest megnis úti á landi í allt sumar. Ég held við séum búin að keyra 10.000 kílómetra síðan í maí,“ segir Egill um líf þeirra síðustu mánuði.

„Ég er sérstaklega spennt fyrir því að fara út fyrir rammann og temja mér aðrar venjur. Ég hef alltaf búið í Reykjavík, ættingjar mínir eru bara í Reykjavík svo þetta er glænýtt fyrir mér að flytja út á land,“ segir Bryndís ánægð með að þessi hugmynd, að flytja á Bifröst, hafi komið til sín. „Við erum duglegri að elda saman. Við nýtum tímann til þess að fara í göngutúra, tíma sem væri annars varið í umferð í Reykjavík,“ bætir hún við.

„Það er einmitt aldrei umferð hérna. Bara að búa niðri í bæ, það tekur allt klukkutíma í bíl nánast sama hvað þú ert að gera. Einmitt þessi klukkutími nýtist okkur núna í göngutúr,“ bætir Egill samstundis við. „Ég var einmitt á rölti um daginn með Ketil og ég bara skil ekki af hverju það eru ekki allar íbúðir fullar. Ég bara skil það ekki! Sérstaklega eins og ástandið er á leigumarkaðinum í Reykjavík í dag, hann hefur verið sturlaður,“ segir Egill ennfremur. „Hér erum við í miklu stærra og ódýrara húsnæði. Við getum bæði verið á námslánum og samt átt rólegar nætur þar sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af leigupeningum ásamt því að geta leyft okkur eitthvað smá. Þetta snýst soldið um hvaða upplifun þú ætlar að gera fyrir þig úr þessu. Við vorum ekki að koma hingað til að finna partí í hverju húsi. Við vildum finna rólegt og þægilegt námsumhverfi og njóta þess að vera saman. Allt annað er plús,“ segir Bryndís. „Við höfum allt sem við þurfum hér. Ef maður þarf virkilega að komast til Reykjavíkur þá bara skutlast maður.“

„Ég held einmitt að það sé auðvelt að selja þessa hugmynd að búa hérna þegar fólk er komið á staðinn. Eina sem ég hef áhyggjur af er að þegar við flytjum héðan að ekkert verði nógu gott fyrir okkur. Ég held við segjum á hverjum einasta degi, ég elska hér,“ segir Egill kíminn að lokum.

Sjá nánar umfjöllun um lífið á Bifröst í síðasta Skessuhorni.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Stormur í Hjarðarholtskirkju

Í gærkvöldi voru tónleikar haldnir í Hjarðarholtskirkju í Dölum. Tvær ungar konur; Ásta Soffía Þorgeirsdóttir og Kristina Farstad Bjordal, sem... Lesa meira

Vefurinn List fyrir alla

Nú má nálgast yfirlit yfir öll menningarhús, sýningar, söfn og setur sem miðla list og menningu til barna og ungmenna... Lesa meira